08.12.1948
Sameinað þing: 25. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í D-deild Alþingistíðinda. (4679)

29. mál, vöruskömmtun o.fl.

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég get verið mjög stuttorður í þetta sinn, því að um efnishlið málsins er áður búið að ræða. En ég vil ekki láta ósvarað fáum atriðum, sem komu fram í ræðu hv. 8. landsk. og hv. 2. landsk. nú síðast.

Hv. 8. landsk. sagði, að það væri ærið langt síðan þetta mál kom á dagskrá hér fyrst, það væru ekki dagar, heldur vikur. Þetta vildi hv. þm. kenna mér. Ég vil aðeins bera það undir hæstv. forseta, hvort ég hafi farið þess á leit við hann, að málinu væri frestað. Nei, hæstv. forseti hefur getað haft þetta mál eins og honum hefur sýnzt fyrir mér, ég hef engar óskir komið með um drátt á þessu máli, það er eins tilbúningur í dag og fyrir mánuði síðan. Að vísu hefur það skeð á þessu tímabili, að fram hefur komið nál. n., sem fékk málið til athugunar. En þó að þetta álit hefði ekki verið komið, þá hefði ég getað fengið frá n. svipaða umsögn og hér kom fram við umr., þegar málið var til umr. síðast, eins og n. lét frá sér fara. Ég vil því algerlega vísa frá sem ósannindum, að ég hafi haft nokkur áhrif á það, að þessu máli hefur verið frestað, og er það ekki ósvipað ýmsu öðru, sem fram hefur komið í umr. um þetta, að gera mér upp sakir algerlega að ástæðulausu.

Hv. 8. landsk. (ÁS) bar saman vöruinnflutninginn í stríðslok og vöruinnflutninginn nú og gjaldeyrisöflunina og vildi þar af draga þá ályktun, að innflutningsmöguleikarnir væru nú það miklir, að engin þörf væri á skömmtun. Ég get alls ekki tekið undir þetta með hv. þm. Það er ekki hægt að segja, að það sé hlutverk skömmtunarinnar út af fyrir sig að spara gjaldeyri, heldur er það hlutverk skömmtunarinnar að sjá um, að sú vara, sem kemur inn, skiptist réttlátlega milli landsins barna. Takmörkunin á gjaldeyrinum er gerð af öðrum aðilum, þ. e. af innflutningsyfirvöldunum, af viðskiptanefnd og fjárhagsráði, sem ákveða skammtinn, sem inn er fluttur, og síðan er það hlutverk skömmtunaryfirvaldanna að sjá um, að þessi skammtur, sem inn er fluttur, skiptist réttlátlega. Það er eftirspurnin, sem skapar þörf eða ekki þörf á skömmtun. Það er ekki um deilt, að eftirspurnin eftir þessum vörutegundum er meiri en hægt hefur verið að fullnægja með þeim innflutningi, sem veittur hefur verið. Á því er þess vegna enginn vafi, að ef skömmtun hefði verið afnumin á þessum vörutegundum, hefði mönnum orðið enn meir mismunað við úthlutun þessara vara, en þessi þm. vill vera láta, að hafi verið. Það má vera, að ekki verði hægt að dreifa þessum vörum réttlátlega niður með þessu kerfi. Það er ekkert kerfi óskeikult, og ég efast um, þótt hv. 8. landsk. og hv. 2. landsk. settust saman á rökstóla, að þau mundu finna út það kerfi, sem ekki mætti finna eitthvað að. Þörfin á skömmtun er ekki byggð á því, hvort meira eða minna er flutt inn eitt ár eða annað, heldur byggist hún á því, hvort eftirspurnin eftir vörunni, er meiri eða minni, en inn er flutt.

