23.11.1948
Sameinað þing: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (4683)

43. mál, landhelgisgæzla og stækkun landhelginnar

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þessi till. um landhelgisgæzlu og stækkun landhelginnar, sem flutt er af mér ásamt hv. þm. N-Ísf. og hv. þm. Snæf., er í raun og veru tvíþætt, þar sem hún annars vegar veit að sjálfri landhelgisgæzlunni, en hins vegar að stækkun landhelginnar. Bæði þessi efni hefur borið á góma hér í þinginu fyrr og síðar, en þó full þörf á því að hafa vakandi auga á að vinna að því að gera allt, sem mögulegt er á hverjum tíma, til þess að styrkja aðstöðu okkar, bæði að því er veit að landhelgisgæzlunni sjálfri og eins hinu, að fá viðurkenningu annarra þjóða á stækkun landhelginnar frá því, sem hún nú er. Um landhelgisgæzluna er það að segja, að mörg undanfarin ár hefur hún verið í mikilli niðurlægingu, og hefur það valdið vonbrigðum og óánægju meðal manna, hvað þessi þáttur hefur dregizt aftur úr öðrum þáttum á undanförnum árum, og þá sérstaklega um nýsköpun tækja til landhelgisgæzlu, bæði að því er snertir ný strandvarnaskip og flugvélar og önnur tæki, er þar mundu henta. Hafa undanfarin ár verið fluttar hér þáltill., sem hnigið hafa að því að hvetja til sterkari landhelgisgæzlu, og 1944 var þetta mál mjög á dagskrá og samþ. þáltill., þar sem skorað var á ríkisstj. að láta fram fara ýtarlega rannsókn á því, hvernig landhelgisgæzlunni yrði betur og haganlegar fyrir komið, og var tilætlunin, að niðurstöður af þessari áætlun yrðu lagðar fram eins fljótt og unnt væri. Það hefur einhvern veginn ekki orðið úr, að slíkar niðurstöður yrðu lagðar fyrir þingið. Síðan var þetta mál aftur ítrekað á þinginu 1946, en dagaði þá uppi. Af þessu verður séð, að þær tilraunir, sem gerðar hafa verið af þinginu, hafa ekki borið þann árangur, sem æskilegt hefði verið. Það, sem ég sagði nú, er ekki sagt í ádeiluskyni á einstaka aðila, því að menn bera nokkuð sameiginlega ábyrgð á þessu.

Í þessari þáltill. hér er farið fram á, að sett verði heildarlöggjöf um fyrirkomulag, verksvið, starfshætti og stjórn landhelgisgæzlunnar. Það er skoðun okkar flm., að nokkuð mundi vinnast með því, að sett væri heildarlöggjöf um landhelgisgæzluna, þannig að þessi starfsemi fengi fastara form, en áður hefur verið. Ég vil leyfa mér að víkja nokkrum orðum að þeim einstöku atriðum, sem við leyfum okkur að benda á, að til athugunar kæmu.

Fyrsta atriðið er það, að með stjórn landhelgisgæzlunnar fari sérstök deild í dómsmrn. undir yfirstjórn dómsmrh. Við teljum mjög mikilvægt að hafa einhverja yfirstjórn yfir þessum málum, sem verði með öðrum hætti en nú er, og að það verði ekki skilið frá dómsmálastjórninni. Væri æskilegt, að betur væri búið um hnútana í sambandi við sjálfa útgerðarstjórn Ríkisskips en nú er, því að það er þannig nú, að landhelgisgæzlan er slitin úr annarri dómgæzlu, með því að menntmrh. er fengin þessi sérstaka grein landhelgisgæzlunnar til meðferðar. Þetta er ekki sagt til þess að áfellast þennan hæstv. menntmrh., við berum sameiginlega ábyrgð á þessari löggjöf. Það er áreiðanlega vanmat á þýðingu þessa málaflokks, landhelgisgæzlunnar, að láta sér koma til hugar að slita hann sérstaklega úr öðrum dómsmálum og dómgæzlu og yfirstjórn þeirra, því að dómgæzla á hafinu er ekki þýðingarminni en dómgæzla í landi.

Þá er einnig ýmislegt annað en beinlínis fiskveiðagæzla, sem kæmi til með að heyra undir þessa sérstöku stjórn landhelginnar, svo sem eftirlit með tollgæzlu og heilbrigðisgæzlu og eftirlit með útbúnaði og athöfnum erlendra skipa.

Þá vil ég sérstaklega víkja að því, að ástæða er til þess að búa svo um hnútana í löggjöfinni, að strangar kröfur séu gerðar um mannaval og menntun þeirra manna, sem starfa að löggæzlunni í landhelgi, og sé vandað til aðstöðu þeirra og aðbúnaðar sem allra bezt. Það er að vísu til eitthvað, sem heitir varðskipapróf, en að áliti almennings er ekki á þann hátt vandað til menntunar þeirra manna, að viðhlítandi sé, og þar við bætist þá einnig, að aðbúnaðurinn hefur verið þannig, að til smánar hefur verið, sérstaklega þegar gerðir hafa verið út sem varðskip við strendur landsins gamlir, fúnir fiskibátar til þess að gæta þessara mikilvægu umráðasvæði Íslendinga. — Það er ánægjulegt til þess að vita, að komið hefur fram nýlega í opinberri tilkynningu frá ríkisstj., að í sambandi við hin nýju varðskip, sem stendur til að byggja, sé gert ráð fyrir að setja þessa menn til náms sérstaklega, til þess að búa þá betur undir störf þeirra við landhelgisgæzluna. Þetta yrði til þess að styrkja aðstöðu okkar við dómgæzlu á hafinu.

Þá er einnig á það bent, sem komið hefur fram, að leitazt verði við í löggjöfinni að samræma landhelgisgæzluna björgunarstarfsemi og bátaeftirliti, hafrannsóknum og sjómælingum, eftir því sem við yrði komið.

Ég efast ekki um, að ef hafizt yrði handa um heildarlöggjöf um landhelgisgæzluna, mundu menn komast að raun um, að fleira þyrfti að laga og vanda en nú er, og ég geri mér vonir um, að það mætti upplýsa margt í þessu máli, áður en frv. á sínum tíma kæmi fyrir þingið.

Síðasti þáttur þessarar þáltill. er um stækkun landhelginnar. Það er skorað á ríkisstj. að fylgja fast fram löggjöf síðasta Alþingis, er heimilar stj. að ákveða verndarsvæði hvar sem er við strendur landsins innan takmarka landgrunnsins og setja reglur um hagnýtingu þeirra. Þessi löggjöf hér að lútandi var sett á síðasta þingi, og mun vera svo, að ríkisstj. sé að vinna að þeim málum nú í sambandi við þær ráðagerðir, sem uppi voru, þegar frv. var samþ. Það er mjög athyglisverð stefna, sem þing og stjórn eru að fara inn á með því að krefjast réttar okkar Íslendinga yfir landgrunninu. Það er ekki hægt að áfellast ríkisstj. og þm., þó að þeir vilji fara með gát í þeim málum. En hins vegar ber þó hverjum að vera vakandi og láta ekkert undir höfuð leggjast, sem mætti styrkja okkur í þessu máli.

