24.01.1949
Neðri deild: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í C-deild Alþingistíðinda. (4016)

108. mál, Framfarasjóður búnaðarsambanda

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér lítið frv. á þskj. 255 ásamt hv. þm. A-Húnv. og hv. 2. þm. Eyf. Frv. þetta fer fram á, að ríkissjóður leggi til árlega 300 þús. kr., sem leggist í sérstakan sjóð, er nefnist Framfarasjóður búnaðarsambanda. Ástæðan til þess, að við flytjum þetta frv., er sú, að okkur er kunnugt um, að búnaðarsamböndin eru nú í mikilli fjárþröng vegna ýmiss konar framkvæmda, sem þau hafa með höndum, og einnig vegna þess, að þau hafa misst tekjustofn, sem mörg þeirra treystu á, sem er helmingurinn af búnaðarmálasjóði, en eins og hv. þm. er kunnugt, var l. um búnaðarmálasjóð breytt á síðasta Alþ. þannig, að helmingurinn rennur til búnaðarsambandanna, en hinn helmingurinn fer til Stéttarsambands bænda. Nú geri ég ekki ráð fyrir því, að mörg búnaðarsambönd hafi gert fjárhagsáætlun á þeim grundvelli að reikna með öllum búnaðarmálasjóðnum, vegna þess að það var vitað, að honum yrði breytt, enda vitað, að honum hefur verið breytt, eftir að sum samböndin gerðu fjárhagsáætlun, en ég geri ráð fyrir, að þau hafi flest reiknað með sama tillagi frá Búnaðarfélagi Íslands fyrir árið 1948 og 1947, þar sem tillag ríkissjóðs til Búnaðarfélags Íslands er engu minna fyrir það ár, en áður. En sú varð raunin á, að tillag Búnaðarfélags Íslands til búnaðarsambandanna fyrir árið 1948 var skorið niður um helming frá því, sem var 1947, og það er þess vegna, sem það er kunnugt, að ýmis búnaðarsambönd eru nú í fjárþröng og eiga erfitt með að halda þeirri starfsemi áfram, sem byrjað var á, þegar reiknað var með sama fjárframlagi frá Búnaðarfélagi Íslands og verið hafði áður og þessum hluta búnaðarmálasjóðs, sem þau nú fá. Hvers vegna Búnaðarfélag Íslands hefur skorið niður um helming framlag sitt til búnaðarsambandanna, er mér ekki að öllu leyti kunnugt, en sagt hefur verið, að það væri vegna þess, að búnaðarsamböndin fengju fé frá búnaðarmálasjóði. Þetta eru út af fyrir sig ekki rök, sem hægt er að taka gild, vegna þess að Búnaðarfélagi Íslands er kunnugt um það, að með aukinni ræktun og margs konar auknum framkvæmdum hjá búnaðarsamböndunum er aukin þörf fyrir fjármagn, og það var vitað, að búnaðarsamböndin ætluðu að treysta á sama fjárframlag frá Búnaðarfélaginu, þar sem þau höfðu ekki hugboð um það áður, að þetta yrði skorið niður. En það er ekki um þetta að sakast. Ég geri ráð fyrir því, að stjórn Búnaðarfélags Íslands geti komið með rök og sagt: Við höfum nóg með þetta fé að gera til ýmiss konar ráðstöfunar fyrir Búnaðarfélagið, — og skal ég ekki rengja það, að Búnaðarfélagið geti notað það fé, sem eftir var óráðstafað á s. l. ári, til þarfra hluta, án þess að láta búnaðarsamböndin hafa það, t. d. í húsbyggingu og ýmislegt fleira, en þá eigum við að sameinast um það að fá fé á annan hátt til búnaðarsambandanna, svo að þau þurfi ekki að vera í vandræðum og þurfi að kippa að sér hendinni um að geta haldið áfram þeim framkvæmdum, sem þau þegar eru byrjuð á. Megi það takast, þá get ég vel skilið það, að Búnaðarfélagið geti haft þörf fyrir fé, t. d. í húsbyggingu, en ég tel, að það megi ekki taka þetta fé af búnaðarsamböndunum, nema því aðeins að tryggja þeim það annars staðar frá, og í þeirri von, að hv. þm. sé ljós sú þörf búnaðarsambandanna að fá fé í eigi minni mæli en áður, þá legg ég til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og landbn. með ósk um, að það nái samþykki hér í þinginu.