Hv. þm. fór svo að athuga, hvað hefði sparazt í gjaldeyri við þessa skömmtun, og komst að þeirri niðurstöðu, að það hefði nokkuð sparazt, en út af fyrir sig ekki á skömmtuninni sjálfri, heldur þeirri ákvörðun innflutningsyfirvaldanna, sem er orsök skömmtunarinnar, þ. e., að vegna gjaldeyrisskorts er ekki hægt að flytja inn nóg til þess að fullnægja allri eftirspurn Og það held ég, að þessi hv. þm. geri sér ljóst, að það er ekki með þeim gjaldeyristekjum, sem við ráðum nú yfir, hægt að flytja inn allt, sem fólkið í landinu óskar eftir að kaupa. Og sé það ekki hægt, er eina leiðin til þess, að nokkur sanngirni fáist í þessi mál, sú, að reynt sé að miðla vörunum út. Nú held ég t. d., að það verði ekki um deilt, að kaffiskammtinum, sykurskammtinum, kornvöruskammtinum og hreinlætisvöruskammtinum hafi verið skipt nokkurn veginn eins og kerfið gerir ráð fyrir, þannig að menn hafi yfirleitt fengið þann skammt, sem gert hefur verið ráð fyrir. Hins vegar hefur það komið á daginn að því er snertir tvo vöruflokka, þ. e. vefnaðarvöru og skófatnað, að ekki hefur verið hægt að fullnægja skömmtuninni með þeim innflutningi, sem gert hefur verið ráð fyrir. Þetta eru mistök, ég játa það, en þau eiga sína eðlilegu skýringu, sem er á þá leið, að þegar kom fram á þetta ár, varð tvívegis aflabrestur, sem setti það mikinn óhug í skömmtunaryfirvöldin, að þau töldu nauðsynlegt að draga úr þeirri skömmtun, sem ákveðin hafði verið. Í öðru lagi kemur þetta líka í þessum vöruflokkum til af því, að þeir eru mjög sundurleitir, því að það sem fæst út á þessa miða, vefnaðarvörumiðana, eru mjög ólíkar tegundir af þessum vörum, sem verða að vera til upp í skammtinn. Ef nú margir menn, fleiri en gert er ráð fyrir, kaupa sömu .egund, — ef t. d. allt kvenfólk keypti sér sokka og karlmenn skyrtur, gæti orðið hörgull á. þessum vörutegundum, þó að til væri önnur vara, sem væri eins þörf, en eftirspurnin eftir henni ekki eins mikil í bili. Þess vegna er mjög erfitt að koma upp það miklum birgðum af skömmtunarvörum almennt, að til sé á öllum tímum nóg af þessum vörum. Ég geri ráð fyrir, að þetta verði reynt að laga eins og hægt er á næsta ári og reynt verði að safna svolitlum birgðum og reynt að sjá til þess, að menn geti að minnsta kosti fengið út á skammtinn sinn, eins og í öðrum vöruflokkum. Og ég held, að ef menn hefðu getað fengið út á skammta sína, hver og einn, í þessum tveimur vöruflokkum, sem ég nefndi, hefði ekki verið slík óánægja með skömmtunarkerfið eins og þessi hv. þm. hefur réttilega bent á, að verið hefur, sem stafar af því, að vörumagnið hefur ekki staðizt áætlun.

Hv. þm. hneykslaðist á því, að ég hefði sagt, að þessi till. væri flutt í áróðursskyni. Ég hef nú mínar meiningar um það, hvað sem þm. segir, og held, að það sé í því sambandi rétt, að ég svari um leið hv. 2. landsk. (KTh), sem kvartaði undan því, að ég hefði talið hana illyrta í þessu sambandi og að hún hefði notað heldur óvenjuleg orð. Ég skal ekki þreyta þm. með að lesa mikið upp eftir hana, en tek aðeins nokkrar setningar, sem sýna, af hvaða hvötum þetta er flutt. Þm. orðar þetta svo, að kerfið sé ósanngjarnt, ambögulegt og fálmkennd hringavitleysa. Yfirvöldin séu gegnsýrð af siðspillingu og haldi yfir henni verndarhendi og öll mistökin, t. d. hamstrið og svartimarkaðurinn, séu sjálfskaparvíti, því að útilokað sé með öllu, að ekki hafi verið vitandi vits til verks gengið. (SigfS: Þetta er hárrétt.) Getur verið, að þetta sé rétt, en ég vil ekki viðurkenna, að menn geri þetta viljandi. Það er hugsun, sem hvergi á heima, nema þá í kommúnistaflokknum. Eftir að þm. er búinn að útmála kerfið, þykist hún ganga út frá því, að þetta sé gert vitandi vits til þess að vera almenningi bölvun. Það er þetta, sem ég leyfði mér að kalla, að þm. hefði „velt sér upp úr illyrðunum eins og krakkar veltu sér upp úr skít“. — Þá segir hv. þm.: „Þess var til getið, er umr. fóru fram um skömmtunarmálin í fyrra hér á þingi, að verzlunarstéttin hefði heimtað þessi fríðindi af stjórninni sinni til þess að fást til að fallast á vöruskömmtun. Ekki er ósennilegt, að svo hafi verið og ríkisstj. þá tekið þeim kröfum vel, litið á þær sem veigamikinn þátt í þeim viðreisnaráformum sínum að gera íslenzku þjóðina móttækilegri fyrir bandaríska aðstoð“. Og á öðrum stað segir: .... „en ef til vill á að líta á þessa óhófseyðslu sem lið í viðreisnaráformum ríkisstj., sem á að gera þjóðina móttækilega fyrir bandarísku hjálpina ....“. Og svo segir hún að lokum: „En það er ekki hægt að muna eftir öllu saman, og ef til vill hefur ekki verið um gleymsku að ræða hjá stjórnarvöldunum. Hugsanlegt er — og margt, er síðar hefur komið fram, virðist benda í þá átt —, að ríkisvaldið hafi einmitt minnzt þessa lýðs og verið ósárt um, þótt þess sæjust einhver merki, hverjir eru fínir menn og hverjir ekki“.

