02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (4321)

21. mál, jeppabifreiðar

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég hef látið í ljós, að ég teldi varhugavert fyrir Alþ. að gera samþykktir um innflutning á vissum vörutegundum, án þess að innflutningsáætlunin liggi fyrir og sömuleiðis áætlun um gjaldeyrisöflun, því að þá getur svo farið, að aðrar vörutegundir, sem ef til vill eru enn þá nauðsynlegri, verði að sitja á hakanum og gæti slíkt t. d. valdið rekstrarstöðvun hjá aðalútflutningsatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum. Einkum er þetta varhugavert nú, með því að útlit er fyrir, að gjaldeyristekjur okkar geti orðið 50–60 millj. kr. minni en s. l. ár. Ef sömu gjaldeyristekjur verða af togaraútgerðinni og vélbátaútgerðinni hvað þorskveiðar snertir, þá mundi þurfa 50–60 millj. kr. meira virði af síldarafurðum til þess, að útflutningurinn verði jafnmikill og í fyrra, eða ca. 400 millj. kr.

Nú liggja hér fyrir allmörg mál svipaðs eðlis og þessi þáltill., sem nú er til umr. Það er í fyrsta lagi till. á þskj. 66 um að fela ríkisstj. að hlutast til um, að flutt verði til landsins efni í vinnuföt, vinnuvettlinga og hlífðarföt. Í öðru lagi er till. á þskj. 82 frá hv. 1. þm. Árn. og hv. 1. þm. Rang. um að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að flutt verði til landsins algengustu raftæki til heimilisnota, enn fremur raforkuvörur til orkuveitna og rafleiðslna til heimila. Þá er till. á þskj. 92 frá hv. 2. þm. Rang. um að skora á ríkisstj. að stuðla að aukinni framleiðslu rafmagnstækja innanlands með því að tryggja þeim verksmiðjum í landinu, sem framleiða rafmagnstæki, nægilegt hráefni, svo að þær geti unnið allt árið með fullum afköstum. Einnig skal stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja til framleiðslu ýmissa rafmagnstækja, sem enn hafa ekki verið framleidd í landinu. Svo er till. á þskj. 100 frá hv. þm. S-Þ. um að skora á ríkisstj. að leitast við að koma rafmagni inn á hvert sveitaheimili í sambandi við Marshallaðstoðina. Enn eru þessar tvær till., sem hér eru á dagskrá, um jeppana og landbúnaðarvélarnar, og má vera, að enn fleiri till. svipaðs eðlis hafi komið fram. Mig langar nú til að spyrja hv. flm. þessara till.: Ef skilja á milli þess, sem þeir skora á ríkisstj. að flytja inn, vilja þeir þá láta jeppana sitja fyrir t. d. rafmagnsvörum eða þá vinnufötum? Ef ekki verður nú sérstakt aflaár, þá verður gjaldeyrisskortur, og ég verð að segja það, að þótt ég beri virðingu fyrir Alþ. og öllum þorra þm., þá held ég, að hv. Alþ. hafi ekki möguleika á því að ákveða innflutning einstakra liða án þess að hafa yfirsýn yfir innflutninginn í heild. Ef menn gera till. sem þá, er hér um ræðir, þá verða menn að gera sér grein fyrir, hver innflutningurinn er í einstökum flokkum og enn fremur hvaða gjaldeyrismöguleika við höfum. Hvorugt þetta hafa þm. möguleika á að afla sér upplýsinga um. Ég tel því nauðsynlegt, að hæstv. ríkisstj. birti hv. þm. innflutningsáætlunina og að ekki sé mögulegt að ganga frá innflutningi í einum vöruflokki, án þess að heildaráætlun liggi fyrir. Ef Alþ. segir t. d., að jeppar eigi að sitja fyrir olíu til sjávarútvegsins, þá hefur Alþ. rétt og vald til þess, en eins og nú er háttað, þegar ekki er hægt að auka mikið innflutning á einstökum vöruflokkum án þess, að það gangi út yfir rekstrarvörur landsmanna, þá ættu hv. þm. að athuga svona till. alvarlega. Mundu flm. þessara till. óska, að innflutningur jeppa gengi fyrir innflutningi á t. d. fóðurbæti? Þetta er spurning, sem hv. þm. verða að gera upp við sig. Og hvar ætla þeir að taka peninga í þetta? Mér dettur ekki í hug, að þeir vilji fara út á þá braut að taka gjaldeyrislán til þessara hluta. Hv. 1. þm. Árn. gerði það að umtalsefni, að gjaldeyristekjur af togurunum væru ekki mjög miklu meiri, en af landbúnaðinum, og miðaði hann þar við árið 1947. Skal ég ekki rengja tölur hans, en þær eiga bara ekki við árin 1948 og 1949, því að gjaldeyristekjur af landbúnaði fara minnkandi, en vaxandi af togurunum. 1948 hygg ég ekki, að gjaldeyristekjurnar af landbúnaðinum fari fram úr 20 millj. kr., en gjaldeyristekjurnar af togurunum eru 60 millj. kr. nettó, og á árinu 1949 eru gjaldeyristekjurnar af landbúnaðinum áætlaðar 10 millj. kr., og er ástæðan fyrir þessari lækkun sú, að ekki er gert ráð fyrir útflutningi á kjöti — og gærur af öllu því fé, sem slátrað var 1948, seldust fyrir áramót 1948–49. Tekjurnar af landbúnaðinum 1947 eru því enginn mælikvarði á árið 1949. Hins vegar segi ég ekki, að minnka eigi stórkostlega innflutning á þörfum landbúnaðarins. Það mætti hugsa sér að auka hann eitthvað, en þegar kröfur eru gerðar um meiri innflutning en áætlað er, þá má það ekki valda óbærilegu ósamræmi, t. d. þannig, að draga þurfi úr innflutningi neyzluvara, sem við getum ekki án verið, eða rekstrarvara til aðalatvinnuvegar okkar, sjávarútvegsins. Ég mun því annaðhvort sitja hjá eða greiða atkv. móti þessum till. af þeim röksemdum, sem ég hef þegar talið.