13.03.1949
Neðri deild: 73. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í C-deild Alþingistíðinda. (4069)

140. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Flm. (Sigurður Bjarnason) :

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umr. mikið. Ég hef þegar svarað mörgum af þeim aths., sem fram hafa komið, og einnig hefur hv. meðflm. minn gert þeim góð skil.

Í sambandi við það, sem hv. 8. þm. Reykv. (SG) sagði, að með þessu frv. væri verið að taka eitthvað af Leikfélagi Reykjavíkur og bæjarsjóður Rvíkur yrði að styðja félagið, vegna þess að það yrði að greiða svo háan skemmtanaskatt í ríkissjóð, skal ég benda honum á, að þetta frv. breytir alls engu um skemmtanaskattsgreiðslur Leikfélags Rvíkur eða styrk til þess. Aths. hv. þm. er því algerlega út í bláinn. — Í sambandi við það, sem hann ræddi um tónlist, get ég sagt það, að ég er hlynntur eflingu hennar og síðan í fyrra hefur átt sér stað töluverð samvinna milli Þjóðleikhússins og Ríkisútvarpsins um það, hvernig stofna ætti hér symfoníuhljómsveit fyrir útvarpið og þjóðleikhúsið, og rætt um, að fyrirtækin stæðu í sameiningu undir kostnaðinum. Stofnun slíkrar hljómsveitar væri svo gífurlegt átak, að það mundi marka tímamót í tónlistarsögu okkar Íslendinga. Ég vil styðja þessa viðleitni eftir fremstu getu, og það játa allir, að ef hluti þjóðleikhússins af skemmtanaskattinum ykist, ykjust möguleikar þess stórlega á að efla Stórlega tónlistarlíf í bænum. Þetta segi ég aðeins til að hnekkja þeim sleggjudómum, að með frv. þessu sé verið að ráðast á þroskamöguleika tónlistarinnar.

Það tekur því varla að vera að leiðrétta vitleysurnar hjá hv. 8. þm. Reykv. (SG), að aðalnot af félagsheimilum í sveitum séu á veturna. Í hvaða sveit hefur hv. þm. verið? Ég þekki ekki þær sveitir, þar sem aðalfélagslífið er að vetrinum. Ég held því, að þetta sé sagt algerlega út í bláinn, og sýnir, að hv. þm. hefur ekkert vit á því, sem hann er að tala um. Hann þekkir skattgreiðslur Leikfélags Rvíkur,en veit ekki, að þetta frv. hefur ekki minnstu áhrif á þær.

Ég vil svo víkja örfáum orðum að hæstv. viðskmrh. Hann var ekki alveg af baki dottinn í seinni ræðu sinni í gær. Hann hélt því fram, að góðgjarnasta ástæðan, sem hægt væri að segja, að lægi á bak við flutning þessa frv. væri fljótræði. Ég hef sýnt fram á, að það er fyrst og fremst hann sjálfur, sem er sekur um fljótræði. Hann flækir sjálfan sig í algerar mótsagnir. Hann sagði, að það væri mikill munur á því að reka bíó til að auðga einstaklinga eða til að byggja elliheimili. Þetta er alveg rétt, en hann gáir bara ekki að því, að þetta eru mótsagnir. Hann meinar, að einstaklingar geti hagnazt á þessum rekstri, þó að þeir þurfi að greiða skatta, en ef fyrirtæki, sem ætlar að byggja elliheimili, sleppur ekki við að greiða skatt, þá hagnast það ekki neitt. Ég fæ ekki betur séð, en þetta sé alger mótsögn. Elliheimilið í Hafnarfirði getur ekki hagnazt á slíkum rekstri, ef það er ekki skattfrítt, en einstaklingar stórgræða. Þetta eru rök, sem ættu að koma annars staðar frá, en úr ráðherrastóli. Hæstv. ráðh. hefur tekið fruntalega á þessu máli, og það er það vægasta, sem hægt er að segja um afstöðu hans.

Þá vil ég gera örfáar aths. út af ræðu hv. þm. Ísaf. Hann minntist á bíóið á Ísafirði. Ég hefði ekki gert það í hans sporum. Saga þess er með þeim hætti, að ég hélt, að hv. þm. Ísaf. mundi ekki telja það sér til framdráttar að rifja hana upp. Fyrir 19 árum brann kvikmyndahús á Ísafirði, sem einstaklingur átti. Húsið var stórt og vandað, eitt stærsta hús utan Reykjavíkur, og var með góðum tækjum. Eigandinn hafði fengizt við þennan rekstur frá 1914 og haft góðan hagnað og var með hærri gjaldendum í kaupstaðnum, og hafði bærinn því miklar tekjur af rekstrinum. Svo brann húsið, og vildi eigandinn fá leyfi til að byggja upp aftur, en þá réð flokkur Finns Jónssonar á Ísafirði og vildi ekki endurnýja bíóleyfið og vildi græða meira á því en verið hafði, svo að bærinn keypti tæki og setti upp kvikmyndahús í þinghúsi bæjarins, sem einnig var leikhús. Þessi rekstur fór svo, að á honum varð tap. Af þessu varð verulegt tjón fyrir bæinn, en það versta var, að það var á allra vitorði, sem í húsið komu, að þetta væri sérkennilegasta bíó á landinu, því að þar sæist engin mynd og skildist ekkert orð, og þetta var satt. Þetta sleifarlag fór svo fram um stund, en svo var byggt myndarlegt hús, Alþýðuhúsið, sem verkalýðsfélögin byggðu, og var sett bíó í það og rekið, en þá lét bæjarstjórnin kratana, flokksbræður sína, hafa þar sérleyfi til bíórekstrar til 20 ára, og á bærinn að fá í tekjur 10% af 35 þús. brúttósölu og 15% af því, sem þar er fram yfir. Tekjurnar hafa svo numið:

1945 17.753,91 kr.

1946 14.583,44

1947–1948 innan við 14 þús. kr.

og á fjárhagsáætlun 1949 eru áætlaðar 12 þús. kr. — Þetta er sagan af því, hvernig hv. þm. Ísaf. og flokksbræður hans láta Ísafjarðarkaupstað græða á þessum stórgróðarekstri. Fyrst heyrist ekkert né sést og síðan eru þetta tekjurnar. Verkalýðsfélögin fengu þennan rekstur eða félag, sem þau standa að, en hvað hafa þau svo grætt á þessu? Ég veit það ekki, en ég veit hitt, að ég er félagi í sjómannafélaginu á Ísafirði, sem staðið hefur að þessu, og er ég hef reynt að spyrja eftir þessu, hef ég fengið ónot og svívirðingar, en engar upplýsingar. Ég sé því ekki, hvaða vinning hv. þm. Ísaf. sér í því að gera þennan endemisrekstur að umræðuefni hér í Alþ. Hitt er rétt, að bíóið borgar skemmtanaskatt í ríkissjóð, en ég vil upplýsa það, að Alþýðuhúsið hefur einnig dansleiki og af þeim borgar það ekki skemmtanaskatt, af því að þeir eru bendlaðir við sjúkrasjóð verkalýðsfélaganna. En það, sem þessi bíórekstur á Ísaf. sannar, það er það, sem hæstv. viðskmrh. sagði óvart, að það er svo með forstöðumenn þessara bæjar- og félagakvikmyndahúsa, að þeim finnst ekki vera hægt að reka þau nema fá fríðindi og enginn hagnaður annars. — Þetta var smáinnskot frá málinu, en ég vildi láta þetta koma fram, af því að mér fannst svo fráleitt hjá hv. þm. Ísaf. að vera að leiða þetta inn í umr. Um sjúkrahúsið er það að segja, að bæjarsjóður hefur leitað til hans í 2 ár um fyrirgreiðslu, en engu hefur verið komið í framgang, en ég vona, að með dugnaði hans og stuðningi mínum muni það komast fram nú. Hvað viðvíkur skemmtanaskattinum, þá held ég, að hann muni hrökkva skammt til sjúkrahúsbyggingar, en verður ef til vill til bóta, en það situr illa á hv. þm. að ásaka mig um áhugaleysi í þessum efnum, þar sem ég hef lagt fram frv. um örugga tekjuöflun í þessu skyni, en það var fellt. En hv. þm. hryllir eflaust við þessu og segir, að séu ölpeningar. Guð minn góður! Hv. þm. Ísaf. að heyra nefnt öl! Ég veit ekki, hvað Hans Hedtoft segði, en hv. þm. Ísaf. getur ekki hugsað sér, að byggt sé sjúkrahús á Ísafirði fyrir ölpeninga, en Hedtoft er forstjóri fyrir Stjörnu-öl og gegnir því starfi jafnhliða forsrh.-embættinu. Ég er reiðubúinn að vinna að því að tryggja sjúkrahúsum tekjur eða fjárveitingu beint frá ríkissjóði, enda þótt það sé að bera í bakkafullan lækinn að leggja nýjar kvaðir á ríkissjóð, eins og fjárhag hans er nú háttað.

Ég vil svo endurtaka það, að þetta frv. er flutt sem réttlætismál og stefnir að auknu réttlæti, en ekki að auknu misrétti, eins og hv. þm. Ísaf. vildi vera láta. Það er fjarri mér að vilja leggja stein í götu háskólans, en ég endurtek það, sem hv. 2. flm. sagði, og bendi á, að það eru hlunnindi út af fyrir sig að fá að hafa arðvænlegan kvikmyndahúsrekstur, þótt ekki komi þar til meiri fríðindi, eins og skattfrelsi slíkra fyrirtækja. — Ég veit, að hv. d. mun fjalla að öllu leyti um þetta mál á þinglegan hátt og að sá mótblástur, sem það hefur orðið hér fyrir, mun verða til að skýra málið og sýna, hve tímabær flutningur þess er.