01.11.1948
Sameinað þing: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (4294)

21. mál, jeppabifreiðar

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Mér skilst, að talsverðar umr. hafi orðið um þessa þáltill. um innflutning á jeppum, og sé ég, að tvær brtt. hafa komið fram við höfuðtill., sem engu eru þýðingarminni en hún, ekki sízt till. um kaup á varahlutum, sem nú er mjög erfitt að fá keypta. — Þekking landsmanna á notagildi jeppanna kom fyrst í ljós, þegar af hálfu hins opinbera voru seldir nokkrir gamlir herjeppar, sem eins og aðrar setuliðseignir voru keyptar af ríkinu og síðan seldar almenningi. Kom þá þegar í ljós, að eftirspurnin eftir jeppunum var mun meiri en hægt var að fullnægja með setuliðsjeppunum. Um þetta leyti tók nýbyggingarráð til starfa, og bárust okkur ýmsar beiðnir og áskoranir um það að sjá til þess eða mæla með því, að gjaldeyrisleyfi yrðu veitt fyrir nýjum jeppum, og á það bent, að það væri komið á daginn, einkum vestur í Ameríku, að jepparnir væru hentug landbúnaðarverkfæri, fyrir svo utan það, að þeir væru góðir til þess að skjögta á þeim milli bæja o. s. frv. — 10. sept. 1945 var þessu máli fyrst opinberlega hreyft í nýbyggingarráði og ákveðið að hefjast handa, enda lágu þá fyrir umsagnir fróðra manna, t. d. skriflegt vottorð skólastjórans á Hólum um, hve mikið gagn væri að svona bifreiðum við búskap, og fleiri umsagnir á sömu lund. Það er því óhætt að segja, að við í nýbyggingarráði skiptum okkur af þessu máli í fyrsta lagi með það fyrir augum, að jepparnir yrðu búskapar- eða búnaðartæki.

Ég veit ekki, hvort öllum hv. þm. er vel ljóst, hvernig verkaskiptingin var milli nýbyggingarráðs og viðskiptaráðs eða viðskiptanefndar í þessu efni. Nýbyggingarráð sem slíkt gaf ekki út leyfi beinlínis til almennings. Það gaf hins vegar meðmæli til gjaldeyrisyfirvaldanna, mælti með því, að þessi eða hinn fengi leyfi til að flytja inn tiltekna vél eða atvinnutæki, sem þótti heyra undir þann ramma nýbyggingarráðs, er því var ætlað að starfa eftir. Á sínum tíma varð nokkurt þref um það, hvernig afmarka skyldi afskiptasvið hverrar stofnunar um sig, en þó var það eiginlega gert að mestu eða öllu leyti. Um bifreiðainnflutning var það ákveðið, að nýbyggingarráð skyldi ekki hafa nein afskipti af innflutningi annarra bifreiða en vörubifreiða og jeppabifreiða, enda var það svo, að allar aðrar bifreiðar og innflutningur þeirra heyrði undir viðskiptaráð, þar á meðal innflutningur allra litlu ensku bílanna og amerískra fólksbíla, en til jeppanna heyrðu hinir svokölluðu station-vagnar, en þeir voru nú ekki svo margir, að þeir skiptu miklu máli.

