31.01.1949
Sameinað þing: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í D-deild Alþingistíðinda. (4622)

112. mál, mænuveikivarnir

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Eins og menn sjá af áliti n., hélt n. fund um málið, og sakir þess, hvernig ástatt er um þetta mál, sá allshn. sér ekki fært að draga afgreiðslu þess og vildi láta það koma til þingsins aftur sem allra fyrst. Og eftir því, hvernig málið er vaxið, og eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, treystir n. sér ekki til að gera till. um neinar sérstakar ráðstafanir í sambandi við þetta mál. Allshn. fannst, að heilbrigðisyfirvöldin, sem hafa haft málið til meðferðar frá því veikin gerði verulega vart við sig, mundu bezt geta um það dæmt, hvað unnt væri að gera og hvað gera skyldi, og þar sem n. treysti sér ekki til að gera neinar sérstakar till., þá gæti hún heldur ekki hagað afgreiðslunni á annan veg en að leggja til, að málinu sé vísað til ríkisstj. og heilbrigðisstjórnarinnar í trausti þess, að heilbrigðisyfirvöldin geri það bezta, sem þau koma auga á, til að hefta útbreiðslu veikinnar. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið.