25.02.1949
Neðri deild: 71. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (4056)

140. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Mig langar þegar við þessa 1. umr. að fara nokkrum orðum um þetta frv. Ég ætla að lýsa því yfir í upphafi, að ég er á móti þeirri stefnu, sem fram kemur í frv., og mun því strax við 1. umr. greiða atkv. gegn því. — Frá setningu l. um skemmtanaskatt hafa nokkur kvikmyndahús notið hlunninda í sambandi við skattinn, en hér er farið fram á, að þessi hlunnindi verði afnumin. Þessi kvikmyndahús munu nú vera 6 alls, bæði í Rvík og annars staðar á landinu. Hér er starfandi svonefnt Trípólíbíó, sem rekið er af Tónlistarfélagi Reykjavíkur og stendur að verulegu leyti undir tónlistarlífi bæjarins, því að þessi starfræksla nýtur ekki beinna hlunninda frá ríkinu eins og þjóðleikhúsið. Þá rekur háskólinn Tjarnarbíó, og renna tekjur af því til vísindastarfsemi, og þarf ekki að eyða orðum að nauðsyn þess. Utan Reykjavíkur þekki ég bezt, hvernig þessu er háttað í Hafnarfirði. Þar rekur bærinn kvikmyndahús, sem nýtur umræddra hlunninda, og rennur ágóðinn til stuðnings elliheimilis á staðnum. Fyrir þetta fé er þegar byrjað að reisa elliheimili, sem kemur til með að kosta 3 millj. kr., og er augljóst, að ekki hefði verið hægt að ráðast í þær framkvæmdir nema þessi stuðningur kæmi til. Á Akranesi munu tekjur af kvikmyndahúsi, sem bærinn rekur, vera notaðar í svipuðu augnamiði, eða til að reisa sjúkrahús. Þau tvö önnur kvikmyndahús, sem njóta þessara hlunninda, geri ég ráð fyrir, að séu rekin í svipuðum tilgangi og þessi, sem ég nú hef nefnt.

Ég hafði satt að segja ekki búizt við, að það fyndust tveir hv. þm. í þessari d., sem þættu þessi skattfríðindi óeðlileg. Þegar l. um skemmtanaskatt voru sett, fyrir um það bil tveimur áratugum, var gert ráð fyrir, að skatturinn væri misjafnlega hár eftir því, um hvers konar skemmtanir væri að ræða. T. d. áttu dansskemmtanir að vera í hærri flokki, en ýmsar aðrar, og undanþegnar skemmtanaskatti áttu þær samkomur að vera, sem haldnar væru vegna mannúðar- eða menningarmála. Þetta fyrirkomulag hefur haldizt yfir tvo áratugi, og mér er ekki kunnugt um, að á því hafi orðið nokkur breyting síðustu ár nema sú, að nú er tekjum af þessum skatti varið til rekstrar þjóðleikhúss og byggingar félagsheimila í sveitum, en áður var honum einungis varið til byggingar þjóðleikhúss. Ég skil því ekki, hvers vegna nú á að fara að skattleggja tónlistina í Rvík, vísindastarfsemi háskólans, byggingu elliheimilis í Hafnarfirði o. fl. hliðstætt. Þegar þessi skattur var lagður á, var ætlazt til, að hann næði einungis til gróðafyrirtækja, sem rekin væru í þeim tilgangi að hagnast á þeim. Það er þess vegna óskiljanlegt, þegar bæjarfélag eða menningarfélög hefja kvikmyndahúsarekstur í þeim tilgangi, að tekjurnar standi undir kostnaði við að reisa umræddar stofnanir, svo að ekki þurfi að leita til ríkissjóðs um fé, að þá sé það launað með því að taka tekjurnar í skatt. Mig satt að segja undrar, að nokkrum manni skuli detta í hug, að ríkið eigi að skattleggja slíka starfsemi og það til að reisa danshús, sem síður en svo hafa meira menningargildi en húsin, sem skattlögð eru. Hins vegar veit ég, að það er þörf félagsheimila víða í sveitum landsins, og væri æskilegt, að hægt væri að reisa þau fljótlega, en það er alls ekki óeðlilegt, þó að ekki sé hægt að sinna beiðnum allra þeirra aðila, sem sækja um styrk til slíkra bygginga, á einu ári. Það munu hafa verið 105 óskir um styrk til byggingar félagsheimila, en ekki hægt að sinna nema 26 þeirra, og þó að það sé ekki nema ¼ af þeim, sem sóttu, þá finnst mér það ekki tiltökumál, þar sem þetta er fyrsta starfsár sjóðsins, og tel, að megi vel við una, ef hægt verður að veita þeim ¾, sem eftir eru, aðstoð á næstu 4 árum. Í því sambandi má benda á, að þær stofnanir, sem með þessu frv. er gert ráð fyrir að skattleggja, — eða þá starfsemi, sem undir þeim stendur, — verða engan veginn fullbúnar að 4 árum liðnum með óbreyttri aðstöðu frá því, sem nú er. Í Hafnarfirði, þar sem tekjum af kvikmyndahúsrekstrinum er varið til að reisa elliheimili, er hagnaðurinn nálægt 200 þús. kr. á ári. Kostnaðurinn við þessa byggingu er áætlaður 3 millj. kr., og þar sem ekki er um neinn styrk frá ríkinu að ræða, þá tekur það 15 ár að fullgera heimilið með þessu framlagi. Ég held, að það geti ekki verið neitt réttlæti í því að taka þennan sjóð af gamalmennunum og byggja fyrir hann félagsheimili, þó að þau séu ef til vill nauðsynleg. Mér finnst því ekki koma annað til mála en fella þetta frv. þegar við 1. umr.

Það mætti fleira um þetta mál segja, en ég ætla að láta þetta nægja. Að endingu vil ég segja það, að ég tel, gagnstætt því sem stendur í grg. frv. — að það sé óeðlileg undanþága, sem áðurnefndar stofnanir hafi, — að hér sé um óeðlilegt frv. að ræða.