Nú, með þetta fyrir augum, að jepparnir væru sérstaklega landbúnaðartæki, var sú stefna upp tekin í nýbyggingarráði að freista þess, að það þyrfti ekki sjálft að skipta sér af einstökum leyfisveitingum jeppanna. Ég tek það fram, að hér var um algerlega frjálsa úthlutun hjá nýbyggingarráði að ræða, það voru engin fyrirmæli í lögum né reglugerðum, sem sögðu neitt fyrir um þetta. En þessi háttur var líka upp tekinn vegna þess, að búnaðarmálastjóri átti sæti í þessu ráði. Þegar fram í sótti og Búnaðarfélagið fór að úthluta til hreppabúnaðarfélaganna, tóku kvartanir og kærur að berast til nýbyggingarráðs úr öllum áttum um misrétti í úthlutuninni. Menn höfðu fyrir satt, að sums staðar hefði orðið samkomulag innan hreppabúnaðarfélaganna um úthlutunina og reglur þær, sem hún átti að fylgja, en sums staðar hefði þetta orðið á allt annan og verri veg, ekkert samkomulag hefði orðið, svo að jafnvel hefði verið gripið til þess afkáralega ráðs að varpa hlutkesti um, hver fengi þessi tæki. Við þetta bættist svo, þegar jepparnir fóru að koma til landsins, nýir og álitlegir eins og þeir eru þá, að þá fóru fleiri en bændur og menn í sveitum að renna til þeirra hýrum augum. M. a. sögðust fjölmargar opinberar stofnanir hafa mikla þörf fyrir svona tæki til ýmissa verklegra framkvæmda og þjónustustarfa, við vegagerð, rafmagnsframkvæmdir, löggæzlu, tollþjónustu o. s. frv. Og hver opinber stofnunin á fætur annarri gerði kröfur til að fá þessi tæki til afnota og taldi sig hafa meira gagn af þeim en öðrum bifreiðum. Við þetta bættist enn, að margir handverksmenn og slíkir atvinnurekendur leituðu til nýbyggingarráðs og færðu gild rök fyrir þörfum sínum, en með fullri sanngirni. Margir þessara manna þurftu beinlínis á þessum tækjum að halda vegna tilflutnings á tækjum og efni í sambandi við vinnu sína og framkvæmdir, sem þeir unnu að, og virtust ekki síður vel að þessum farar- og atvinnutækjum komnir en margir aðrir, jafnvel ekki síður vel að því komnir en bændur að hafa gagn af jeppunum. Ég vissi, að Búnaðarfélagið gerði það, sem það gat, eða ég býst við því, til að halda jeppunum í sveitunum, og setti reglur um það, og vitaskuld var það ætlun nýbyggingarráðs og Búnaðarfélagsins með því að veita bændum leyfi fyrir þessum landbúnaðartækjum, að þeir hagnýttu sér þau sem slík, en seldu þau ekki né sendu annað. En það bar talsvert á því, að þessir jeppar birtust fljótt á götum Reykjavíkur með alls konar stöfum og númerum, sem bentu á, að þeir væru aðkomnir. Stundum voru menn hér eflaust með þá í snöggri ferð, en oft leit út fyrir, að þeir hefðu fengið hér bólfestu. Og ég held sannast að segja, að það sé erfitt að koma í veg fyrir, að menn fargi þessum vögnum eins og öðrum vögnum, ef þeir leggja mikla áherzlu á það. Þeir eiga þá og hafa borgað fyrir þá eins og aðrar eigur sínar.

Þegar Búnaðarfélagið hafði fengið til úthlutunar 450 jeppa, stóð málið þannig, að á nýbyggingarráði dundu jafnt og þétt kvartanir um úthlutunina, sem við höfðum að vísu ekki alltaf aðstöðu að dæma um, hvort væru á rökum reistar, en þó virtust ýmis dæmi þess eðlis, að það væri ekki að öllu leyti heppnuð tilraun, að Búnaðarfélagið hefði eingöngu með þetta að gera. Nýbyggingarráð fór þá í það að veita leyfin, en þó aðeins takmarkaðan hluta til kaupstaðanna, því að mestur hlutinn af leyfum nýbyggingarráðs var veittur til bænda víðs vegar um land. Ég vissi ekki, hvern hv. 3. landsk. átti við, sem hefði átt að tala um hneyksli í þessu sambandi. (HV: Það var hæstv. menntmrh.) Ég veit ekki, hvað hæstv. menntmrh. hefur haft fyrir sér, ef hann hefur talað um hneyksli í sambandi við þessa úthlutun nýbyggingarráðs. En hafi verið um eitthvert hneyksli að ræða, eru nýbyggingarráð og Búnaðarfélagið jafnt við það riðin.