Fyrir tilstuðlan utanrrn. hafa þm. átt kost á að kynna sér greinargerð um landhelgismálin. Um þetta mál liggur fyrir greinargerð, tekin saman af sérfræðingi utanrrn. í alþjóðarétti, og geri ég ráð fyrir, að hv. þm. hafi kynnt sér þessa greinargerð og annað, sem fram hefur komið varðandi landhelgismálin og sýnir fram á aukinn rétt okkar frá því, sem verið hefur. Ég vil þó vekja athygli á nokkrum atriðum þessarar greinargerðar í sambandi við óskir okkar um að hagnýta betur, en verið hefur rétt okkar til landgrunnsins. Það er nú svo, að ég býst við, að það sé efst í hugum flestra að krefjast stækkunar á landhelginni úr 3 mílufjórðungum upp í 4 mílufjórðunga, og sú krafa var nýlega samþykkt á þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins, og er þá krafizt þess réttar, sem við áttum áður og var viðurkenndur bæði með orðum og í framkvæmd, því að í fyrstu áttu Íslendingar óskoraðan rétt yfir landi sínu og hafinu í kring, en eftir að við komumst í nánara samneyti við aðrar þjóðir, hefur að okkur þrengt og landhelgin minnkað. Á 19. öld er viðurkenndur í framkvæmd máttur okkar til fjögurra mílufjórðunga landhelgi, og ef farið er enn lengra aftur í tímann, þá var það þannig á 17. öld, að landhelgin var sextán mílufjórðungar og framkvæmdar landhelgisvarnir samkvæmt því. En síðan hefur smám saman þrengt að okkur, allt til þess er samningurinn milli Danmerkur og Stóra-Bretlands um þriggja mílufjórðunga landhelgi var gerður. Menn halda því fast fram rétti okkar til 4 mílufjórðunga landhelgi, en til viðbótar hefur skotið upp þeirri hugsun, að við ættum að tilskilja okkur vaxandi yfirráð yfir landgrunninu, og er það í samræmi við nýja þróun þessara mála hjá öðrum þjóðum, eins og fram kemur í greinargerð þjóðréttarfræðings utanrrn. Það er athyglisvert, að alveg nú síðustu árin hafa ýmsar þjóðir Ameríku lýst yfir rétti sínum til landgrunnsins, en þar er um að ræða nýja stefnu í landhelgismálunum. Bandaríkin riðu á vaðið 1945, þegar forsetinn gaf út tvær yfirlýsingar um þessi mál, hina fyrri þess efnis, að yfirráð Bandaríkjanna næðu til allra auðlinda í landgrunninu, en sú síðari snerti verndun fiskimiða innan landhelginnar. Í kjölfar Bandaríkjanna sigldu svo Suður- og Mið-Ameríkuríkin: Mexico, Argentína, Chile og Peru, að vísu með mismunandi aðgerðum, en öll gerðu þau kröfur langt út fyrir það, sem almennt gerist, sérstaklega með því að krefjast yfirráða yfir landgrunninu. Og getur þetta orðið okkur Íslendingum, sem eigum svo mikið í húfi, þar sem eru fiskimiðin okkar, hinn mesti styrkur, ef aðrar þjóðir fá viðurkenndar kröfur sínar til réttar á yfirráðum landgrunnsins.

Það er vikið að því í þessari þáltill., að ríkisstj. athugi að leita viðurkenningar á rétti okkar til rýmkunar landhelginnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Gert er ráð fyrir, að hjá Sameinuðu þjóðunum starfi þjóðréttarnefnd, sem færi með slík mál, og einnig má sækja málið á öðrum vettvangi. Það er fullkomlega tímabært að athuga, hvort þetta sé ekki hinn rétti vettvangur, því að hjá Sameinuðu þjóðunum eiga hinar smærri þjóðir, a. m. k. í orði, jafnan rétt og hinar stærri. Og ef sú stofnun á eftir að þróast, eins og vonir standa til, og styrkjast til þess að verða sameiginleg yfirstofnun þjóðanna, þá getur það orðið okkur mikils virði að sækja mál okkar þar. Það má vera, að benda megi á atriði, sem mæla gegn því, að málið sé flutt fyrir Sameinuðu þjóðunum, og auðvitað verður að athuga þetta allt rækilega og velja svo þá leið, sem vænlegust þykir til árangurs.

Ég mun svo ekki fylgja þessari till. úr hlaði með fleiri orðum. Ég vil aðeins undirstrika, að ég tel ekki vera við neinn sérstakan aðila að sakast um það, hvað við erum á eftir því, sem vera bæri í þessum málum, en með samþykkt þessarar till. og framkvæmdum samkvæmt henni mætti e. t. v. fá allmiklar úrbætur, og þá er þegar nokkrum árangri náð.