17.05.1949
Neðri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í C-deild Alþingistíðinda. (4189)

210. mál, símaframkvæmdir

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst þetta mál vera allra góðra gjalda vert, og auðvitað er nauðsynlegt að fá notendasíma í sem allra flestar sveitir landsins. Þó hefði mér fundizt viðkunnanlegra, að póst- og símamálarh. hefði verið viðstaddur þessar umr. Mér finnst, að ekki sé hægt að ganga frá þessum málum fyrr en vitað er, hvaða framkvæmdir eru mest aðkallandi í símamálum yfirleitt. Og hæpið er, að Alþingi geti tekið ákvörðun um þetta fyrr en þeir, sem gerst vita í þessum málum, hafa látið sína skoðun í ljós. Ríkisstj. og fjárhagsráð hafa þegar ákveðið, hve mikið magn af símaefni skuli flytja til landsins á þessu ári, og sennilegt er, að einnig sé búið að ákveða, hvar það efni skuli notað, og ósennilegt er, að því sé hægt að hreyfa. Nú vil ég undirstrika með hv. flm., að nauðsynlegt er að fá síma á hvern bæ á landinu, og vil ég hjálpa til þess, en því er ekki að leyna, að langlínur símans og möguleikar til að halda uppi samtölum landshluta á milli eru í slíku óstandi, að sennilegt er, að síminn þurfi ekki einungis að nota allar sínar tekjur, heldur einnig að taka lán, ef möguleikar eru fyrir hendi, og nota alla gjaldeyrismöguleika til hins ýtrasta til þess að koma þessum málum í lag. Ég get látið þess getið, til þess að sýna, hve langlínur símans eru í slæmu ástandi, að sambandslaust er til Vestfjarða og fleiri landshluta nærri heila veturna. Þannig er það einnig milli einstakra héraða. Ég hygg því, að þótt símum væri komið upp á ýmsum bæjum, þar og víðar, þá kæmu þeir alls ekki að notum, fyrr en langlínurnar væru komnar í lag. Ég held því, að það þurfi að nota allar tekjur, lánstraust og gjaldeyrisöflunarmöguleika símans til þess að koma þessu í lag, áður en farið er út í að fjölga mjög sveitasímum, eins og hv. flm. ætlast til. Ég vildi aðeins vekja á þessu athygli, en mun greiða frv. atkv. til 2. umr. Ég vil þó hafa þann fyrirvara, að áður en málið er afgr., liggi fyrir um það umsögn þeirra manna, sem mest hafa vit á þessum málum.