28.02.1949
Neðri deild: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í C-deild Alþingistíðinda. (4059)

140. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh., sem talaði hér, þegar málið var síðast til umr., þótti svo mikið liggja við að koma því fyrir kattarnef, að hann skoraði á þm. að fella það við 1. umr. Það mætti ætla, að það væri meira en lítið alvarlegt mál hér á ferðinni, þegar einn ráðh. rís upp úr stóli sínum og krefst þess af hv. þm., að þeir látið málið ekki einu sinni fá þinglega meðferð. Það mætti ætla, að einhver háski væri hér á ferðum, fyrst það þykir knýjandi nauðsyn, að Alþingi fari þá óvenjulegu leið að fella málið við 1. umr. Nú skil ég vel, að hæstv. ráðh. finnist þetta frv. ekki að öllu leyti að sínu skapi, því að í hans kjördæmi er eitt þeirra kvikmyndahúsa, sem mundi, ef frv. væri samþ., missa nokkurra fríðinda ásamt nokkrum öðrum kvikmyndahúsum í landinu. Það, sem hæstv. ráðh. er að gera, er ekkert annað en að verja forréttindi þessa fyrirtækis í kjördæmi hans. Og þá er líka skiljanlegt, hvers vegna hann þóttist þurfa að skora á þm. að beita fantatökum, því að það er aðeins til að verja forréttindi eins fyrirtækis í kjördæmi hans. Ég skal svo ekki ræða meira um þessa áskorun hæstv. ráðh. að fella málið við 1. umr., en vænti, að hv. þm. sjái, að slíkt er alveg ósæmilegt. Hér er um að ræða mál, sem menn geta haft misjafnar skoðanir um, eins og flest önnur mál, en hitt er hrein óhæfa, sem hæstv. ráðh. skoraði á hv. þm. að fremja.

Nú mætti ætla, eftir því sem hæstv. ráðh. talaði, að mér væri sérstakt áhugamál að svipta 1–2 bæjarfélög möguleikum til að hraða byggingu heimilis fyrir gamalt fólk og sjúklinga. Hæstv. ráðh. málaði mjög litsterka mynd, hve grimmdarfull aðferð þetta væri gegn gamla fólkinu í Hafnarfirði. Ég viðurkenni, að tekjur þessara stofnana af rekstri sínum verða nokkru minni við það, að þau verða að greiða skatt eins og önnur hliðstæð fyrirtæki. En ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hefur þessi rekstur ekki verið talinn mjög arðvænlegur? Ég hef heyrt suma flokksmenn hans halda fram, að þeir einstaklingar, sem reka slík fyrirtæki, græddu á því of fjár. Ég hygg, að ég hafi heyrt því haldið fram, ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur oft og alltaf, þegar á slíkan rekstur hefur verið minnzt, og ég viðurkenni, að kvikmyndahúsarekstur hér á landi er með allra arðvænlegustu og öruggustu atvinnugreinum. Þess vegna fer því fjarri, að það sé verið að eyða öllum möguleikum til að þiggja elliheimili í Hafnarfirði og sjúkrahús á Akranesi, þó að þessi kvikmyndahús á þessum stöðum séu látin greiða skemmtanaskatt eins og önnur hliðstæð fyrirtæki á landinu. Og það er hrein blekking, þegar hæstv. ráðh. rís upp og segir, að með þessu sé verið að koma í veg fyrir, að elliheimili sé byggt í Hafnarfirði og dregur upp þessar tvær myndir, danshús úti á landi eða elliheimili í Hafnarfirði. Það tekur að vísu lengri tíma að safna nægilegu fé til að geta byggt elliheimili í Hafnarfirði, ef fyrirtækið er látið greiða skemmtanaskatt eins og önnur hliðstæð fyrirtæki, en hitt er fjarstæða, að með því sé verið að útiloka alla möguleika til að gera það, enda er fjarri mér að leggja stein í götu þess, að Hafnarfjarðarbær eignist elliheimili eða Akraneskaupstaður komi upp sjúkrahúsi, þegar myndarlegt fólk hefur lagt þar fram mikið fé að gjöf til kaupstaðarins í þessu skyni. Ég tel þvert á móti mjög ánægjulegt að vita til þess, að þessir tveir myndarlegu kaupstaðir skuli hafa fengið fasta tekjustofna, sem hægt er að nota í þessu augnamiði, því að það er mjög æskilegt, að elliheimili og sjúkrahús séu reist. Hitt er alveg óþarfi, að setja dæmið eins upp og hæstv. viðskmrh. gerir, danshús úti á landi eða elliheimili í Hafnarfirði. Og