04.02.1949
Sameinað þing: 36. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í D-deild Alþingistíðinda. (4790)

73. mál, Kaldaðarnes í Flóa

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram þáltill. um að skora á ríkisstj. að leita eftir samkomulagi við hr. Jörund Brynjólfsson að skila aftur Kaldaðarnesi, og liggja til þess tvær meginástæður. Önnur sú, að ég tel, að ríkissjóður þurfi nauðsynlega á þessari eign að halda og að honum sé mjög mikið fjárhagslegt tjón að því að láta eignina af hendi fyrir þá upphæð og þau verðmæti, sem fyrir hana hefur verið greitt. Hin, að ég tel ríkisstj. hafa brostið að fullu og öllu heimild til að selja eignina. Alþingi ber því skylda til að gera nú þegar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að úr þessum mistökum verði bætt. — Skal ég þá fyrst færa rök fyrir því, að ríkissjóði sé nauðsyn á því að eiga Kaldaðarnes áfram.

Þótt nokkuð deildar skoðanir hafi verið um það, hvort ríkissjóður ætti að vera eigandi að jörðum í landinu almennt og byggja þær ábúendum með vægum kjörum um lengri eða skemmri tíma, eða hvort einstaklingar ættu að eiga þær, líkt og aðrar fasteignir, og ráða sjálfir að fullu yfir þeim, þá hefur hitt aldrei valdið neinum ágreiningi, að ríkissjóði bæri brýn nauðsyn til þess að eignast og halda í sinni eigu ýmsum ákveðnum jörðum og lendum, svo sem þeim, sem ákveðnar hafa verið sem bústaðir embættismanna eða til annarrar opinberrar notkunar, enda er beinlínis mælt svo fyrir í l. nr. 8 frá 1936, um erfðaábúð og óðalsrétt, að slíkar jarðir megi ekki selja í erfðaábúð. Þessu ákvæði er haldið óbreyttu í sömu lögum, er þau eru endursamin á Alþingi 1943.

Þegar l. nr. 4 frá 1946, um sölu þjóðjarða og kirkjujarða, voru samþykkt, voru þessar jarðir einnig undanskildar þar og mega því ekki seljast samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Það verður því ekki um það deilt, að Alþingi hefur jafnan litið svo á, að ríkissjóði bæri nauðsyn til að eiga jafnan allar jarðir, sem svo stendur á um sem að framan greinir, enda væri það óeðlilegt, að ríkið léti byggja slík mannvirki í löndum annarra. Þá er einnig ljóst, að ýmsar aðrar ástæður geta einnig legið til þess, að ríkissjóði sé nauðsynlegt að eignast lönd og jarðir, svo sem ýmsa mannvirkjagerð í sambandi við atvinnurekstur ríkisins. Enn fremur kann það að vera nauðsynlegt, að ríkissjóður eignist lönd og jarðir til að koma fram verndun gróðurs, eins og átt hefur sér stað um skóglendi, og verndun fornra staða, svo sem hið forna biskupssetur Skálholt, er síðar skal vikið að. Stundum hefur það eitt þótt næg ástæða, að ríkissjóður keypti jarðir, sem um langan aldur hafa verið höfuðból, ef sýnt var, að þær grotnuðu niður, eða eigendur hefðu af einhverjum ástæðum ekki möguleika til að sitja þær sem skyldi. Átti þetta sér stað m. a. um Reykhóla, og eitthvað svipað hefur sjálfsagt vakað fyrir þeim, sem beittu sér fyrir því á Alþingi 1935, að ríkissjóður keypti jörðina Kaldaðarnes, en í fjárlögum þess árs er ríkisstj. heimilað á 22. gr. að kaupa Kaldaðarnestorfuna í Árnessýslu, ef aðgengilegir samningar takist um verð og greiðsluskilmála. Af Alþt. frá því ári sést, að það eru einmitt þáverandi hv. þm. Árn., sem eru flm.till. Og hv. 1. þm. Árn., Jörundur Brynjólfsson, hefur framsögu í málinu sem fyrri flm. Mælir hann þar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef leyft mér að bera hér fram brtt. við 22. gr. fjárl. ásamt hv. samþm. mínum, um að heimila ríkisstj. að kaupa Kaldaðarnestorfuna í Árnessýslu, ef aðgengilegir skilmálar fást um verð og greiðslu. Þetta er eitt af höfuðbólum sýslunnar, liggur vel í héraði, og ríkið á þarna lönd við, sem það hefur tekið á móti upp í áveitukostnaðinn og tilætlunin mun vera að reisa þar nýbýli. Land jarðarinnar er mjög stórt og frjótt og liggur vel, svo að þarna væri hægt að koma fyrir fjölda nýbýla, ef það væri keypt til viðbótar við það land, sem ríkinu hefur þegar verið afhent á þessum slóðum. Tel ég því vel til fallið, að ríkið kaupi þessa jarðeign, ef aðgengilegir skilmálar fást, einmitt með tilliti til býlafjölgunar. Ég skal geta þess hér sem aukaatriðis, þó að það kunni að hafa nokkra þýðingu á sínum tíma, að í landi jarðarinnar er hinn bezti sjálfgerði flugvöllur, sem til er á landinu, og mætti með litlum tilkostnaði gera hann vel úr garði. Þegar frá líður, er ekki gott að segja, hvaða þýðingu það kann að hafa.“

Mér kemur ekki til hugar að halda, að jafnmerkur þm. og hv. 1. þm. Árn. hafi hér verið að flytja mál þetta gegn sannfæringu sinni, heldur hafi hann þá beinlínis verið þeirrar skoðunar, að ríkinu bæri raunverulega nauðsyn til að eignast þessa jörð. Afstaða hans til þessa máls verður því enn óskiljanlegri, er þetta er vitað.

Þessi heimild er ekki notuð árið 1935. En hún er veitt á ný árið 1939 fyrir tilmæli hv. þm. Str., sem þá var fors.- og landbrh., og notuð á næsta ári, eins og kunnugt er. Færir hv. þm. Str. nokkurn veginn sömu rök fyrir máli sínu og hv. 1. þm. Árn. hafði gert, en hann leggur þó aðaláherzlu á kaupin vegna ræktunarframkvæmda ríkissjóðs á nærliggjandi löndum og telur það ómetanlegt gagn fyrir ríkissjóð að eignast jörðina af þeim ástæðum, þótt ekkert annað kæmi til. Það verður því ekki villzt á því, að þessi hv. þm. var þá í engum vafa um það, að nauðsyn bæri til, að ríkissjóður eignaðist Kaldaðarnes.

Skömmu eftir að ríkissjóður eignast Kaldaðarnes, en það gerist í apríl 1940, tekur brezki herinn eignina til afnota, byggir á henni ýmis mannvirki, þ. á m. flugvöll, og heldur henni í hernámi til ófriðarloka. Það voru því engir möguleikar fyrir ríkisstj. að ráðstafa jörðinni á þessu tímabili eða gera nokkrar áætlanir um afnot af henni.

Með lögum nr. 108 30. des. 1943 er ákveðið, að ríkissjóður skuli taka við rekstri hressingarheimilisins í Kumbaravogi, sem rekið hafði verið þar fyrir drykkjumenn undir stjórn Stórstúku Íslands. Skal stofnun þessi nú starfrækt á kostnað ríkissjóðs sem heilsuhæli fyrir ofdrykkjumenn, undir yfirstjórn þess ráðh., sem fer með heilbrigðismál, en hann skipar þriggja manna stjórnarnefnd til að annast allan rekstur, svo og lækni og annað starfsfólk. Ríkisstj. er heimilt að ákveða, að hælið skuli flutt og rekið á þeim stað, er hún telur henta. Samkvæmt þessum lögum er jörðin Kaldaðarnes valin til þessa rekstrar árið 1945, ágreiningslaust af eftirfarandi aðilum: landb.- og fjmrh., Pétri Magnússyni, dóms.- og heilbrmrh., Finni Jónssyni, landlækni, búnaðarmálastjóra og lækni hælisins, Alfreð Gíslasyni, auk Sigfúsar Sigurhjartarsonar, Kristins Stefánssonar stórtemplars og Friðriks Á. Brekkans áfengisvarnaráðunauts, sem allir voru í framkvæmdanefnd. Er þá þegar hafizt handa um að koma þar upp hælinu og varið til þess úr ríkissjóði á því ári um 552 þús. kr. Á næsta ári er þessu verki haldið áfram og varið til bygginga þar á því ári um 316 þús. kr. Er hælið síðan starfrækt þar til fardaga 1948. —Hæstv. landbrh. hafði þau ummæli hér í Sþ. þann 17. nóv. s. l., er hann gaf ýtarlega skýrslu um þetta mál í sambandi við fyrirspurn um framkvæmdir í Skálholti, að „að vísu hafði landbrh. lánað jörðina Kaldaðarnes“ um skeið til tilrauna í að koma upp drykkjumannahæli En þessi ummæli hæstv. ráðh. eru sögð gegn betri vitund. Honum var það vel ljóst þá og er það vel ljóst enn, að jörðin var löglega og formlega afhent til þess og til þess eins að koma þar upp og starfrækja þar hæli fyrir ofdrykkjumenn, ekki til bráðabirgða, heldur til frambúðar, og að þetta var gert í samráði við alla þá aðila, sem ég minntist á hér áðan. Þegar það er vitað, að ríkissjóður kostaði nærri 900 þús. kr. til bygginga í Kaldaðarnesi til þess að koma þar upp drykkjumannahæli og að allir þeir, sem bera áttu siðferðilega ábyrgð á þessu máli, álitu, að hér hefði verið valinn hinn bezti staður, sem fáanlegur var, og hælið svo fullkomið sem þörf var á um langan tíma, og þegar svo hins er jafnframt minnzt, að hæstv. menntmrh. ber nú fram frv. á þskj. 23, sem fyrirskipar, ef að lögum verður, að reisa skuli, ekki eitt, heldur mörg slík hæli, og hv. Nd. hefur fallizt á þetta og samþ. frv., þá er ljóst, að ríkissjóði er nú enn meiri nauðsyn, en áður, að eignast Kaldaðarnes aftur með þeim byggingum, sem þar eru nú, og að það er stórkostlegt fjárhagslegt tjón fyrir ríkissjóð að ráðast í nýja hælisbyggingu í stað þess að nota þær byggingar, sem reistar voru í þessu augnamiði í Kaldaðarnesi, auk þess sem öll önnur aðstaða, sem var til staðar í Kaldaðarnesi, svo sem landrými o. fl., mundi kosta ríkissjóð stórfé, ef kaupa ætti hana í sambandi við nýtt hæli.

Ég skal þá ræða hér nokkuð hið síðara atriðið, — það, að ríkisstj. hafi brostið heimild til þess að selja Kaldaðarnes.

Í fyrrnefndri skýrslu hæstv. landbrh. færir hann fram eftirfarandi rök fyrir heimild sinni til þess, samkvæmt gildandi lögum, að selja þessa eign hv. alþm. Jörundi Brynjólfssyni:

I. Að Jörundur Brynjólfsson hafði, er salan fór fram, fengið erfðaábúð á Kaldaðarnesi frá fardögum 1947 að telja og átti því rétt á því að fá jörðina keypta samkvæmt lögum um sölu þjóðjarða eftir að hafa búið á henni í 3 ár. Taldi ráðherra það orðhengilshátt að halda sér að skýlausum fyrirmælum laganna um þetta atriði, enda hefði hann áður leitað umsagnar landbn. Alþ., áður en salan var ákveðin, og hefðu 6 nm. af 10 litið á málið á sama hátt og hann. Hann hefði einnig spurt Búnaðarfélag Íslands og sérfræðinga þess um það, hvort jörðin væri heppileg til byggðahverfa eða annarra opinberra starfa, en þeir talið, að slíkt kæmi ekki til mála.

Þessi rök fá þó ekki staðizt, með því að vitað er, að þessi sami hæstv. ráðh. byggir Jörundi Kaldaðarnesið í erfðaábúð í október 1947 í algerðri andstöðu við fyrirmæli erfðaábúðarlaganna frá 1943, sem ákveða, að slíkar jarðir megi ekki selja í erfðaábúð, eins og ég hef þegar bent á. Samkv. gerðabók landbn. Nd, var haldinn sameiginlegur fundur í landbn. beggja deilda þann 9. des. 1947. Er hæstv. landbrh. mættur á þeim fundi og ræðir þar við nefndirnar um sölu á Kaldaðarnesi til Jörundar Brynjólfssonar. Upplýsir hann á þeim fundi, að Jörundur hafi fengið byggingu fyrir jörðinni og biður nefndirnar að láta í té skilning sinn á ákvæði gildandi laga um 3 ára búsetu, sem sett er að skilyrði fyrir sölu ríkisjarða. Spurzt var fyrir um það á þessum fundi, með hvaða kostum salan eigi að fara fram, en því er ekki svarað á annan hátt en þann, að matsgerð hafi farið fram, hælið sé lagt niður og óafgert um hreinsun á landinu. Að fengnum þessum upplýsingum er málinu frestað án frekari aðgerða og síðan aldrei tekið fyrir aftur í nefndunum. Á þessum fundi voru 4 nm. fjarstaddir og þar af 3 Ed. menn, eða meiri hluti hennar. Hitt er og vitað, að 2 af nm., sem mættir voru á fundinum, voru andvígir sölunni. Það er því ljóst, að málið fékk enga afgreiðslu í landbn., enda átti það þangað ekkert erindi, með því að ekkert frv. lá fyrir þinginu um sölu jarðarinnar, eins og eðlilegt og sjálfsagt hefði verið, ef ráðh. vildi afla sér heimildar til að selja jörðina. Afstaða Búnaðarfélagsins og sérfræðinga þess er sannarlega torskilin. Þessir aðilar voru allir sammála um það, að ríkinu væri nauðsynlegt að eignast Kaldaðarnes, er heimild var veitt til að kaupa jörðina, en þegar búið er að setja yfir 1 millj. kr. í eignina, þá eru þeir alveg sammála um, að ríkissjóður þurfi nú ekkert lengur á henni að halda og geti ekkert betur gert við hana, en að láta hana af hendi fyrir lítið verð. Mætti segja, að slík framkoma yrði ekki til þess að auka hróður og traust þessarar ágætu stofnunar, sem hvaða ríkisstj. sem er verður að leita til í ýmsum vandamálum.

Rökin, sem hæstv. ráðh. ber fram fyrir því að hafa byggt Jörundi Brynjólfssyni, Kaldaðarnesið, í erfðaábúð, áður en salan fór fram, eru þessi.

1. Losa þurfti Skálholt úr ábúð vegna væntanlegs bændaskóla þar. Og með því að Jörundur Brynjólfsson hafði þar lífstíðarábúð, þurfti að semja við hann um að fara af jörðinni eða taka ábúðarréttinn eignarnámi, þar sem ekki var hægt að stinga þar niður skóflu nema með hans leyfi.

Þessi rök ráðh. fá ekki heldur staðizt. Samkvæmt þáltill., sem samþ. er 2. apríl 1935, er ríkisstj. heimilt að kaupa jörðina Skálholt. Það kemur beinlínis fram í umræðum, að þetta er gert til þess, að ríkið fái óbundnar hendur um viðreisn hins forna biskupsstaðar, „enda sé þetta stórvægilegt menningarmál fyrir þjóðina“, eins og flm. orðar það. Það er því ljóst, að þessi jörð fellur undir þær eignir ríkissjóðs, sem hvorki má byggja til lífstíðarábúðar samkvæmt erfðaábúðarlögunum né selja án sérstakrar heimildar Alþingis. Samningur sá, sem gerður er af Hermanni Jónassyni í maí 1940, en hann er þá landbrh., þar sem Jörundi Brynjólfssyni er leigt Skálholt til lífstíðarábúðar og það látið gilda frá fardögum 1936, er því gerður í algerðu heimildarleysi. Lagalega átti því Jörundur Brynjólfsson ekki lífstíðarábúðarrétt á Skálholti og því síður kauparétt, eins og hæstv. landbrh. hefur haldið fram. Hitt mun svo vera algert einsdæmi, að íslenzkur bóndi hafi á einu og sama ári setið í erfðaábúð á tveimur höfuðbólum, sem ríkið er eigandi að, en eiga þó hvorugan ábúðarréttinn samkvæmt fyrirmælum laga um erfðaábúð.

Ég get búizt við því, að hæstv. landbrh. svari því til, að það komi harla lítið málinu við, hvort Jörundur Brynjólfsson hafi fengið erfðaábúðina á Skálholti með réttu eða röngu. Það sé mál fyrir þáverandi ráðherra, Hermann Jónasson, að svara til um það og bera á því ábyrgð, enda geti ábúandinn ekki borið ábyrgð á slíku. Og ég get enn fremur hugsað mér, að einmitt þannig álykti ráðh., og því telji hann ábúðarréttinn svo öruggan. En þótt þessi rök hefðu fengið staðizt, ef almennur borgari átti í hlut, þá geta þau á engan hátt staðizt hér undir þessum kringumstæðum, því að hér var um að ræða ábúanda, sem sjálfur vissi allt um þessi mál og hafði verið með að samþykkja fyrirmæli á Alþingi um kaup á jörðinni í allt öðrum tilgangi, en að fá hana síðar sjálfur á erfðaleigu. Og þetta voru mikilvæg rök, þegar semja átti við hann um brottflutning af jörðinni. Það er því fjarri því, að hann gæti sett fram neitt af þeim skilyrðum, sem hæstv. ráðh. telur í skýrslu sinni, að sett hafi verið fram af Jörundi Brynjólfssyni, ef hann ætti að standa upp af jörðinni vegna skólabyggingarinnar. Annars var engin ástæða til að flýta svo brottför Jörundar frá Skálholti, að kaupa þyrfti hana svo dýru verði sem hér hefur verið gert. Það var þá og er enn ekkert farið að gera af þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar voru í sambandi við skólann, annað en það að leggja veg að fyrirhuguðu skólastæði, og slíkt gat enginn bannað, enda er sumpart gerð þurrkun á landi jarðarinnar samtímis vegagerðinni og vegurinn þess utan til hagræðis fyrir ábúanda, en ekki hið gagnstæða. Það hlutu því að líða enn nokkur ár, þar til skólinn þurfti á jörðinni að halda. Og ég dreg það ekki í efa, að það hafi verið vel framkvæmanlegt að komast að þeim kjörum við ábúanda, sem báðir hefðu haft hag af og báðir hefðu haft meiri sæmd af en því, sem hér var illu heilli gripið til.

2. Önnur ástæðan, sem ráðh. færir fyrir því, að hann hafi byggt Jörundi Brynjólfssyni Kaldaðarnesið, er sú, að hv. 1. þm. Árn. óskaði þess að geta um aldur og ævi tryggt sér og sínum erfingum þetta höfuðból. Ráðh. bætir því svo við, að hann hafi ekki viljað trúa sínum eigin eyrum, er hann heyrði þessa frómu ósk fram borna af flokksbróður sínum, og að hann hafi gert allt, sem í hans valdi stóð, til þess að fá hann ofan af þessari heimsku, ekki vegna þess, að honum hafi þótt þetta á nokkurn hátt stríða gegn velsæmi fyrir vel þekktan margra ára þingmann og forseta Nd., heldur af hinu, að honum þótti þessi eign, sem hafði kostað ríkissjóðinn eina milljón króna, allt of lítilfjörleg viðurkenning til manns, sem fyrir 30 árum var búinn að fá góða stöðu í Reykjavík og orðinn þar þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn, en kvaddi þetta allt saman og lagði leið sína austur í Árnessýslu, þar sem hann gerðist forvígismaður í stjórnmálum alla tíð síðan, eins og hæstv. ráðh. hefur orðað það í skýrslunni. Ég verð að biðja hæstv. ráðh. afsökunar á því, að ég vissi ekki, að svona verðlagsuppbætur væru heimilaðar á þingfararkaupið. — Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða þessi rök.

3. Þriðja ástæðan, sem hæstv. ráðh. færir fram sér til afsökunar, er sú, að „tilraunin um hæli fyrir ofdrykkjumenn hafi mislukkazt“, eins og hann orðar það, ævintýrið hafi endað með þeim ósköpum, að hundruðum þúsunda hafi verið kastað á glæ í þetta dauðvona fyrirtæki og að allir forvígismenn þessa máls, sem hann hafi talað við, hafi verið á einu máli um það, að hælið yrði að vera annars staðar og öðruvísi rekið. „Og endalokin verða þau,“ segir ráðherra, „að ég fæ samþykki menntmrn. fyrir því, að landbrn. er aftur afhent þessi jörð, og ég ákvað að því loknu að byggja Jörundi Brynjólfssyni jörðina.“ Svo mörg eru þau orð, svo sterk eru þau rök, sem hér eru borin fram til málsbóta fyrir einstæðri ráðstöfun á eignum ríkissjóðs. Af öllu því ljóta, sem gert hefur verið í þessu máli, er þessi þáttur hæstv. menntmrh., Eysteins Jónssonar, ljótastur.

Í tugi ára hefur ríkissjóður haft einkasölu á áfengi. Allan þann tíma var það á valdi sérhverrar ríkjandi stjórnar að takmarka innflutninginn eða hætta honum alveg. Engin ríkisstj. hefur viljað taka á sig þann vanda, beinlínis vegna þess, að ríkissjóður hefur ekki þótt þess megnugur að uppfylla þær óskir og kröfur almennings um bætt lífskjör til lands og sjávar, ef hann átti að missa tekjurnar af áfengissölunni. Jafnvel menntamál þjóðarinnar eiga líf sitt undir þessum tekjustofni, sbr. frv. hæstv. menntmrh. á þskj. 3, um menntamálaráð. Svo örlagaríkt er það fyrir ríkissjóð og þjóðina, að víndrykkja minnki ekki í landinu og lögbrotum, sem standa í sambandi við vínnautn, fækki ekki. Almenningi er vel ljóst það böl, sem þessi tekjuöflun ríkissjóðs leiðir yfir marga einstaklinga, unga og gamla, og fjöldi hv. þm. viðurkennir hina knýjandi þörf, sem er á því að bæta úr þessu böli. Fjvn. átti einu sinni þess kost að kynna sér þær vistarverur, sem þeim vesalingum eru valdar hér í höfuðborginni, sem eru of veikgeðja til þess að neita að greiða þennan skatt til ríkissjóðs, sem honum er þó annars svo dýrmætur. Ég hygg, að sú heimsókn gleymist þeim seint. Af upplýsingum frá lögreglustjóra mátti ætla, að hér væru að jafnaði 30 fastagestir. Það var fyrst og fremst fyrir þessa vesalinga og aðra, sem líkt var ástatt með, að fórnfúsir menn tóku að berjast fyrir því, að þeim yrði búin betri vist. Það var fyrir áhrif þessara fórnfúsu manna, að byrjað var á hælinu í Kumbaravogi, það er fyrir skilning annarra, en núverandi hæstv. menntmrh., að búið var að koma upp ágætu hæli í Kaldaðarnesi fyrir ofdrykkjumenn, þar sem allar vonir stóðu til þess að ná ágætum árangri. Það var öllum ljóst, að það hlutu að verða fjölmargir erfiðleikar á þessum málum, að það hlaut að verða hörð og löng barátta, engu síður en baráttan gegn hvíta dauða eða öðrum banvænum sýklum. En þessi leikur mátti ekki tapast og þurfti sannarlega ekki heldur að tapast, svo vel sem hér var búið í haginn. Þessa smælingja þjóðarinnar, sem voru öllum öðrum smælingjum aumkunarverðari, sveik hæstv. menntmrh., er hann gaf sitt leyfi til þess, að jörðin yrði seld flokksbróður sínum fyrir lítinn pening, og lagði jafnframt vistheimilið niður, sem svo margvíslegar vonir voru bundnar við. Og allt er þetta gert gegn vilja og mótmælum þeirra aðila, sem mestan þátt áttu í því að koma hælinu upp og mestu höfðu fórnað til þess að sjá þær hugsjónir sínar rætast, að draga mætti allverulega úr þessu böli, sem þessi einstæði tekjustofn ríkisins leiddi yfir einstaklingana. Það er gersamlega þýðingarlaust að bera það fram sér til afsökunar, að vistmennirnar hafi verið flúnir, svo að hælið hafi staðið autt, eins og hæstv. landbrh. skýrir frá í skýrslu sinni. Öll hæli veraldarinnar stæðu á sama hátt auð um lengri eða skemmri afma, ef sjúklingarnir væru sjálfir látnir ráða því, hvort þeir dveldu þar eða ekki, hversu sem dómgreind þeirra væri farið og hvort sem slíkt ástand stafaði af hitaflogum, heilasjúkdómum eða ofdrykkju. Og engum öðrum ábyrgum menntamálaráðherra kæmi til hugar að fara að gefa hæli, þótt svo kynni að vilja til, að það stæði autt um stundarsakir, hver svo sem ástæðan væri.

Því skal ekki neitað, að ástandið í hælinu í Kaldaðarnesi hafi verið svo sem hæstv. ráðh. hefur lýst því í skýrslu sinni, er hann árið 1947 ákvað að byggja jörðina Jörundi Brynjólfssyni. En hitt skal fullyrt, að sjúklingarnir, hvorki þeir, sem á hælinu voru, höfðu verið eða kynnu að verða vistaðir þangað síðar, áttu á því nokkra sök. Sök, ef um sök er að ræða, liggur þá fyrst og fremst hjá þeim, sem stjórnuðu hælinu. Ráðh. bar því fyrst og fremst skylda til að tryggja hælinu örugga stjórn. Mest aðkallandi nauðsynin var að sjálfsögðu sú að skipa þangað lækni, eins og til er ætlazt í lögunum, ekki mann, sem hefði þetta að aukastarfi, eins og gert var, heldur fastan lækni, sem gerði það að lífsstarfi sínu að bjarga þessum sjúklingum og hefði á því fullan áhuga, mann, sem gat fengið þá til þess aftur að trúa á sjálfa sig og lífið. Við höfum séð þau kraftaverk, sem hafa verið unnin af sárþjáðum og þróttlitlum sjúklingum að Reykjalundi, fólki, sem ekki á því láni að fagna, að allar dyr standi því opnar, vegna hræðslu við smitun. Þetta fólk hefur undir leiðsögu ágæts læknis og foringja, sem helgar því alla sína krafta, skapað sér nýtt líf, ný verkefni, nýjan sérstæðan heim, sem menn utan lands og innan dást að og virða. Þótt um ólíka sjúklinga hafi verið að ræða í Kaldaðarnesi og sjúkdómar þeirra allt annars eðlis, þá er hitt þó víst, að hér hefði verið gefið svo fagurt og stórmannlegt fordæmi, að sjálfsagt var að gera tilraunina í Kaldaðarnesi á líkan hátt. Og ég fullyrði, að enginn annar staður á landinu var eins vel til þess falllnn og einmitt Kaldaðarnes. Það er engin bót fyrir þetta frámunalega brot hæstv. menntmrh., þótt hann nú beri fram frv. hér á Alþingi um byggingu margra hæla fyrir drykkjumenn. Slíkt er aðeins gert til þess að draga athygli frá þessu máli, en er þó jafnframt fyllsta sönnun fyrir því, að Kaldaðarnes átti aldrei og mátti aldrei selja.

Áður en ég skil að fullu við þennan þátt málsins, vildi ég spyrja hæstv. landbrh.: Hvaða forgöngumenn þessa máls voru það, sem hann talaði við og voru einróma sammála um, að hælið yrði að vera annars staðar? Hin stjórnskipaða framkvæmdanefnd var því mótfallin. Stórstúka Íslands var því mótfallin. Hvaða aðilar voru það þá, sem hæstv. ráðh. leitaði til og meira máttu sín, en þessir menn? Væri mjög fróðlegt að fá það upplýst.

II. Hæstv. landbrh. lagði á það megináherzlu í skýrslu sinni 17. nóv., að 3 ára búsetuskilyrði laganna hefðu verið uppfyllt, með því þó að skýra anda laganna á þveröfugan veg við orðin. Ég hef þegar skýrt nægilega þetta atriði og skal ekki ræða það frekar. Hinu kom hæstv. ráðh. aldrei nálægt, að skýra hv. þm. frá því, á hvern hátt hann ætlaði sér að verja það að selja opinbera stofnun riklsins sem venjulega bújörð. Honum er það þó vel ljóst, að þótt annað rn. óski af einhverjum ástæðum að leggja rekstur stofnunarinnar niður um stund, þá hættir stofnunin sem slík ekki að vera til. Byggingarnar, sem gerðar voru í þessu sérstaka augnamiði, voru enn á jörðinni, og hælið var enn starfrækt, enda gerir hæstv. ráðh. það að skilyrði í afsalinu, að rekstri þess megi halda áfram án sérstaks gjalds til kaupanda til fardaga 1948. Hvað sem líður skilningi hæstv. ráðh. á búsetuákvæði laganna, þá er þetta ákvæði svo skýlaust, að um það verður ekki villzt, að engin heimild er til að selja jörðina, nema sérstök lög væru samþ. um það á Alþingi. Og hæstv. ráðh. var þetta fullkunnugt. Hann hefur sjálfur viðurkennt að vera aðalhöfundur þessara laga og ætti því að þekkja bæði orð þeirra og anda. Eða var það kannske ekki hugsun hans, að lögin skyldu túlkuð þannig, að þetta ákvæði skyldi þó aldrei ná til framsóknarmanna, sem kynnu að girnast eignir ríkissjóðs? Þá er og það upplýst, að hv. þm. Dal. benti hæstv. ráðh. á það, áður en salan fór fram, að lögum samkvæmt yrði hann að afla sér heimildar þingsins til þess að selja þessa eign. Efar víst enginn, sem þekkir þann hv. þm., að hann hafi ekki mælt þetta út í bláinn. Er sök hæstv. ráðh. því enn meiri að hafa að engu slíkar ráðleggingar hins heiðvirðasta manns.

Þá þykir mér rétt að skýra hér nokkuð frá mati eignanna á hvorri jörðinni fyrir sig og þelm makaskiptum, sem hér hafa átt sér stað, ekki sízt vegna þess, að hæstv. landbrh. fannst ekkert athugavert við þá hlið málsins og varaði menn beinlínis við að vera með nokkrar getsakir í garð manna í sambandi við þessi táhreinu viðskipti.

Eins og skýrt var frá í grg. fyrir þáltill. á þskj. 119, biður landbrh. sýslumanninn í Árnessýslu með bréfi, dags. 18. sept. 1947, að útnefna 3 menn til þess að meta allar fasteignir, sem þáverandi ábúandi, Jörundur Brynjólfsson, eigi í Skálholti, og enn fremur allar eignir ríkisins í Kaldaðarnesi. Er tekið fram í þessu bréfi, að eignirnar í Skálholti skuli metnar í því ástandi, sem þær þá eru í. Hins vegar skuli lönd og hús, sem voru í Kaldaðarnesi í apríl 1940, er ríkissjóður eignaðist jörðina, og enn eru þar, metin í því ástandi, sem þessar eignir voru í þá, þ. e. í april 1940, en einnig skuli auk þess meta þessi sömu hús í því ástandi, sem þau nú eru í. Ekki er beðið um að meta sérstaklega hin nýju hús, er ríkissjóður hafði látið byggja þar. Ráðh. tilnefnir sjálfur einn af matsmönnunum. Í fyrrnefndri skýrslu sinni upplýsir hæstv. ráðh., að hann hafi að vísu sniðgengið fyrirmæli laga um úttekt og mat á jörðinni, en þetta hafi verið nauðsynlegt til þess að ná fullu samræmi í mati eignanna.

Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. hafi ekki gert sér það fyllilega ljóst, hve óviðeigandi það var, að einmitt hann hefði bein afskipti af útnefningu þess mannsins, sem matið að langmestu leyti hvíldi á, sakir þekkingar á málunum, eftir því sem hann sjálfur skýrir frá, og hversu miklu hallari hann stóð gegn fram kominni gagnrýni heldur en verið hefði, ef hann hefði látið þetta afskiptalaust, eins og embættisskylda hans bauð. Auk þess sem þeirri hugsun verður ekki varizt, að hér kemur fram þó nokkurt vantraust á yfirvaldi Árnesinga um val hæfustu matsmanna án aðstoðar ráðh. En hér hefur sjálfsagt verið um að ræða alveg hrekklausa yfirsjón og að meira hafi mátt sin góður vilji til þess að gera það, sem honum fannst rétt, en hið stranga form. Hins vegar verða hin önnur fyrirmæli í sambandi við matið ekki skýrð á þennan hátt. Ef ná skyldi sem fyllstu samræmi á matinu í heild, — og til þess var ætlazt með því að láta sömu menn meta allar eignirnar, — þá var ekki hægt að fyrirskipa að meta eignirnar í Skálholti í því ástandi, sem þær voru í nú, en eignir í Kaldaðarnesi í því ástandi, sem þær voru í 1940, eða fyrir 7 árum. Með þessu er beinlínis verið að stefna að fyrir fram ákveðnu takmarki, sem svo berlega sést á allri meðferð málsins. Það dettur sjálfsagt engum manni í hug að ætla, að rúmlega 173 þús. kr. mat á eignum í Skálholti hafi verið ákveðið með tilliti til þess, að þær voru þess virði fyrir hinn fyrirhugaða skóla eða þann búrekstur, sem ætlazt væri til, að komið yrði þar upp, eftir að skólinn væri tekinn til starfa, né heldur að kofarnir þar væru þess virði sem liður í hinum listrænu byggingum í sambandi við endurreisn hins forna biskupsstóls, sem margir vona, að verði einhvern tíma að veruleik, heldur hefur það sennilega verið ákveðið með tilliti til þess, hvers virði slíkar eignir gætu talizt nú í sambandi við sams konar búrekstur og rekinn var á jörðinni. Á engan annan hátt verður upphæðin réttlætt, enda var þetta sjónarmið kannske ekkert óeðlilegt, en þá átti einnig sama sjónarmið að gilda um eignirnar í Kaldaðarnesi og þær eignir að metast í því ástandi, sem þær voru í, þegar matið er framkvæmt, alveg án tillits til þess, hvað kaupandi hugsaði sér að gera við þær síðar, nema fylgt hefði verið fyrirmælum laga um sölu þjóðjarða, en þá bar ríkissjóði að afhenda eignina með fasteignamati. Svo langt hefur þó hæstv. ráðh. ekki treyst sér til að ganga, því að þá hefði ríkissjóður líklegast orðið að gefa þó nokkra fúlgu á milli til Jörundar Brynjólfssonar. Ég hygg, að það verði fleirum en mér torskilið, hvernig hægt er að meta 2 hús í Kaldaðarnesi á 257 þús. kr., sem nýlega er búið að byggja og endurbæta fyrir um 900 þús., og öllum aðilum var kunnugt um þetta, eða þá hitt, hvernig unnt er að meta land jarðarinnar á kr. 127.300,00, draga síðan frá þeirri upphæð kr. 74.180,00 vegna skemmda á landinu, svo að raunverulegt mat landsins er þá aðeins kr. 53.120,00, en gefa síðan kaupanda kr. 225.000,00, til þess að landið geti talizt kr. 53.120,00 virði, miðað við það ástand, sem það þá yrði komið í. Á venjulegu viðskiptamáli mundi það heita, að kaupandi hefði fengið allt land jarðarinnar í því ástandi, sem það var í, fyrir ekki neitt og 225 þús. kr. í ofanálag, svona rétt fyrir það að vilja þiggja landið í því ástandi, sem það þá var, fyrir minna en ¼ af kostnaðarverði. Virðist eftir þessu, að kaupandi hafi hagnazt um svona eina milljón króna, þegar öll kurl koma til grafar. Hitt er svo enn torskildara, að hæstv. ráðh. skuli ekki treysta sér til þess að gera neitt annað en lúta þessu mati, eins og hann tekur fram í fyrrnefndri skýrslu sinni til Alþingis. Var honum þá alveg ókunnugt um, að það var eitthvað til, sem hét yfirmat og að hver aðili fyrir sig hafði rétt til þess að krefjast þess, ef hann vildi ekki una undirmatinu? Og slíku undirmati átti ekki og mátti ekki una, svo fráleitt sem það var allri sanngirni. Það er alveg rangt hjá hæstv. ráðh., að hér sé verið að drótta nokkru óheiðarlegu að sjálfum matsmönnunum. Hér virðist svo sem ráðh. hafi sjálfur markað hinar krókóttu leiðir til þess á þann hátt að komast að fyrir fram hugsuðu takmarki, og ef svo er, er skiljanlegt, að málinu er ekki áfrýjað, en þá verður líka ábyrgð ráðh. enn þyngri, einkum þegar það er vitað, að umboðsmaður sá, sem hann skipaði sjálfur til þess að gæta hagsmuna menntmrn., gerir þá kröfu, að því rn. verði greitt fullt kostnaðarverð fyrir eignirnar, að viðbættri þeirri verðhækkun, sem kynni að verða á byggingarkostnaði, þar til engu lakara hæli hefði verið komið upp. En við þessari kröfu er skellt skolleyrum, eins og hæstv. ráðh. er kunnugt um.

Í stjórnmálablaði Framsfl., Tímanum, er þann 28. des. s. l. rætt í leiðaranum um þetta mál á þann veg einan að mótmæla því, að það sé nokkurt sérmál Framsfl., og jafnframt fullyrt, að ef hér sé um nokkra sök að ræða, þá beri Framsfl. ekki einn ábyrgð á henni, heldur öll ríkisstj. og þess utan ýmsir þm. Sjálfstfl., sem allir hafi samþ. þessar aðgerðir hæstv. ráðh. í málinu. Út af þessu þykir mér rétt að taka fram, að mér er alveg aukaatriði, hvaða flokkur það er og hvaða hv. þm. það eru, sem standa að þessu máli og bera á því ábyrgð. Hitt er mér aðalatriði, að sá réttur, sem þm. er falið að vernda, sé ekki fótum troðinn, eins og hér hefur átt sér stað. Þetta þing hefur samþ. þyngri skatta á þegnana en nokkurt annað þing. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur snúið sér þess utan til almennings og óskað eftir því, að hann tryði henni fyrir að minnsta kosti 30 millj. kr. og kæmi til hennar með þetta fé af fúsum vilja. Getur hæstv. ríkisstj. búizt við því, að almenningur sýni henni þetta traust, að trúa henni af frjálsum vilja fyrir milljónum, nema á móti komi full vissa fyrir því, að vel og heiðarlega sé farið með eignir ríkissjóðs, hvort sem þær eru í lausum aurum eða fasteignum? Getur nokkur maður búizt við því, að tekið sé á móti nýjum þungum álögum möglunarlaust, nema full trygging sé fyrir því, að fénu sé varið vel og heiðarlega í þágu þjóðarinnar, en ekki á þann hátt, sem hér hefur verið gert? Hv. alþm., er vel kunnugt um það litla álit, sem allt of margir menn hafa á þessari merkustu stofnun þjóðarinnar, Alþingi, og þann orðróm, sem gengur um alls konar hrossakaup, sem hér eigi að eiga sér stað milli manna og fiokka, orðróm, sem er margýktur, á sér oft enga stoð í raunveruleikanum og öllum hv. þm. ber að afsanna með störfum sínum og athöfnum. Er líklegt, að örugga leiðin til þess sé að leggja blessun sína yfir þessar gerðir? Það er alveg víst, að verði það gert, þá eru hv. þm. að hjálpa til þess að viðhalda slíkum orðrómi og því áliti sem hann skapar á þessari stofnun. Þetta er meginkjarni þessa máls, en ekki hitt, hverjir eru við það riðnir eða hvers flokks málið er sérstaklega. Hitt er svo staðreynd, að gangur þessa máls hefur verið sem hér segir:

1. Fyrrverandi formaður Framsfl. fær samþ. á Alþingi heimild til, að ríkissjóður kaupi höfuðbólið Skálholt til þess að reisa þar við á ný hið forna biskupssetur, svo að það sé ekki lengur smán að sýna það erlendum og innlendum gestum.

2. Núverandi formaður Framsfl. byggir þetta höfuðból nokkru síðar í lífstiðarábúð til flokksbróður síns, Jörundar Brynjólfssonar.

3. Þingmaður Framsfl. ber fram till. um það á Alþingi, að ríkissjóði sé heimilað að kaupa höfuðbólið Kaldaðarnes, vegna þess m. a., hversu landið sé vel fallið til nýbýlastofnunar og byggðahverfis, og búnaðarmálastjóri, sem einnig er þm. Framsfl., er þessu þá alveg sammála.

4. Sami þm. Framsfl. sækir síðar mjög fast að fá jörðina keypta, þótt þá sé búið að koma þar upp hæli, sem kostaði ríkissjóð um eina milljón króna. Og nú er sami búnaðarmálastjóri alveg sannfærður um, að ríkissjóður hafi ekkert með eignina að gera og að bezta ráðið sé að láta hana af hendi til einstaklings fyrir litinn pening.

5. Landbrh. Framsfl. byggir þessum flokksbróður sínum höfuðbólið Kaldaðarnes í erfðaábúð, að fengnum þessum einstæðu upplýsingum frá framsóknarmanni, sem sat í ábyrgðarstöðu.

6. Sami ráðh. selur þessa eign nærri samstundis til þessa sama flokksbróður síns og tilnefnir sjálfur fallinn frambjóðanda flokksins til þess að hafa forustu um mat eignanna, en niðurstöður verða þær, að ríkissjóður fær sáralítil verðmæti fyrir eign, sem kostar hann á aðra milljón króna.

7. Menntmrh., sem einnig er formaður þingflokks Framsfl., fyrirskipar að leggja niður hælið á jörðinni, svo að unnt sé að koma fram þessum aðgerðum, þrátt fyrir mótmæli þeirra, sem mest höfðu barizt fyrir því, að hælinu yrði komið upp, auk margra annarra manna.

8. Hópur framsóknarþingmanna ver þessar aðgerðir utan þings og innan og blað flokksins hneykslist mjög yfir því, að nokkur maður skuli láta sér detta í hug að hafa nokkuð við það að athuga. Og sjálfsagt verða alllr hv. þm. Framsfl. hér á Alþingi til þess að greiða því atkvæði, að málið verði ekki leiðrétt. Ég þarf ekkert að kveða hér upp neinn dóm um það, hvaða flokkur hefur merkt sér þetta mál. Ég læt mér nægja að draga hér fram óhrekjandi staðreyndir. Hvernig svo sem dómur hv. alþm. kann að falla í máli þessu, þá er það víst, að þjóðin mun taka þann dóm til athugunar og fella sinn dóm um alla meðferð þess.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn.