03.11.1948
Sameinað þing: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (4340)

22. mál, landbúnaðarvélar

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér, ásamt ýmsum fleiri hv. þm. Sjálfstfl., að bera fram á þskj. 22 till. til þál. um innflutning landbúnaðarvéla.

Eins og kunnugt er, er þörfin fyrir mikinn innflutning búvéla mjög brýn, og hefur oft verið um það rætt og það hér á hæstv. Alþ. ekki alls fyrir löngu. Í þessari þáltill., sem hér er flutt, er farið fram á það, að á næstu árum verði fyrst og fremst fullnægt eftirspurn og þörfum búnaðarsambanda og ræktunarsambanda fyrir hinar stórvirkari ræktunarvélar, auk annarra búvéla eftir því sem hægt er. Hér er lagt til, að ekki færri en 500 dráttarvélar verði fluttar til landsins á næsta ári. Nú munu margir telja þetta lága tölu. En ef athugað er, að hér er farið fram á, að fullnægt verði á næsta ári þörfum á stórvirkari vélum til ræktunarsambanda og búnaðarfélaga, þá mætti á árinu 1950 flytja inn mjög mikið af smærri dráttarvélum, sem notast eiga á eftir vinnu hinna stórvirkari véla, sem eiga að brjóta landið og undirbúa það til ræktunar. Og því leggjum við mesta áherzlu á það, að strax á næsti ári verði flutt inn þessi stórvirkari tæki, til þess að ræktunarsambönd og búnaðarfélög þurfi ekki að bíða þess lengi að geta starfað samkv. þeim l., sem þessi samtök eru stofnuð fyrir.

Það er ekki langt síðan hér á hv. Alþ. var rætt um innflutning búvéla. Var þá rætt um áætlun, sem gerð hefur verið, að því er hæstv. landbrh. segir eftir ósk hans, en eftir því sem hv. þm. Ísaf. segir eftir ósk hans. Það er út af fyrir sig ekki stórt atriði, hvor þeirra óskaði eftir því, að áætlun væri gerð um þörf landbúnaðarins fyrir innflutning á búvélum á næstu þremur árum. Aðalatriðið er, að áhugi virðist vera fyrir því að flytja inn landbúnaðarvélar í stórum stíl. Og það hefur mikið að segja, ef unnið er ötullega að því að gera nákvæma og ýtarlega áætlun um þörf landbúnaðarins fyrir slík tæki. Og ef fullnægt er þeirri till., sem hér liggur fyrir, þá er vitanlega eitt höfuðatriði þess það að vita nákvæmlega, hver þörf landbúnaðarins er í þessu efni, bæði um dráttarvélar og stórvirkari jarðvinnsluvélar. En mér skilst, að þrátt fyrir áætlanir, sem gerðar hafa verið um þetta, séum við litlu nær því að vita nákvæmlega, hver þörfin er í þessum efnum. Ég hef séð áætlanir um þetta, bæði frá verkfærakaupanefnd og Búnaðarfélagi Íslands, og þar ber svo mikið á milli, að það mun vera mjög erfitt að átta sig eftir þeim áætlunum á því, hvað það rétta er í þessum efnum. Þó efast ég ekkert um, að bæði Búnaðarfélag Íslands og verkfærakaupanefnd hafi gert þetta eftir beztu vitund. En mér skilst, að báðar þessar stofnanir hafi ekki gefið sér nægilegan tíma til þess að afla sér nægra gagna og upplýsinga um þetta, sem er þó meginatriði og höfuðnauðsyn í þessu máli. Ég vil benda á það, að ef farið væri eftir áætlunum verkfæran. um stórvirkar vélar, þá þarf erl. gjaldeyri um 8 millj. kr., en ef farið er eftir áætlunum Búnaðarfélagsins, þarf ekki nema 3 millj. Ef við samþ. till. og viljum strax á næsta ári fullnægja eftirspurninni eftir stórvirku vélunum, þá nægir ekki að fara eftir áætlunum Búnaðarfélagsins. Ef það er rétt, sem verkfæran. segir, þá þurfum við 8 millj. Ef það skyldi vera rétt, sem Búnaðarfélagið segir, þá er ekkert vit í að flytja inn vélar af þessari gerð fyrir 8 millj. kr. Af þessu má ljóst vera, að það er nauðsynlegt að fá nákvæmari áætlanir til að vinna eftir en þær, sem nú liggja fyrir.