að þetta tvennt geti ekki farið saman, ef forréttindi kvikmyndahúsanna verða afnumin. Þessi staðhæfing sló algerlega í baksegl við það, að kvikmyndahúsarekstur sé mjög arðvænleg atvinnugrein. En það er eins og sumum finnist, að það sé ekki hægt að reka nein opinber fyrirtæki nema með einhverjum forréttindum fram yfir rekstur einstaklinga. Þetta er dálítið einkennilegt og slær í bakseglin við þá skoðun, sem hæstv. viðskmrh. hefur. að eiginlega eigi bæir og ríki allt að reka og þá fyrst verði atvinnutækin arðvænleg fyrir fólkið og gefi því þann arð, sem það hefur rétt á. Því fer fjarri, að sá kvikmyndahúsarekstur, sem einstaklingar stunda, greiði ekki mikið fé í skatta til hins opinbera, og skal ég því til sönnunar nefna nokkrar tölur. Frá Nýja bíó hef ég upplýsingar um, hvað það hefur greitt í opinber gjöld síðast liðin 8 ár, og er sú upphæð 3.7 millj. kr., þar af tæp milljón í sætagjöld og útsvör í bæjarsjóð Rvíkur, en um 2 millj. í skemmtanaskatt. Austurbæjarbíó greiddi árið 1948 í skatta og opinber gjöld 625 þus. kr. og rúmlega 145 þús. kr. í bæjarsjóð. Gamla bíó hefur frá árinu 1947 greitt í sætagjöld og útsvör 190 þús. kr., en samtals um 800 þús. kr. í opinber gjöld. Af þessum tölum ætla ég auðsætt, að hið opinbera fær ekki svo litlar tekjur af þessum einstaklingsrekstri, og þessum tekjum geta bæjarfélögin auðvitað varið á sama hátt og Hafnfirðingar og Akurnesingar hafa í hyggju. Þau geta varið þessum tekjum til alls konar menningarmála, og þau gera það líka, og hvergi hefur eins miklu fé verið varið til menningarmála og hér í Rvík. Ég ætla því auðsætt, að það þurfi engin skattfríðindi í Hafnarfirði og á Akranesi til þess að kvikmyndahúsarekstur geti borið sig. Hæstv. viðskmrh. upplýsti, að hagnaður kvikmyndahússins í Hafnarfirði hefði orðið um 200 þús. kr. á ári. Ég fæ nú ekki betur séð en bæjarfélagið hefði getað fengið þessar tekjur af bíórekstri með sætagjaldi og útsvari, þótt fyrirtækið hefði greitt skemmtanaskatt. Það er því hrein blekking hjá hæstv. viðskmrh. og hv. þm. Borgf., þegar þeir krefjast þess, að frv. verði fellt við 1. umr. vegna þess, að samþykkt þess hindri það, að byggt verði sjúkrahús á Akranesi og elliheimili í Hafnarfirði. Staðhæfingar hæstv. ráðh. hljóta að byggjast á því, að hann álíti, að rekstur bæjarfélaga sýni aldrei eins góðan arð og rekstur einstaklinga og því þurfi hann að njóta skattfríðinda og forréttinda. Eins og ég hef áður tekið fram, er meginástæðan fyrir flutningi þessa frv. sú, að félagsheimilasjóði er nauðsynlegt að fá auknar tekjur til þess að geta styrkt byggingar félagsheimila úti um land. Hæstv. viðskmrh. talaði með mikilli fyrirlitningu um danshús í sveitum, sem verja ætti í því fé, sem rænt væri af gamla fólkinu í Hafnarfirði. Það getur verið, að hæstv. ráðh. geti leyft sér að tala með lítilsvirðingu um samkomur ungs fólks í sveitum, en þeir, sem til þekkja, vita, að skorturinn á möguleikum til félagslegs samstarfs á einna ríkastan þátt í að ýta undir flutninga fólksins úr sveitum til kaupstaðanna, sem verður aftur til þess, að möguleikar fólksins þar til góðrar afkomu minnka. Þetta er alkunn staðreynd. Því fækkar fólkinu, er vinnur að því að framleiða innlendar neyzluvörur eða útflutningsvörur, en hinu fjölgar, sem lifir á því að vinna umbúðastörf, sem krefjast aukinnar gjaldeyriseyðslu. Ég veit ekki, hvað hæstv. viðskmrh. segir um það að fjölga því fólki, sem eyðir gjaldeyri, en fækka hinu, sem skapar hann, og ef ekkert er að gert, heldur aldan áfram að skola fólkinu yfir til eyðslustarfanna og umbúðastarfanna. Það er ekkert hégómamál, þótt unnið sé af festu og fé lagt til þess að bæta aðstöðu fólksins úti á landi til félagslegs samstarfs. Það er því ekki sæmandi hæstv. viðskmrh. að tala um þessi mál með lítilsvirðingu.

