28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (4287)

21. mál, jeppabifreiðar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. alþm. hafa nú hlustað hér á ýtarlega skýrslu, sem hv. 1. þm. Skagf. hefur flutt um úthlutun jeppabíla. Ég harma það ekki neitt, að slíkt hefur komið fram, en harma, að hæstv. forseti skuli ekki hafa gert sérstakar ráðstafanir til þess, að sá ráðh., sem þessum ásökunum er beint að, gæti hlustað á þetta merkilega mál. Hv. 1. þm. Skagf. tók fram í ræðu sinni, að hér væri um sterkar ádeilur að ræða á nýbyggingarráð, en hæstv. fjmrh. var þá formaður þess ráðs og hefði víst þar af leiðandi haft ástæðu til þess að hlusta á þessar sterku ásakanir, sem þar eru bornar fram. Ég vil mælast til þess við forseta að slíta ekki þessari fyrri umr. svo, að hann gæfi hæstv. ráðh. ekki tækifæri til að svara fyrrgreindum ásökunum og kynna sér málið að fullu. Ég hef hingað til heyrt talað um réttlæti þessa forseta í forsetastóli almennt, en fer nú mjög að efast um, eftir að hafa hlustað á þetta, að þau ummæli séu að öllu leyti réttmæt.

Ég skal koma nokkuð að einstökum atriðum í ræðu hv. 1. þm. Skagf. Hann sagði, að þetta vald hefði verið tekið af Búnaðarfélaginu að ástæðulausu, og vítti það mjög. Nú skal ég ekki deila um það á þessu stigi, hvort þetta hafi verið að ástæðulausu, og læt hæstv. ráðh. um það, þegar hann fær tækifæri til að kynna sér málið. En hitt er öllum ljóst, að ef nýbyggingarráð hefur haft vald til þess að veita Búnaðarfélagi Íslands eða einhverjum aðila umboð, hefur það einnig vald til þess að svipta þann aðila því umboði aftur, og þá er það atriði milli Búnaðarfélagsins og nýbyggingarráðs, hvort það hafi verið gert að ástæðulausu eða ekki. En hefur Búnaðarfélagið gætt hins, að þeir menn, sem það hefur afhent bifreiðarnar í hreppabúnaðarfélögunum, hafi gert skyldu sína? Ég vildi fá það upplýst. Það væri rétt að athuga það, hvort Búnaðarfélag Íslands hefur gætt þeirrar sjálfsögðu réttlætiskröfu að láta skiptin fara fram milli héraðanna eins og eðlilegast hefði verið. Það hlaut að sjálfsögðu að vera skylda Búnaðarfélagsins, í fyrsta lagi að tryggja þeim héruðum sem mesta úthlutun, sem áttu erfiðast með samgöngur vegna slæmra vega. Það hlaut að vera skylda þess að láta þær sveitir ganga fyrir, þar sem þessi tæki gátu hjálpað veglausum héruðum til að létta undir með samgöngum. Mér er kunnugt um það, að þessari stefnu var ekki fylgt. Mér er kunnugt um það, að þær sýslur, sem vegna erfiðra samgangna gátu ekki notað aðra bíla, hafa orðið afskiptar við þessa úthlutun. Það væri gaman að sjá skýrslu frá Búnaðarfélaginu um það, hvernig þessum 450 bílum hefur verið úthlutað og til hvaða landshluta, hvernig þá muni sannazt, að þær sýslur, sem bezt höfðu vegakerfið, urðu ekki afskiptar, en það voru hinar, sem áttu erfiðara með að nota önnur flutningatæki. Mér væri mikil ánægja að því að sjá slíka skýrslu, og mér er ánægja að því að rökstyðja mál mitt. Það kann að koma inn á sjónarmið Búnaðarfélagsins, að þær sýslur, sem hafa bezta vegi, ættu að fá flesta bílana, en að það sé réttlátt, vil ég ekki ganga inn á. Ég hygg, án þess að ég fullyrði nokkuð um það, að þetta sé ein af ástæðunum fyrir því, að úthlutunin var tekin af Búnaðarfélaginu, að bílunum hafi ekki verið skipt réttlátlega milli héraðanna. (PO: Og láta þá fara í kaupstaðina í staðinn?) Við skulum athuga það líka. Ég vildi heyra, hvaða tryggingu Búnaðarfélag Íslands hafði fyrir því, að bílarnir færu ekki í kaupstaðina. Ég skal benda á, að mér er kunnugt um, að jeppabifreiðum var úthlutað til hreppafélaganna heima fyrir og þær sömu bifreiðar fóru aldrei úr kaupstaðnum. Þær komu aldrei til þeirra manna, sem þeim var úthlutað til. Ég get gefið hv. þm. sannanir fyrir því, að ákveðnum bifreiðum var úthlutað af Búnaðarfélagi Íslands til hreppabúnaðarfélaga, og komu ekki inn í hreppana, en voru seldar beint til kaupstaða. Ég segi það ekki, að það sé sök Búnaðarfélagsins, en það er þá sök þeirra manna heima fyrir, sem áttu að úthluta þessum bifreiðum til viðkomandi aðila, og það er þeirra sök að tryggja það ekki, að þær væru ekki seldar nema með leyfi þeirra og þá ekki til kaupstaða. Hefur Búnaðarfélagið nokkurn tíma gætt þess, að þessar kröfur væru uppfylltar? Ég ætla, að þar hafi orðið mikill misbrestur á. Ég hygg, að aðalástæðan fyrir því, að þetta mál var tekið frá Búnaðarfélaginu, hafi í fyrsta lagi verið sú, að það uppfyllti ekki skyldur sínar gagnvart úthlutuninni, og hins vegar hafi ekki hreppabúnaðarfélögin heima fyrir uppfyllt þær reglur, sem þau áttu að fara eftir. Það væri líka ákaflega gaman að fá það upplýst, hvort allar þessar 450 bifreiðar, sem búið var að úthluta, væru enn í sveitunum. Ég er hræddur um, að það séu ekki fáir vagnar, sem áttu að fara í sveitirnar, en aldrei hafa í þær komið, og ef þeir hafa komið þar, þá hafa þeir aðeins staðið örstutt við. Það er hægt að rekja þetta með að sjá, hve margir bílar eru skrásettir í hverju héraði. Ég held, að það hafi brugðizt, sem hv. 1. þm. Skagf. lagði áherzlu á áðan, að fyrsta skilyrðið væri, að allir sætu við sama borð. Ég held, að reynslan hafi sýnt, að það voru ekki nema sérstakir gæðingar Búnaðarfélags Íslands, sem fengu að setjast við borðið á undan hinum. Ég skal svo ekki fara út í það atriði núna, hve þetta hefur verið notað pólitískt. Mér gefst tækifæri til þess síðar.

