31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í D-deild Alþingistíðinda. (4522)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér líkar yfirleitt vel við samþingsmenn mína og hef ekki undan þeim að kvarta. En þó þykir mér oft miður, er ádeilur harðna og beinast að ákveðnum flokki, að þá þykja engar svívirðingar nógu stórar til þess að brigzla honum um.

— Það segir svo í vísunni gömlu:

„Þau eru verst hin þöglu svik,

að þegja við öllu röngu.“

Mér fer svo hér, að þegar ég heyri, að engir þykjast nú geta borið kommúnista of þungum brigzlum vegna þessa máls og ýmsir mætir menn eins og Pálmi Hannesson og Klemenz Tryggvason og fleiri hér fjarstaddir verða fyrir ósæmilegu aðkasti, þótt þá sé ekki um annað að saka, en að vera á annarri skoðun en hv. þm. G-K., þá finnst mér ódrengilegt að þegja við því. Við Íslendingar stöndum í þeirri meiningu, að það sé frjálst að láta skoðanir í ljós í ræðu og riti, hver sem hlut á að máli.

Það þýðir lítið að sakast um orðinn hlut, þó margt væri betur óorðið, sem hér gerðist í gær. En þeir atburðir munu lengi í minnum hafðir. Ég vil halda því fram, að fleiri en kommúnistar eigi sök á þeim atburðum, sem urðu hér utan þinghússins og nú er rætt um hér. Ég harma það, að þeir skyldu gerast, og ég harma það, ef nokkur þm. hefur gefið merki til að æsa upp fólkið, úr hvaða flokki sem hann hefur verið. Ég veit það, að það mál, sem hér var farið allóvarlega með, hafði nóg íkveikjuefni í sjálfu sér, þótt ekki kæmi meira til. Ég held því fram, að hæstv. ríkisstj. hafi hagað sér ógætilega. Það var óhyggilegt að hafa lögregluvernd. Það var æsandi og eggjandi. Og það var ekki heldur hyggilega gert af þeim, sem réðu því, að þann 29. marz var lögregluliði stefnt á vettvang að morgni dags. Það var misráðið. Það var eggjandi og ögrandi og æsti upp fólkið. Það var einnig óhyggilegt að reyna ekki að haga 1. umr. um málið á þann veg að gefa orðið frjálst, til að lofa hv. þm. að ryðja úr sér. Það var hreint óvit að beita því að afnema matmálstíma og kaffitíma og gera allt óvenjulegt. Það var og misráðið að útbýta miðum til hv. þm. Með því var friðsömum borgurum bægt frá pöllunum. Borgurunum fannst brotinn á sér réttur. Pallarnir voru líka stundum tómir og ekki eingöngu þeir, heldur og ráðherrastólarnir. Og það var ósæmilegt og einnig hitt, að forráðamenn flokkanna skyldu ekki reyna að sefa fólkið. Var talað til þess? (FJ: Brynjólfur Bjarnason talaði til þess.) Hvorki hæstv. ríkisstj. né formenn flokkanna beittu sér fyrir því. Það var og eigi athugað að undirbúa málið af gerhygli. Já, ég vil biðja hæstv. forseta að hafa biðlund, því að ég er ekki alveg búinn. Hvers vegna var fólkinu safnað saman? Hvernig átti það að tryggja starfsfrið Alþ.? Vildi fólkið ekki veita hann, eða gat það ekki gert það? Ef forráðamenn flokkanna hefðu beðið fólkið um að fara burt, þá hefði verið sök sér. Nei, það var ekki gert. En heiðursgestirnir, — hvaða „trakteringar“ fengu þeir? Fólkið var barið. (Forsrh.: Þetta er Þjóðviljafleipur.) Það var ógætilega talað af hæstv. menntmrh., þegar hann sagði, að boðið hefði verið að kalla skrílinn saman. — Ég vil beiðast þess, að hæstv. forseti athugi það, að ræðutíma mínum er spillt. Ég skal geta þess, að ég gekk út með þeim hv. 5. þm. Reykv. og 3. þm. Reykv. í gær. Rýmt var til fyrir okkur, og varð vel fært. Enginn vék orði að okkur, og fengum við allir að fara í friði. Skríllinn óð ekki að okkur. En örfáum mínútum síðar var byrjað að beita táragasinu. Þá höfðu engar beinar aðgerðir orðið, engin ólæti. Allt var rólegt, þegar við gengum út. Ég held, góðir samþingsmenn mínir, að þeir hv. þm. G-K., hv. 4. landsk. og hæstv. forsrh. hefðu getað sefað fólkið. Það var ein af yfirsjónunum, að það var ekki gert.