Ég benti á það í framsöguræðu minni, að félagsheimilasjóði hefðu borizt 105 umsóknir um styrk, en af þeim hefðu 25 umsækjendur fengið úthlutað 590 þús. kr. Hæstv. viðskmrh. sagði, að af þessu væri ljóst, hve vel hefði unnizt, að 25 af 105 umsækjendum fengu styrk! Ég veit, að hæstv. ráðh. hefur ekki meint þetta, því að ef hann athugaði málið, þá sæi hann, hve ákaflega lítill styrkur kemur í hvern stað. Ég held, að einn aðili hafi fengið 60 þús. kr., en flestallir frá 25–30 þús. kr. Ég veit um samkomuhús, sem á að byggja í 700 manna þorpi og mun kosta um 600 þús. kr. Hv. þm. sjá þá, hve slíkur styrkur er ríflegur. Við flm. gerum ráð fyrir, að ef frv. væri samþ., gætu tekjur sjóðsins aukizt að 1/3. Þá er líklegt, að skemmtanaskatturinn, sem var allur 2.3 millj. kr. s. l. ár, mundi fara yfir 3 millj. kr. Það er því brýn nauðsyn, að þetta frv. verði samþ., og allir, sem athuga málið, sjá, að hér er ekki um að ræða neina fljótfærni eða undarlegt hugarástand, heldur skilning á þörfum fólksins úti um land, og finnst mér nær að halda, að hugarástand hv. þm. Borgf. (PO) sé orðið eitthvað undarlegt, því að hann hefur jafnan þótzt berjast í fylkingarbrjósti fyrir hag dreifbýlisins, en nú rís hv. þm. móti tilraun, sem gerð er til þess að gera þessu fólki frekar unnt að haldast við í dreifbýlinu. Hins vegar skil ég þetta undarlega hugarástand hv. þm. Borgf. Þegar. einhver hefur hlotið forréttindi, stendur hann á þeim eins lengi og hann getur, og það er einmitt það, sem hv. þm. Borgf. og hæstv. ráðh. gera. Þeir standa hvor á sínum skækli og reyna að verja forréttindi sinna manna. Svo setja þeir upp helgisvip og segja: Barátta okkar er háð fyrir sjúklinga og örvasa gamalmenni, en ég hef bent á, að kvikmyndahúsarekstur greiðir í skatta ekki minna fé en nemur hagnaðinum af t. d. Hafnarfjarðarbíói. Og ég veit um kvikmyndahús rekið af bæjarfélagi, sem nær engar tekjur hefur. Það er stórt hús með 350 sætum. Bæjarsjóður þar hafði árið 1948, að mig minnir, 15 þús. kr. upp úr þessum rekstri, og þessu fé er varið til menningarmála. Bæjarfélagið fékk sem sagt sama sem ekki neitt. (PO: Nú skil ég hv. þm. N-Ísf. Hann þarf sem sé engu að offra af sínum skækli.) Það er nú svo, því að ef frv. okkar yrði samþ., þarf þetta kvikmyndahús að greiða skemmtanaskatt, sem það greiðir ekki nú. Framígrip hv. þm. Borgf. er því algerlega út í bláinn, því að ef frv. yrði samþ. mundi það skapa þessum rekstri viðbótarbyrði, og þó að ég sé viðriðinn bæjarmál á Ísafirði og unni Ísafirði alls hins bezta, þá sé ég enga ástæðu til, að kvikmyndahúsið þar njóti sérstakra forréttinda, og er mér þar öðruvísi farið en hv. þm. Borgf. og hæstv. viðskmrh. Ég álít, að í þessum efnum eigi þéttbýlið einmitt að styrkja strjálbýlið. Í flestum kaupstöðum eru góð samkomuhús, sums staðar mörg, en í sveitum og þorpum eru þau víða léleg eða engin. Kjarni þessa máls er því ekki sá, hvort verið sé að útiloka möguleika Akurnesinga og Hafnfirðinga á því að koma sér upp elliheimili og sjúkrahúsi, heldur er hitt aðalatriðið, hvort veita eigi aukinn stuðning til félagsheimilasjóðs. Ég endurtek það, að ég vil á engan hátt leggja stein í götu þess, að byggð verði elliheimili og sjúkrahús. Þvert á móti hef ég bent á örugga leið til þess að afla tekna til byggingar sjúkrahúsa. Í þessu máli verður að meta allar aðstæður. Það verður að líta á nauðsyn félagsheimilasjóðs til þess að vera hlutverki sínu vaxinn, áðum en öll þjóðin er komin til hinna stærstu kaupstaða, sem geta boðið upp á góða aðstöðu til félagslegs samstarfs, og ég leyfi mér að benda á, að það getur orðið erfitt verkefni fyrir hæstv. viðskmrh. og hv. þm. Borgf. að byggja nægileg elliheimili og sjúkrahús í bæjunum, þegar allt fólkið svo að segja er þangað komið. Þá er ég hræddur um, að vanti hvíldarheimili fyrir þá eftir langa baráttu fyrir að koma upp elliheimilum og sjúkrahúsum.

Ég vil vænta þess, að hv. d. geri sér ekki þá minnkun að fella við 1. umr. sanngirnismál og réttlætismál sem þetta, heldur fái það þinglega meðferð og að sjálfsögðu samþykki hv. deildar.