Vegna upplýsinga frá hæstv. landbrh. um, að það væru enn 80 leyfi, sem ekki væri búið að nota, og í sambandi við það einnig, að allir þeir bílar, sem hafa verið fluttir inn síðan, hafa verið fluttir inn, án þess að þeir væru greiddir með íslenzkum gjaldeyri, þá vil ég benda á, að samkvæmt II. kafla l. um innflutning og gjaldeyrismeðferð má enga vöru flytja til landsins nema að fengnum innflutnings- og gjaldeyrisleyfum. Ég veit þá ekki, eftir hvaða reglum fjárhagsráð og ríkisstj. hafa leyft innflutning á bílunum, nema um leið sé veitt innflutningsleyfi. Mér skilst, að um lögleg leyfi hafi verið að ræða og það hafi verið búið að borga bílana áður samkv. löglegum leyfum. Ég get líka upplýst annað, að hér ganga sögur, sjálfsagt margar hverjar sannar, um, að einstöku aðilar hér á þessu landi hafi leyft sér að flytja inn, ekki eingöngu bíla, heldur líka aðrar vörutegundir á áðurgreindan hátt. Það væri rétt að láta fara fram rannsókn á því, hvort það sé ekki rétt, að verzlunarfyrirtæki hafi fengizt til að selja vöru fyrir erlendan gjaldeyri, sem þau höfðu ekki samkv. lögum leyfi til að taka á móti hér á Íslandi. Það væri æskilegt að fá það upplýst, að hverju leyti innflutnings- og gjaldeyrislögin hafa verið brotin á þessu sviði. Ég held, að við ættum líka að taka höndum saman um að fá það upplýst, hvernig í því liggur, að menn halda því fram, að hér í þessum bæ sé hægt í ýmsum verzlunum að fá alls konar vörur á svörtum markaði, ef hægt sé að greiða þær með erlendum gjaldeyri. Það átti að taka málið mjög sterkum tökum og stöðva allan slíkan innflutning og m. a. bilainnflutning, en þá kom fyrst andstaða gegn því frá hæstv. menntmrh. Hann setti sig á móti því, að þetta yrði lagað (Menntmrh.: Að hvað yrði lagað?) Að menn fengju að flytja inn bíla, sem þeir töldu sig hafa greitt úti. (Menntmrh.: Þetta er bara haugalygi.) Hæstv. ráðh. veit, að þetta er satt, að það voru gerðar sérstakar ráðstafanir til að stöðva bílainnflutninginn, en hann barðist fyrir því, að hann yrði ekki stöðvaður, vegna þess að Sambandið, langstærsti bílainnflytjandinn, taldi sig vera búið að borga bílana. Hæstv. ráðh. vildi ekki kyrrsetja bílana, af því að Sambandið átti í hlut, og svo leyfir hann sér að segja að þetta sé haugalygi. Sannleikurinn er sá, að þessi viðskiptamál öll eru svo rotin, að það er ekki hægt fyrir ríkisstj. að láta þetta ganga svona lengur. Ég held, að það væri ákaflega nauðsynlegt, að Framsfl. og fulltrúar hans í ríkisstj. vildu nú fallast á að láta nú laga það, sem miður fer í þessum málum.

Ég vil svo leyfa mér að endurtaka það við hæstv. forseta, að hann slíti ekki þessum umræðum fyrr en fjmrh. hefur verið gefinn kostur á að svara þeim þungu ásökunum, sem hér hafa verið bornar á hann, sem formann nýbyggingarráðs.