Ég vil benda á, af því að ég hef tekið tölur upp úr áætlunum, að verkfæran. leggur til, að fluttar verði til landsins 94 beltisvélar 25–60 hestafla, en Búnaðarfélagið aðeins 40, af því að það telur ekki þörf á að fá fleiri. Verkfæran. leggur til að fá 62 hjólavélar 20–30 hestafla; en Búnaðarfélagið telur nægilegt að fá 40. Bæði verkfæran. og Búnaðarfélagið eru stofnanir bænda. Hér er svo mikið ósamræmi, að ég skil ekki, að fjárhagsráð geti áttað sig á, hvort er réttara og eftir hvoru eigi að fara.

Ég vil nefna nokkur fleiri dæmi: Verkfæran. telur nauðsynlegt að flytja inn 1.700 plóga, en Búnaðarfélagið 2 þús. Verkfæran. vill fá 2500 herfi, Búnaðarfélagið 3.500. Verkfæran. vill fá 4 þús. vagna með gúmmíhjólum, Búnaðarfélagið 2 þús. Ég vil ekki gera upp á milli þessara stofnana, af því að ég tel, að báðar þessar stofnanir vilji vinna samvizkusamlega, en því meiri vandi er þá að gera sér grein fyrir, hvor þessara stofnana hefur á réttu að standa, þar sem við viljum ekki að fyrra bragði gruna þær um græsku eða fljótfærni. En hvað þessa heyvagna snertir, þá er mér ljóst, að þar hefur verkfæran. á réttara að standa, því að litið er komið af þeim til landsins. Ég ætla, að það sé nær sanni að telja, að það vanti 4.000 en 2.000. Verkfæran. telur, að það vanti 1.500 rakstrarvélar, en Búnaðarfélagið 3.500, verkfæran. 1.500 snúningsvélar og múgavélar, en Búnaðarfélagið 4 þús. Vegna þess að báðar þessar stofnanir hafa talsverða tiltrú og traust, þá er miklu erfiðara að gera sér grein fyrir, hvorri stofnuninni er rétt að fara eftir. Ef önnur hefði traust okkar, en hin ekki, þá væri vandinn minni.

Ég legg til, að hæstv. stj. óski eftir að fá betri upplýsingar varðandi áætlanir um vélaþörfina næstu 3–4 ár, og það er hægt með því að hafa samband við alla búnaðarfélagsmenn í landinu, — þeir munu vera um 200, — senda þeim skeyti og biðja þá að athuga hvern í sínu félagi, hver vélaþörfin sé þar næstu 3–4 ár, svo að hægt sé með rökum að segja til um, hvað vanti af vélum til landsins, svo að það sé víst, að það, sem flutt er til landsins, komi að sem beztum notum, en að það sé ekki flutt inn, sem er kannske sízt þörf fyrir. Ég held, að þótt þetta sé gert, þá þurfi það ekki að tefja fyrir framkvæmdum. Samgöngurnar eru ekki svo slæmar og ekki svo erfitt að ná sambandi við búnaðarfélagaformennina, að það megi ekki takast á tiltölulega stuttum tíma, en það er ljóst, að þær áætlanir, sem við höfum hér frá verkfæran. og Búnaðarfélaginu, eru ekki til að byggja á.

Till., sem ég flyt, fer fram á að fullnægja eftirspurn stórvirku vélanna á næsta ári og annarra véla, sem nauðsynlegastar eru og mest eftirspurn eftir, og einnig, að inn verði fluttar 500 smærri dráttarvélar. Í áætlunum verkfæran. og Búnaðarfélagsins er gert ráð fyrir, að vanti 3.500 dráttarvélar. Ég get vel trúað, að þetta sé rétt, þó að ekki hafi komið pantanir til þeirra, sem flytja þessar vélar inn og dreifa þeim, nema nokkuð á annað þúsund, því að það hefur ekki verið leitað enn til bændanna sjálfra og búnaðarfélaganna, hvort þeir séu kaupendur að svona mörgum dráttarvélum. Við vitum, að það eru 1.200–1.500 pantanir fyrirliggjandi, en ég tel líklegt, að a. m. k. 3 þús. bændur vilji kaupa slíkar dráttarvélar og þurfi á þeim að halda. En skynsamlegast er að vita það með vissu, og það er hægt með því að hafa samband við búnaðarfélagaformennina.

Það er lofsvert, að hæstv. ríkisstj. virðist hafa áhuga á því að flytja inn landbúnaðarverkfæri til landsins á næstunni. Og það umtal, sem hefur orðið um þetta í síðustu viku, gefur von um, að þetta verði gert, en ákvörðun um þetta hefur ekki verið tekin samt sem áður. Till., sem hér er flutt, fer fram á ákvörðun í þessu efni, og það hefur vitanlega miklu meira að segja fyrir bændur landsins en umtal og annað, sem ekki er nein föst ákvörðun. Þess vegna óska ég eftir, að till. verði samþ. og vísað að lokinni fyrri umr. til síðari umr. og allshn.