25.11.1948
Neðri deild: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

26. mál, happadrættislán ríkissjóðs

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég þakka n. fyrir afgreiðsluna á þessu máli, og vona ég, að það gangi fljótt og vel í gegnum þingið. Út af aths. hv. þm. V-Húnv. vil ég láta þess getið, án þess að hefja umr. um skattfrelsi almennt, þá er það vitað, að peningar til útlána liggja ekki lausir meðal þjóðarinnar eins og sakir standa, en þetta mál er tilkomið til þess að gefa fólki kost á því að lána ríkissjóði, um leið og það hefur möguleika til þess að hafa eitthvað að sækjast eftir. Það er því lagt til, að þeir, sem hljóta vinning, verði undanskildir tekjuskatti. Það er vitað mál, að eftir núgildandi skattalöggjöf mundu þeir, sem fengju háan drátt, hafa litið eftir, ef það heyrði undir núgildandi skattaákvæði og reglur. Ég hef þá trú, að ríkissjóður hefði fyrr getað aflað sér hærri rekstrarlána með þessum hætti, ef upp hefði verið tekinn — ef það hefði verið gert nógu snemma að gera það aðgengilegt fyrir borgarana að lána ríkinu fé — einmitt að lána ríkinu fé. Ég endurtek: Það þarf að gera þjóðinni aðgengilegt að lána ríkinu fé. Með þeim hætti, sem hér er lagt til, hefði mátt ná og má ná tugum milljóna kr., sem greiða fyrir framkvæmdum og framförum í landinu. Varðandi spurningu hv. þm. til mín um framkvæmd þessa máls, þá er ég honum í höfuðatriðum sammála. Stjórnarvöldin þurfa að láta gjaldþegna sína hafa full sönnunargögn í höndunum, til þess að þeir geti sannað fyrir skattanefndum, að um vinningspeninga hafi verið að ræða. Ég skal fúslega láta taka til athugunar í fjmrn., að það gefi skattanefndum greinileg fyrirmæli í reglugerð umskattfrelsi vinninga happdrættislánsins og að þeir aðilar, sem greiða út vinningana (í Reykjavík ríkisféhirðir), gefi vottorð um vinning númers, um leið og vinningur er borgaður.