Varðandi þau leyfi fyrir jeppum, sem nýbyggingarráð veitti og enn hefur ekkert fengizt út á og hv. 3. landsk. var að tala um, að hefðu verið ónýtt, þá vil ég halda því fram, að það sé ranglátt að ónýta þau, og það sé ekki rétt, en ég ræð ekki yfir innflutningsyfirvöldunum. Það eru 94 leyfi, sem enn hafa ekki komið til framkvæmda, þar af helmingur þeirra leyfa, sem bændur á öskufallssvæðinu fengu með sérstakri úthlutun. Þessum bændum var úthlutað sérstaklega 50 leyfum, þar af komu aðeins 25 bilar til landsins, en 25 lentu í halanum, sem hefur orðið úti og ekki fengizt til landsins. Ég tel, að bændur og aðrir, sem hafa þessi leyfi í höndum frá löglegum aðila á sinni tíð, eigi sinn rétt geymdan, og ég hef ávallt gert mér von um, að innflutningsyfirvöldin láti flytja inn þessa bíla. Og ef nú verður farið að flytja inn jeppa, tel ég sjálfsagt, að þessir menn, sem eiga sín leyfi óuppfyllt, fái fyrstir aðgang að þessum nýja innflutningi.

Annars er til fullkomin skrá í skjölum nýbyggingarráðs yfir allar þessar leyfisveitingar eins og aðrar leyfisveitingar ráðsins. Allar leyfisveitingar nýbyggingarráðs voru samstundis skráðar inn í þar til gerðar bækur, og þær geta sýnt, hverjir hafa fengið leyfin. Það er ekkert annað en málæði, að nýbyggingarráð hafi á nokkurn hátt hagað þessum leyfisveitingum sínum ranglátlega, að ég ekki tali um þá fjarstæðu að nefna þær hneyksli. Hins vegar vita allir, sem nokkuð þekkja til þessara mála, að óánægja með bifreiðaúthlutun er ekki nýtt fyrirbæri hér, svo sterkur áróður sem rekinn er til að fá bíla. Ég veit ekki til þess, að nokkurn tíma hafi farið fram nokkur bifreiðaúthlutun, sem einhverjir hafa ekki verið stóróánægðir með. Hins vegar má það heita ánægjuefni fyrir þá, sem áttu sæti í nýbyggingarráði, að nú er fengin viðurkenning á því, að leyfisveitingar þeirra til jeppakaupa voru ekki bláber vitleysa og út í loftið, eins og oft var hamrað á, á sinni tíð og þá sérstaklega af hálfu þeirra, sem sátu á sama tíma í gjaldeyrisnefndinni og veittu taumlaus leyfi fyrir smábifreiðum, sem koma að mjög litlum notum, a. m. k. í sveitunum og við atvinnurekstur, en litu leyfisveitingar nýbyggingarráðs fyrir jeppum hornauga og töluðu um, að þær væru út í bláinn. En nú er komið annað hljóð í strokkinn. Nú vill verkfærakaupanefnd og yfirleitt allir fá miklu meira af þessum tækjum. Það má segja um þetta, að nú vilja allar meyjar með Ingólfi ganga. Það er gott til þessa að vita fyrir þá, sem reyndu að stilla svo til í nýbyggingarráði, að bændur og fleiri fengju sem mest af þessum tækjum sem drifvélar og til annarra nota. En menn mega ekki vera svo einsýnir og binda sig svo fast í þessu máli, að þeir fordæmi það og kalli hneyksli, að einhverjir aðrir en bændur skuli hafa haft gagn af þessum jeppum. Það er hreinasta vitleysa og auglýsir aðeins það, að menn setja sig bara ekki inn í þarfir annarra en bænda, t. d. atvinnurekenda, sérstaklega handverksmanna, sem þurfa að stunda sína atvinnu, ég vil segja engu síður en bændur. Bændur hafa þó vissulega fengið og munu framvegis fá bróðurpartinn af þessum bilum, eins og til var stofnað og unnið að í nýbyggingarráði, og í Búnaðarfélaginu tel ég víst. En hinu verður ekki gengið fram hjá, að jepparnir eru svo sterk og hentug tæki, að að þeim er mikið gagn á fjölmörgum stöðum.

Fyrir forgöngu fyrrv. ríkisstj. og nýbyggingarráðs voru veitt leyfi fyrir og fluttar til landsins um 1.220 jeppabifreiðar. Þar af úthlutaði Búnaðarfélagið 450, 25 var úthlutað til bjargráðanefndarinnar, sem starfaði í sambandi við Heklugosið, en afganginum úthlutaði nýbyggingarráð sjálft. Það úthlutaði 582 víðs vegar út um land, en 166 til Reykjavíkur, þar af mörgum tugum til opinberra stofnana hér. Ég minntist áðan á nokkrar þær stofnanir, sem sóttust mjög eftir þessum tækjum, og til viðbótar man ég eftir flugvöllunum, lögreglunni og öllum mögulegum stofnunum. Og þessar stofnanir fengu oftast úrlausn, stundum samkvæmt óskum viðkomandi ráðherra, og ekki aðeins oftast, heldur alltaf. Ég man ekki eftir neinni opinberri stofnun, sem ekki var sinnt, ef hún bað um jeppa.

Ég held, að ég hafi nú, eftir því sem hægt er að gera í stuttu máli, gefið nokkurt yfirlit yfir afskipti nýbyggingarráðs af jeppainnflutningi. Hann var upphaflega hafinn að ráði nýbyggingarráðs, aðallega til að létta bændum störfin á margvíslegan hátt, og tölurnar sýna, að langmest af innflutningnum fór til þeirra. Hvað margir jeppar hafa komið aftur frá bændunum, skal ég ekki segja um, það er erfitt að halda skrá yfir það. Þeir bændur, sem hafa látið þá aftur, hafa auðsjáanlega ekki talið sér hag í að eiga þá, og verður tæplega séð, að þeir hafi ekki haft heimild til að losa sig við þá, ef þeir hafa ekki þótt hentugir. Þetta var þeirra eign, sem þeir voru búnir að borga fyrir og höfðu til ráðstöfunar eins og aðrar eignir.

En ég ætla, að það liggi nú orðið ljóst fyrir, að það var ekki að öllu leyti vitlaus ráðstöfun á sínum tíma hjá nýbyggingarráði að beita sér fyrir innflutningi jeppa, og ég tel víst, að það hafi verið réttara að flytja þá inn en legió af öðrum bifreiðum, sem aðrir innflutningsaðilar stofnuðu til. En í sambandi við þetta mál vil ég vona, að það verði hægt að sinna því þannig, að þeir, sem ganga með gömul leyfi nýbyggingarráðs upp á vasann, fái í fyrsta lagi og fyrstir manna úthlutað þeim jeppum, sem yrðu fluttir inn samkvæmt þessari þál., og síðan að hægt verði að láta sem flesta bændur, eins og hingað til, fá þessi mjög svo þörfu tæki. En ég legg engu síður áherzlu á, að fluttir verði inn varahlutir, en nýjar bifreiðar, það er höfuðatriði og ákaflega mikill bagi að því fyrir bifreiðaeigendur, hve lítið er flutt inn af varahlutum og hve dýrir þeir eru í meðförum hjá þeim, sem fá eitthvað af þeim til að verzla með. Vandræði bifreiðaeigenda eru ákaflega mikil í þessu efni og þörf á að hugsa fyrir varahlutum, um leið og ráðstafanir eru gerðar til að afla nýrra bifreiða.

Mér skilst, að þessar umræður hafi snúizt svo mikið um afskipti nýbyggingarráðs af jeppainnflutningnum, að ég hef talið sjálfsagt að gefa þær upplýsingar, sem ég hef nú gert, úr því að þessi þáltill. hefur nú verið notuð sem nýtt tilefni til að kasta steini að því af sömu öflum og frá upphafi hafa gert allt til að níða nýbyggingarráð og gera það tortryggilegt.