03.11.1948
Sameinað þing: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (4347)

22. mál, landbúnaðarvélar

Skúli Guðmundsson:

Ég hvika ekki frá því, sem ég hélt fram, að því er snertir þessar smærri dráttarvélar. Ég vil benda á það, að þarna er stigið styttra skref en hjá Búnaðarfélaginu, sem hefur áætlað þörfina fyrir þessar dráttarvélar 3 þúsund á fjórum árum. Og eins og ég nefndi áðan, þá eru, eftir því sem hv. 1. flm. segir, fyrirliggjandi pantanir nú þegar í eitthvað á annað þúsund af þessum vélum.

Maður skilur það, að þegar herjað er á gjaldeyrisyfirvöldin og beðið um innflutning á 2 þús. vélum, en hins vegar tilhneiging í þá átt að draga úr honum, þá getur þótt gott að benda á það, að komið hafi fram till. frá 9 þm., þar sem ekki er gert ráð fyrir nema 500 vélum. —Um aðra liði í till. ræddi ég ekki áðan í þessu sambandi. — Hins vegar er ég sammála því, að þörfin er brýnust fyrir hinar stórvirku vélar, sem eiga að fara til ræktunarsambandanna.

Ég fjölyrði ekki meira um þetta, og vænti þess, að hv. n. taki þessar athugasemdir til greina.