Þetta kalla ég, að mál sé flutt á mjög áróðursfullan hátt, svo að vægt sé að orði komizt. Þetta er það, sem þm. talaði áðan um höfðingsskap andans. Þetta er áreiðanlega ekki höfðingsskapur andans, það skal ég fullyrða.

Í sambandi við þá n., sem hér hefur setið á rökstólum til þess að endurskoða skömmtunarkerfið, vil ég aðeins segja það, að ég hef ekki skipað neina n. í því skyni, eins og hv. þm: vildi vera láta. Ég skrifaði fjárhagsráði og óskaði till. þess um breytingar á skömmtunarkerfinu og óskaði um leið, að það léti í ljós álit sitt um það, hvaða reynsla hefur fengizt á því ári, sem liðið er síðan kerfið var tekið í notkun. Fjárhagsráð skipaði í n. verðlagsstjóra, skömmtunarstjóra, einn fulltrúa frá fjárhagsráði og einn frá viðskiptanefnd til þess að rannsaka þetta mál og gera till. til breyt. Ég skipaði síðan þær 4 konur, sem í þetta voru tilnefndar, eingöngu eftir till. stjórnar Kvenfélagasambands Íslands. Óskaði ég eftir, að hún tilnefndi konurnar, og voru þær síðan tilnefndar nákvæmlega eftir útnefningu hennar. — Ég vil taka fram, að ekki hefur komið frá mér nein ósk um, að n. skilaði til mín þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir frá henni. Málið var sent mér á mína skrifstofu, án þess að nokkur ósk kæmi frá mér um það. Ef n. er ekki fullbúin að vinna störf sín og á eitthvað ógert, gat hún vel látið ógert að skila nál. sínu eða hluta af því. En úr því að hún gerði það, taldi ég sjálfsagt, að það yrði tekið fram, til þess að þm. fengju að vita um það og n., sem fær það til athugunar, hafi það til samanburðar við þær kröfur, sem hér hafa komið fram frá þm.

Hv. 2. landsk. talaði um 15–20 millj., sem úthlutað hefði verið meira á seðlum, en flutt hefði verið inn, eða það þyrfti að veita það á næsta ári. Ég skildi ekki vel, hvað þm. fór í þessu, en skildist þó helzt, að þetta væri mismunurinn á því, sem innflutt hefði verið og skammtað. En það, sem ég las upp úr nál. n., var á þá leið, að það mundi þurfa 17–20 millj. kr. innflutning í byrjun næsta árs, til þess að birgðir gætu safnazt í búðir.

Og svo hneykslaði það hv. 2. landsk., að nefndarmenn og sérstaklega nefndarkonur hefðu afgr. tvær till. í trausti þess, að eitthvað yrði lagfært. Ég skal viðurkenna, að það er mikill munur á þessum hugsanagangi n. og 2. landsk. Hv. 2. landsk. ætlar öllum alltaf það versta. Hún ímyndar sér, að þeir geri allt af bölvun sinni og öðrum til ills, en þessar nefndarkonur trúa því, að ef þær koma fram með gagnlegar tillögur, muni verða farið eftir því. Á þessu tvennu er höfuðmunur, og sé ég ekki, að sá munur sé í hag hv. 2. landsk. Ég ber meira traust til þeirra, sem geta ætlað öðrum mönnum eitthvað gott, en hinna, sem ætla öllum allt illt.

Ég held ég hafi svo ekki meira um málið að segja. Ég hef ekki ætlað að tefja það, hef ekki gert það hingað til, eins og hv. flm. vilja vera láta, og skal ekki heldur gera það hér eftir. Ég tel sjálfsagt, að það fari í n., en tel óeðlilegt, að það fari til fjvn. (Menntmrh.: Hún hefur víst nóg á sinni könnu.) Já, fjvn. hefur áreiðanlega nóg á sinni könnu. Ég tel eðlilegast, að málið fari til allshn., ekki vegna þess að ég vantreysti fjvn., heldur vegna þess, að ég tel samkv. þingsköpum eðlilegast, að málið fari þangað.