27.01.1949
Sameinað þing: 33. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (4612)

112. mál, mænuveikivarnir

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Alþ. getur eigi verið ókunnugt um, að vaxandi óánægja og uggur er í landinu út af útbreiðslu mænuveikinnar og tjóni, sem af því skapast. Hefur lítið verið gert til að hindra hana. Hæstv. forseti Ed. fór til þess bæjar, þar sem hún geisar, og liggur þar nú veikur. Ég skal ekki fullyrða um þátt heilbrigðismálastjórnarinnar í þessu og býst við, að hún segi, að enginn viti neitt. En þótt menn viti ekki vel um þetta, þá getur hver maður séð það, hver hætta stafar frá þessu. Læknirinn á Dalvík hefur fyrirskipað samgöngubann við Akureyri, sem er ekki langt frá. Þó að læknar vildu gera slíkt hið sama, er það eigi kleift sökum skorts á heildarskipulagi. En menn munu sjá afleiðingarnar af veikinni. Líkur benda til, að forseti Ed. væri enn heill heilsu vor á meðal, hefði hann ekki farið til Akureyrar. Veikin berst með smitun, og hið eina, sem hægt er að gera, er að banna samgöngur allar við sýkta staði útbreiðslu veikinnar til hindrunar. Menn geta nú sagt, að þeir séu ekki ábyrgir, því að læknarnir viti ekkert um, hvernig þeir eigi að bregðast við. Við eigum þá að taka til okkar ráða og gera viðeigandi ráðstafanir til úrlausnar, að því er skynsemin segir okkur. Ég þykist vita, að ég mæli fyrir allan þorra landsmanna, sem þykir uggvænt um útbreiðslu veikinnar. Finnst mér rétt, að undireins sé úr því skorið, hversu á að hefta hana.

Ég álít, að enga nefndarskipun þurfi í þetta mál, en verði því þó vísað til n., þá vil ég leyfa mér að óska þess, að það verði eigi tafið þar um of.