31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (4509)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta og flytja ekki langa ræðu, enda virðist hæstv. ríkisstj. vera svo taugaóstyrk, að hún sé ekki reiðubúin að þreyta umræður um málið. En ég hef ekki fengið svar við því, hver væri dómsmrh. nú, þegar hæstv. dómsmrh. er floginn til Ameríku. (Forsrh.: Ég lýsti því yfir áðan, að hæstv. fjmrh. gegndi störfum dómsmrh.) Ég bið forsrh. afsökunar, að ég skuli ekki hafa heyrt þá yfirlýsingu. Ég sá hann áðan vera að tala við hæstv. fjmrh., og þá hefur hann sennilega verið að fela honum þetta, svo að landið hefur þá verið dómsmálaráðherralaust, þegar þingið kom saman. Ég vil svo beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort það sé rétt, sem sagt er, að hann hafi látið fangelsa skólatelpu fyrir að gefa sér löðrung og hafi þessi stúlka verið í fangelsi í alla nótt og sé þar enn. Þá vil ég og beina því til hæstv. núverandi dómsmrh., hvort ríkisstj. og hann ætli ekki að rannsaka atburðina í gær og þá sérstaklega framkomu lögreglustjóra, hvort hann ætli ekki að víkja honum úr embætti og rannsaka lögbrot hans, því að mér skilst, að hann hafi brotið réttarreglur, sem hér segir:

1. Hann bannaði þingmönnum útgöngu úr alþingishúsinu. Gerði hann það af sjálfsdáðum eða að tilhlutun hæstv. ríkisstj. og þá með leyfi hæstv. forseta þingsins?

2. Hann vopnaði pólitískan félagsskap, Heimdall, félag ungra sjálfstæðismanna, með kylfum og hjálmum, og þegar þeim var sleppt út úr húsinu, kom á daginn, að þessum piltum virtist heimilt að berja fólk reglulaust, en lögregluþjónum er uppálagt að forðast að berja fólk í höfuðið, en þessir piltar brutu þar allar reglur og leituðust við að berja menn í höfuðið, enda ganga nú margir Reykvíkingar, þar á meðal margir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., með slæmar skráveifur og húðrifur á höfði eftir þessa piltunga.

3. Lögreglustjóri skipaði kylfuárás á mannfjöldann og síðar gasárás án undanfarandi viðvörunar og án þess að gefa fólkinu tækifæri til þess að hverfa frá. Þetta er algert brot á lögreglusamþykktinni.

4. Lögreglustjóri hefur gefið skýrslu, þar sem hann skrökvar því vísvitandi, að hann hafi gefið viðvörun um þetta.

Allt þetta, sem ég nú hef talið, er svo veigamikið, að ég tel það skyldu hæstv. ríkisstj. að víkja lögreglustjóra úr embætti og láta rannsaka aðgerðir hans í gær, ef hún sjálf hefur þá ekki verið með í ráðum.