26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (4352)

22. mál, landbúnaðarvélar

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég gat þess í gær út af svipuðu máli og þessu, sem hér er til umr., að ég teldi farið inn á hættulega braut, ef Alþ. ákvæði innflutninginn í einstökum vöruflokkum. Þessi till. bindur að vísu ekki í sér tölur og er að því leyti öðruvísi en hin, en eigi að síður er skorað á ríkisstj. að flytja inn landbúnaðarvélar eftir því, sem þörf krefur. Hér er allsterklega tekið til orða, nema till. eigi að skiljast eftir niðurlagi ályktunarinnar, þar sem segir, að flytja skuli inn landbúnaðarvélar eins og frekast er unnt. Ég vil skilja þetta svo, að innflutningurinn verði að miðast við till. þeirra manna, sem bezta yfirsýn hafa yfir innflutninginn í heild, og veit ég, að þeir munu taka tillit til óska þessarar þáltill. Nú er gert ráð fyrir að veita 10 millj. kr. til innflutnings á landbúnaðarvélum, og tel ég óvarlegt að hækka þá tölu svo að nokkru nemi, án þess að dregið sé þá úr öðrum innflutningi eða annað nýtt komi til. Ég mun sem sagt leyfa mér að skilja till. þannig, að innflutningurinn verði miðaður við þá getu, sem í landinu er.