25.04.1949
Sameinað þing: 68. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í D-deild Alþingistíðinda. (4869)

121. mál, ríkishlutun um atvinnurekstur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta er mál, sem í raun og veru gæfi tilefni til mjög ýtarlegra umr., ef ætti að taka þetta nákvæmlega fyrir. Mér virðist nú, að það sé a. m. k. rétt að byrja með því, ef menn vilja athuga þetta mál vel, að gera sér nokkra grein fyrir, hvaða þættir það eru í hinu opinbera lífi og ríkisafskiptum, sem sérstaklega er lagt til í þessari þáltill. að nema burt. Hér hafa hv. 1. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykv..rætt hvor frá sínu sjónarmiðinu um það, hvernig þessi þátttaka í ríkisrekstri sé til komin og hvort opinberu afskiptin eða einstaklingsreksturinn hafa sýnt sig sem betra fyrirkomulag hér á landi. Ég held, að nauðsynlegt sé að bæta nokkru við þær hugleiðingar um það, til hvers hin opinberu afskipti hafa verið stofnuð, í hverra þágu þeim hafi verið komið á, og alveg sérstaklega þá opinberu afskiptin af verzluninni og að nokkru leyti af samvinnurekstrinum. Þegar menn athuga það, þá fara menn e. t. v. að skilja dálítið betur, hvernig á því standi, að það eru aðeins vissar tegundir af ríkisíhlutun og ríkiseftirliti, sem hv. 1. þm. Reykv. leggur til, að burt verði numdar, en aðrir þættir ríkiseftirlits og ríkisrekstrar eru í þáltill. hans látnir standa óhreyfðir.

Þegar ríkið byrjaði hér á landi afskipti af rekstri einstaklinga, og sérstaklega af verzluninni, þá er nokkurn veginn ljóst, hvers vegna ríkið gerir það. Það hefur verið rakið hér áður af hv. 4. þm. Reykv. viðkomandi genginu og síðan viðkomandi gjaldeyrinum og þar með, hvernig gefið hefur verið tilefni til þessa heildareftirlits, sem nú á sér stað viðvíkjandi viðskiptum, innflutningi og útflutningi. — En í hverra þágu hafa þessi afskipti orðið? Ég held, að við þurfum að athuga það fyrst, hvernig hefði verið haldið áfram, ef þessi afskipti hefðu ekki orðið, hvernig sú kapítalistíska þróun hefði haldið áfram og gengið fyrir sig hér, að sá sterkasti í viðskiptalífinu hefði sigrað. Það er sú eðlilega þróun í kapítalistísku þjóðfélagi. Allstórir hringar hefðu risið upp um innflutninginn og útflutninginn. Samvinnufélög landsmanna hefðu fengið að njóta þess styrkleika, sem þau höfðu. En það sem gerzt hefur, er, að þjóðin hefur verið stöðvuð, og í stað þessarar þróunar hefur verið haldið nokkuð aftur á bak hvað snertir tækniþróun. Það hefur verið komið upp svo og svo mörgum fyrirtækjum, sem leyft hefur verið að halda áfram vegna þess, að valdhafarnir hafa viljað leyfa það, en ekki af því, að það hafi sýnt sig, að þau hafi getað staðizt í baráttunni. Þannig hefur ríkið verið notað meira og minna til spillandi afskipta og til þess að skapa ýmsum fyrirtækjum sérstöðu í viðskiptalífinu. Og í heildsalastéttinni hefur fjölgað stórkostlega á Íslandi á þessum tíma. Verzlunarstéttin, kaupmanna- og heildsalastéttin, er miklu fjölmennari en hún var og tekur til sín miklu meira starfslið í þjóðfélaginu, en þegar þetta kerfi var sett upp. En á hvern hátt hefur þessu verið haldið við? Það hefur verið fjölgað í verzlunarstéttinni þannig, að gefin hafa verið út innflutningsleyfi til þess að halda einstaklingum og fyrirtækjum uppi, og þessi leyfi fyrir innflutningi hafa þýtt alveg ákveðinn gróða til handa þessum fyrirtækjum. Mér hefur oft dottið í hug í sambandi við þessa þróun það, sem átti sér stað í aðalsstéttarfyrirkomulaginu í gamla daga. Það var þannig á fyrri hluta aðalstímabilsins, að þessir höfðingjar börðust sín á milli um réttinn yfir bændunum til þess að arðræna þá. Og konungsvaldið og ríkisvaldið létu það afskiptalaust. Og þessi hlunnindi lágu að miklu leyti í höndum þeirra höfðingja, sem sterkastir voru. Hins vegar, eftir að konungsvaldið fór að styrkjast, tók það upp þá aðferð að gera þessa höfðingja að lénsmönnum. Það voru mynduð lén, þar sem höfðingjarnir fengu vissa landshluta til þess að drottna yfir og arðræna bændur á því svæði og til þess að nota jarðirnar á því svæði til þess að safna auði. Það hefur raunverulega gerzt hið sama hér á verzlunarsviðinu. Þeirri baráttu, sem átti sér stað milli heildsalanna og stórkaupmannanna áður, sem knúði þá til þess að sýna þann dugnað, sem í þeim bjó, — og sú keppni gat orðið þjóðfélaginu til framfara á vissu sviði — þessari samkeppni var hætt. En í staðinn var skapaður eins konar lénsaðall, stórkaupmannastétt, sem fær aftur af hálfu ríkisvaldsins ávísun á að græða svo og svo mikið á viðskiptum við landsmenn. Þau innflutningsleyfi og gjaldeyrisleyfi, sem þessum mönnum eru veitt, eru beinar ávísanir eins og afhentir peningar, ávísanir á gróða, sem hefst fyrir þessar ávísanir, enda ganga þau oft kaupum og sölum. Það er búið með afskiptum ríkisvaldsins á viðskiptasviðinu að skapa þá þróun, að kaupmannastéttin, sem einu sinni barðist í frjálsri samkeppni — eins og höfðingjarnir á aðalsmannatímabilinu —, er orðin að eins konar lénsmannastétt, sem fær af hálfu ríkisvaldsins úthlutað svo og svo miklu af leyfum til þess að græða á fólkinu. Þetta fyrirkomulag hefur alla ókosti einokunar í verzlunarmálum, en enga af hennar kostum. Þá ókosti, að það eru stundum kannske yfir 200 fyrirtæki, sem fengin eru þessi einokunarleyfi í hendur, án þess að hafa þann kost, sem leiðir af því, að einn eða fáir hafa innflutninginn á hendi, eða það er ríkið, sem tekur þetta í sínar hendur, því að í síðara tilfellinn sparar þetta fyrirkomulag í öllum rekstrinum. Og það fyrirkomulag, sem er, verður til þess, að það er haldið niðri þeim möguleika, sem fólkið annars hefði til þess að gera verzlunarsamtök sín sterk og voldug. Og það er eftirtektarvert í þeim till., sem hv. 1. þm. Reykv. er með hér, að það er ekki lagt þar til, að breytt verði þessum afskiptum ríkisins.

Ríkið einokar líka undir sig allan útflutninginn og leyfir ekki einstaklingum eða þeirra frjálsu samtökum að reyna, hver duglegastur er að selja vörur erlendis. En ríkið gefur aftur á móti þetta vald í hendur einstökum mönnum eftir á. Það er því haldið niðri öllum þeim kostum, sem einstaklingsframtakið í verzlunarmálum kynni að hafa, en ekki notaðir neinir af þeim kostum til þess að halda verzlunarmálunum í góðu horfi í höndum ríkisins. Hér í till. er ekki snert við því að afnema þetta ríkiseftirlit, sem ég hef hér gert að umtalsefni, né heldur eftirlit ríkisins með útflutningi á íslenzkum afurðum og með innflutningnum. Þetta einokunarvald á að halda áfram, og landsmönnum á almennt að vera það bannað að skapa sér frjáls samtök á þessum sviðum og beita þeim samtökum til þess að selja sínar vörur sem bezt erlendis og til þess að kaupa sínar vörur við sem hagfelldustum kjörum frá útlöndum. En þetta verzlunarófrelsi, sem þarna á sér stað, er undirstaða undir þeim dýrleika varanna, sem verzlunarfyrirkomulagið á Íslandi skapar. En aftur á móti, samtímis því sem ríkið á að viðhalda því valdi, sem þessi nýi lénsaðall hefur, þá á — eftir till. hv. 1. þm. Reykv. — að fara að draga úr ríkisrekstri og ríkiseftirliti á öðrum sviðum. Og á hvaða sviðum? — Nú skulum við athuga, hvernig ríkisrekstur er til kominn hér á Íslandi, eins og sá, sem á sér stað, þar sem eru síldarverksmiðjur ríkisins og þess háttar.

Er stofnun síldarverksmiðja ríkisins sósíalistískt fyrirbrigði og fyrirbrigði, sem stafar af því, að sósíalisminn sé svo sterkur á Íslandi, að hann hafi knúið fram ríkisrekstur á þessu sviði? Það var í raun og veru ekki horfið að því að stofna þetta fyrirtæki af því, að sósíalismahreyfingin hafi átt sinn þátt í því. Það er annar hlutur, sem hér kemur til. Ef okkar þjóð ætlar að lifa við sambærileg lífskjör og aðrar þjóðir, verður hún að nota tækni nútímans á þann skynsamlegasta hátt sem unnt er. Og skynsamlegasti hátturinn á þessu sviði, sem ég nefndi nú síðast, er stórrekstur með sem allra fullkomnustum vélum, sem gefur, miðað við mannaflið, sem allra mest afköst. Og svo er á mörgum sviðum fleirum en þessu. Slíkur stórrekstur í okkar þjóðfélagi getur oft ekki átt sér stað nema með því móti, að það sé ein einasta verksmiðja, sem hefur með reksturinn að gera, eða ef um fleiri verksmiðjur er að ræða, þá sé það einn einasti aðili, sem slíkt rekur. Það er smæð okkar þjóðfélags, sem knúð hefur fram ríkisrekstur á ýmsum sviðum, þar sem aðrar þjóðir, þar sem öðruvísi stendur á, þurfa þess ekki. Það eru því þjóðfélagslegar ástæður, sem gert hafa það að verkum, að ríkisrekstur á ýmsum sviðum hefur verið óhjákvæmilegur hjá okkur, hvernig sem menn líta á ríkisrekstur almennt. En deilan í þessum efnum hlýtur að verða um það, í hverra þágu hann er hagýttur. Það að ríkisrekstur sé tekinn upp, án þess að verkalýðurinn hafi völd í þjóðfélaginu, skapar þann möguleika, að slíkur ríkisrekstur geti orðið verkfæri í hendi auðmannastéttarinnar í viðkomandi landi, enda tek ég eftir því í þeim till., sem hér liggja fyrir í þáltill., að það gengur eins og rauður þráður þar í gegnum till., að þar, sem fyrst og fremst er lagt til, að athugaðir verði möguleikar á að leggja niður ríkisrekstur, þá eru það þau fyrirtæki, þar sem einstaklingsreksturinn getur sópað rekstrinum til sfn í stað þess, að þjóðfélagið haldi honum áfram. Nú skal ég ekki neita því, að oft sé mjög mikið til í þeirri gagnrýni á þeim ríkisrekstri, sem á sér stað hjá okkur. Það er á vissan hátt eðlilegt. Það sést strax, að það er eðlilegt, þegar við athugum, hvernig þessi ríkisrekstur er til kominn. Við lifum í þjóðfélagi, þar sem gengið er út frá því, að aðalaflið, sem knýr menn til að vinna, séu eiginhagsmunir. Það er möguleiki eigendanna til þess að græða fé, sem er hreyfiaflið í kapítalistísku atvinnulífi. Aftur á móti í þjóðfélagi, þar sem umhyggja fyrir velferð fjöldans er hreyfiaflið í atvinnulífinu, þar verða þær vinnandi stéttir það fjölmennar í þjóðfélaginu, að þær geta haft slíkt eftirlit með slíkum rekstri, að þeim, sem hafa stjórn á þessum rekstri, haldist ekki uppi annað, en að miða hann við hag fjöldans. Nú hefur ákaflega mikið af þessum rekstri hjá okkur lent í skriffinnskustjórn. Það er embættismannastjórn á þessum rekstri hjá okkur, þar sem hlutirnir eru látnir ganga ár eftir ár þannig, að reynt er að koma þessari pólitísku samábyrgð á milli flokkanna, til þess að þeir standi alltaf hver með öðrum, þegar um stjórnmálafl er að ræða, til þess að hindra gagnrýni á slíkum rekstri, þegar um hana væri að ræða. Og slíkur ríkisrekstur er því ákaflega erfiður vegna þeirrar skriffinnsku, sem þar er um að ræða, og vegna vöntunar á gagnrýni. En ríkisrekstur þarf að vera háður gagnrýni, til þess að hægt sé að reka hann í þágu fólksins eins og mögulegt er.

Svo er annar ríkisrekstur, sem er voldugastur í okkar þjóðfélagi, en er ekki komið inn á í þessum till., sem hér er um að ræða, sem þó mætti gagnrýna. Og það er rekstur seðlabankanna í landinu, ríkisrekstur þeirra þjóðnýttu banka — öll bankastarfsemin, sem er ríkisrekstur og er helzta og sterkasta valdið í öllu fjármálalífi þjóðarinnar, vald, sem beinlínis er beitt og rekið fyrir auðmannastéttina í landinu, fyrir þá, sem eiga peninga í landinu sem heild, en samt með þeim skriffinnskuaðferðum, að hvað eftir annað verður til skaða fyrir þjóðfélagið. Það er ekki minnzt á þennan ríkisrekstur í till., sem hér liggur fyrir. Hvers vegna? E. t. v. vegna þess, að menn viðurkenna, að það sé ekki haganlegt að láta það vald, sem felst í stjórn bankanna, vera í höndum annarra en ríkisins. En ef slíkar stofnanir ættu að verða reknar með hag fjöldans fyrir augum, þá þyrfti að gerbreyta um stefnu í þessum efnum. Nú hefur það verið stefna seðlabankans að hækka vexti í landinu og gera ráðstafanir til þess að þeir fái sem hæsta vexti, sem lána fé sitt á svörtum markaði utan bankanna. Þetta hefur verið gert, þó að það hafi verið til stórtjóns fyrir atvinnulífið. Það hefur kostað harða baráttu hér á Alþ., að sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn fengi stofnlán með 2% vöxtum. Hins vegar hefur bankapólitíkin verið rekin þannig, að það er eins og það sé samsæri bankanna og peningamannanna í Reykjavík um að stöðva atvinnulífið. — En það er ekki komið inn á þessa íhlutun ríkisins í þessari þáltill. [Fundarhlé.]

Ég var kominn þar, sem ég ræddi um ríkisreksturinn og hvaða ástæður væru til þess, að hann væri hér í svo ríkum mæli, og taldi, að orsakanna væri ekki fyrst og fremst að leita til þess, að áhrifa sósíalista hefði gætt svo mjög, heldur hins, að af því að þjóðin er smá, þá þurfti hún, til þess að nýta tæknina og taka upp stórrekstur, að hafa oft og tíðum aðeins eitt fyrirtæki í hverri grein. Annað er það, að þjóðinni hefur þótt hættulegt að láta einstaklinga eða fyrirtæki þeirra ráða stórum fyrirtækjum. Dæmi um það eru síldarverksmiðjur ríkisins, ef fyrirtæki einstaklinga ætti að stjórna þeim. Það eru því almennar þjóðfélagslegar ástæður, sem gert hafa ríkisbúskap óhjákvæmilegan hér á mörgum sviðum þjóðlífsins. Leiðir þetta aftur af sér mikla skriffinnsku, og kannske er það oft undir tilviljun komið, hvernig rekstur þessi gengur, en út af ádeilu hv. 1. þm. Reykv. á ríkisrekstur almennt, þá vil ég benda honum á, að á sviðum, þar sem einstaklingsframtakið gat notið sín, þá varð hið opinbera að koma til og bjarga þjóðinni, og á ég við það, þegar rætt var um kaupin á nýsköpunartogurunum, því að þá kom fram hjá togaraeigendum, að þeir voru á móti því að leggja í kaupin á þeim tíma, og þá var það fyrir frumkvæði hins opinbera, að keyptir voru 30 togarar, og þá fyrst áttaði einstaklingsframtakið sig á því, að þarna var stigið gott og þýðingarmikið spor. En þótt þarna tækist vel til, þá skal ég viðurkenna, að afskipti hins opinbera takast ekki nærri alltaf jafnvel, eins og t. d. í stjórnartíð hv. 1. þm. Reykv., þegar þáv. atvmrh., Vilhjálmur Þór, samdi um kaupin á Svíþjóðarbátunum, sem var að ýmsu leyti mjög óheppilega gert, og sýnir þetta, að hinu opinbera geta verið mislagðar hendur eins og einstaklingunum, en stærstu skrefin fram á við í atvinnulífi Íslendinga síðustu 5 árin hafa verið stigin vegna þess, að framtak hins opinbera hefur verið nógu sterkt, en nú er svo komið, því miður, að í stað framtaks hjá hinu opinbera er komið afturhald.

Þá ætla ég að minnast nokkrum orðum á afstöðu bankanna, en á hana var ekki minnzt í framsöguræðu hv. 1. þm. Reykv., en þeir eru þó mjög stór ríkisfyrirtæki, og vald seðlabankans er svo mikið, að stjórn hans getur mótað allt okkar atvinnulíf, og því miður hefur stjórn Landsbankans sýnt það, að hún hefur stjórnað með hag peningamannanna fyrir augum, en hagsmunir atvinnuveganna eru fyrir borð bornir. Landsbankinn hefur alltaf sótzt eftir því að hafa vexti af útlánsfé sem allra hæsta, en fyrir heilbrigt atvinnulíf er það lífsskilyrði, að vextir séu lágir og að hægt sé að fá lán til langs tíma. Fyrir stríð var verið að drepa útgerðina með þeirri vaxtapólitík, sem Landsbankinn rak, og með því var dregið úr atvinnulífinu og þjóðin gerð fátækari en þurfti. Það kostaði líka gífurlega baráttu að fá vextina lækkaða, t. d. þegar lögin um stofnlánadeildina voru sett, en í baráttunni við bankavaldið hefur núv. ríkisstj. alveg gefizt upp, og Landsbankinn hefur aftur fengið að hækka sína vexti. Sækir nú mjög í sama horfið og fyrir stríð, þar sem bankinn, auk þess að hækka vextina, knífar lánin svo mjög til atvinnuveganna, að þeir stöðvast meira og minna. Það getur verið, að stjórn bankans reki hann eins og einstaklingur rekur gróðafyrirtæki, en það er engan veginn heilbrigt sjónarmið að reka þjóðbankann svo, að hann gefi gífurlegan gróða, heldur á að reka hann með tilliti til þess, að til sé nóg fé í atvinnulífinu, og allir vita, hvað vextirnir eru þýðingarmikið atriði fyrir atvinnulífið. Ég hygg, að Landsbankinn hafi rekið pólitík, sem hefur orðið til þess að draga úr okkar atvinnulífi, og mér er ekki örgrannt um, að stundum sé hann rekinn í samræmi við hagsmuni ríkustu þegna þjóðfélagsins, t. d. varðandi húsabyggingar. Hér er fjöldi manna að reyna að byggja yfir sig, og verkamenn og aðrir efnalitlir menn geta þetta, ef þeir fá lán til ca. 40 ára og orðið þannig smátt og smátt húseigendur. Ef Landsbankinn væri rekinn með hagsmuni almennings fyrir augum, eins og ætlazt verður til af ríkisstofnun, þá mundi hann reyna að hjálpa hinum efnaminni þegnum í þessari viðleitni, og hefur Alþingi sýnt vilja sinn í þessu efni með því að setja hvað eftir annað lög, sem miða að þessu. Hins vegar, þrátt fyrir yfirlýstan vilja Alþingis, þá hefur stjórn Landsbankans farið alveg öfugt að, og afleiðingin af þessu hefur orðið sú, að lögin hafa raunverulega verið numin úr gildi, þar sem bankinn hefur raunverulega neitað um nauðsynleg lán til þessara efnaminni manna, sem svo hafa neyðzt til að selja hús sín einstökum peningamönnum. Bankinn hefur þannig skapað lánsfjárkreppu, sem kemur niður á þeim fátækustu, og sést af þessu, að þetta ríkisfyrirtæki er svo rekið, að það féflettir hina efnalitlu til ágóða fyrir þá auðugu. Þetta minntist hv. 1. þm. Reykv. ekki á, en þarna kem ég aftur að spurningunni: Í hverra þágu er ríkisrekstrinum beitt? Er það í þágu fjöldans eða hinna ríku? Án þessa mælikvarða þýðir raunar lítið að deila um ríkisrekstur. Þetta sama kemur fram í atvinnulífinu, og hæstv. viðskmrh. minntist á hlut, sem vert er að athuga. Hann sagði, að betur hefði mátt búa að fiskiðjuveri ríkisins, enda er það alkunnugt hneyksli, hvernig að því hefur verið búið. Landsbankinn hefur neitað því um lán og viðskiptanefnd neitað því um möguleika á því að fá lán erlendis. Af opinberri hálfu er því komið í veg fyrir, að það geti fengið lán og búið svo um sig, að það sýni góða afkomu. Það er samspil milli þeirra, sem þarna ráða málum, og þeirra, sem vilja, að fiskiðjuverið fari á hausinn og verði selt einstaklingum. Hér er um að ræða ríkisafskipti, sem miða að því að koma fiskiðjuverinu í hendur auðmanna, þar sem ekki er staðið við vilja Alþingis um að tryggja því lán. Hér á Alþ. hafa verið samþ. lántökur til ýmissa slíkra fyrirtækja, en þegar til framkvæmdanna kemur, þá eru sjónarmið Landsbankans vægast sagt oft bókhaldsleg, og á hann það til að hindra, að lán séu veitt samkv. lögum. Ég vil minna á það, sem ég sagði ekki alls fyrir löngu við umr. í Nd., þegar ég sýndi fram á, hvernig fé stofnlánadeildarinnar hefði minnkað úr 100 millj. kr. niður í 85 millj. kr., því að þegar borgað er inn af togurunum, tekur Landsbankinn allt það fé í seðladeildina og eyðileggur tekjumöguleika stofnlánadeildarinnar. Í frv. mínu um þetta efni er gert ráð fyrir því að breyta þessu, þannig að stofnlánadeildin fái að halda sinum 100 millj. og fái gróðann af því, sem borgað er inn af togurunum, sem mætti svo nota til uppbyggingar atvinnulífsins, en þetta frv. hefur ekki náð fram að ganga vegna þess, að Landsbankinn er á móti því. Hann vill fá peningana til sín til þess að lána þá aftur út á hærri vöxtum. Í Landsbankanum ríkir sjónarmið gróðans í stað þess sjónarmiðs að stjórna með hag almennings fyrir augum. Þess vegna er auðséð á því, hvernig þetta mál er lagt upp, að þar, sem afskipti hins opinbera eru harðvítugust í þágu auðmannastéttarinnar, að þar má halda þeim við og það má reka skemmdarstarfsemi gagnvart einstökum ríkisfyrirtækjum til þess að koma þeim á hendur einstaklinga. Ef þetta mál er krufið til mergjar, er einsætt, að breyta þarf starfsaðferðum frá því, sem nú er. Ríkisbúskapurinn hjá okkur er gallaður, og honum fylgir ægileg skriffinnska. Ég hef þegar rætt um einkasölurnar, eins og áfengisverzlunina, tóbakseinkasöluna og viðtækjaverzlunina. Hvað eftir annað hafa verið gerðar ályktanir um að sameina þessi fyrirtæki undir eina stjórn til að spara starfsmannahald, og hvað eftir annað hefur verið talað um að nota tækifærið, þegar einhver forstjórinn hætti. Nú fyrir skömmu fór forstjóri tóbakseinkasölunnar frá, og maður skyldi nú ætla, að Sjálfstfl. hefði viljað nota tækifærið og sameina tóbakseinkasöluna og áfengisverzlunina undir eitt. En það var ekki gert. Og hvers vegna? Það var vegna þess, að Sjálfstfl. þurfti að koma að sem forstjóra manni, sem var á hans vegum. Þetta er dæmi um það, hvernig ríkisafskiptin eru framkvæmd. Ef prívatmaður hefði rekið þessi fyrirtæki, þá hefði hann sameinað þau, svo að reksturinn kæmi praktískar út, en þarna var tækifærið notað til þess að koma pólitískum vandamanni að. Nú er að forgöngu sjálfstæðismanna rætt um eftirlit með rekstri ríkisstofnana, en það er ekki minnzt á að sameina þetta. Svo er komið og sagt, að ríkisreksturinn sé ómögulegur. En það heilbrigða er að miða hann við hagsmuni fjöldans, í stað þess að misnota hann í þágu auðmannastéttarinnar.

Viðvíkjandi afskiptum ríkisins af innflutningnum og útflutningnum kemur það ekki fram í till., hvort hv. þm. vill afnema þau, en hann segist hafa sagt að hann vildi afnema innflutningshöftin. En hann hefur ekki lagt til, að útflutningshöftin verði afnumin. Þau höft voru sett, eftir að stríðið byrjaði, og miðuð við styrjaldarástand. Síðan hafa þau verið látin haldast, þó að nokkurn veginn venjulegir tímar væru komnir, og með þau er farið þannig, að það er ein deild í stjórnarráðinu, er hefur með alla útflutningsverzlunina að gera. Í Noregi hafa einstaklingar fengið tækifæri til að ryðja braut fyrir afurðirnar erlendis, en hér er það útilokað. Það eru ekki einu sinni verzlunarsamtök, sem hafa með þetta að gera, heldur er það aðallega einokað af stj., með þeim afleiðingum, að sífelldar deilur eru um það, hvort selt hafi verið fyrir það verð, sem hægt var að fá, og landsmenn geta ekki séð, hver fer með rétt mál og hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Þessi höft er ekki minnzt á að afnema.

Annars er erfitt að skilja, hvernig á að afnema innflutningshöftin án þess að afnema útflutningshöftin. Mín skoðun á þessum málum er sú, að raunverulega sé um tvennt að gera, ástandið, eins og það er nú, er ófært. Annað er að stíga eitt spor áfram og þjóðnýta innflutnings- og útflutningsverzlunina. Við sósíalistar fluttum í fyrra till. um, hvernig það væri helzt framkvæmanlegt, en þær fundu ekki náð fyrir augum þingsins. Hitt er að stíga eitt spor aftur á bak og lina á höftunum. Í stað þess, að n. ákveði innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, er með löggjöf hægt að banna innflutning á vissum vörum. Þá verða engar undanþágur eða deilur um gjaldeyri. En ég verð að segja það, að það, sem næst kemst verzlunarfrelsi, er till. sú, er nú er til umr. í Nd., að úthluta leyfum til einstaklinganna. Hvernig var þetta í gamla daga, fyrir 1914, því að svo langt verðum við að fara aftur í tímann í leit að frjálsri verzlun? Ef maður átti peninga, gat hann keypt fyrir þá vörur hér eða erlendis og borgað þær með íslenzkum seðlum án þess að spyrja neinn um leyfi. Það, sem kæmist næst þessu, væri að úthluta leyfunum til einstaklinganna. Leyfin yrðu með því móti það, sem peningaseðlarnir voru áður, og giltu gagnvart þeirri vöru, sem flutt væri inn. Það væri sama stig og fyrir 1914. Það kæmist næst verzlunarfrelsi, meðan kaupgetan út á við er ekki í samræmi við kaupgetuna innanlands. En hvernig stendur á því, að Sjálfstfl. vill ekki þessa leið? Í Sjálfstfl. eru tvær stefnur í þessu máli, önnur sú, að leyfunum sé úthlutað til sérréttindaaðals, hin, er m. a. hæstv. forseti Sþ. fylgir, er sú að afhenda leyfin smásöluverzlunum. Þarna er deila um það, hvort heildsalarnir og S.Í.S. eða smásalarnir eigi að fá leyfin. En það, sem kemst næst verzlunarfrelsi, er að afnema höftin, afnema, að ein stofnun veiti einstaka mönnum forréttindi, og láta fólkið sjálft fá leyfin. En Sjálfstfl. er á móti slíku. Ég held því, að það komi einkennilegir hlutir út, ef þetta mál er krufið til mergjar. Það virðist sem Sjálfstfl. og heildsalarnir séu hræddir við verzlunarfrelsi og minnkuð afskipti ríkisins. Fyrst utanríkisverzlunin er ekki þjóðnýtt, er heilbrigðast að lina á höftunum, því að núverandi ástand skapar bara sérréttindastétt og hindrar frjáls samtök á verzlunarsviðinu. Hins vegar þarf að koma betri skipan á ríkisreksturinn og gera skynsamlegar ráðstafanir til þess að færa hann saman og sameina mörg fyrirtæki í eitt. Það er undarlegt, er við höfum innkaupastofnun, að slík stofnun skuli ekki keppa við S.Í.S. og heildsalana, heldur aðeins flytja inn fyrir ríkið. Það er mikil þörf heilbrigðrar gagnrýni í þessum efnum, en það er ekki það, sem býr bak við þessa till., heldur er að því stefnt að ná ríkisrekstrinum undir sérréttindastétt á verzlunarsviðinu. Það nær ekki nokkurri átt. Ef um einokun er að ræða, á hún að vera í höndum ríkisins.

Mér þætti gaman að heyra, hvort hv. flm. vildi vera með því að fella niður höftin á útflutningsverzluninni, sem sett voru vegna stríðsins, og gefa einstaklingsframtakinu með því meira frelsi til þess að leita markaðar fyrir afurðir okkar. Þar sem við viljum byggja á einstaklingsframtakinu, er rétt að gefa því lausari tauminn, en ríkisrekstrinum eigum við ekki að sleppa, þar sem hann er æskilegur, þótt ekki sé þar allt eins og helzt yrði kosið, heldur reyna að bæta hann. Tökum t. d. innflutninginn. Ef núverandi fjárhagsráð, viðskiptanefnd og skömmtunarskrifstofa væru skipuð dugandi mönnum með verzlunarþekkingu, gætu þessar stofnanir annazt öll innkaup til Íslands án heildsalanna og S.Í.S., og jafnvel S.Í.S. eitt mundi fara langt með þetta. Hins vegar er það svo nú, að fyrir utan þetta bákn fást 200 heildsalar í Reykjavík og starfslið þeirra við innflutninginn og auk þess S.Í.S. Allir þessir aðilar eiga undir ríkisskrifstofurnar að sækja, og framtak einstaklinganna er lamað af bákninu, sem veitir leyfin, bæði á verzlunarsviðinu og öðrum sviðum. Sá tvöfaldi kostnaður, sem af þessu leiðir, liggur eins og mara á þjóðinni, og deilur um, hvort hægt væri að losna við hann, hafa verið einn höfuðþáttur í íslenzkum stjórnmálum. Við sósíalistar álítum þjóðnýtinguna spor áfram og höfum barizt fyrir henni, en það hefur staðið í sama farinu. Ríkisbákninu er við haldið og einstaklingsframtakinu líka, en fjötruðu og lömuðu einstaklingsframtaki. Það má segja, að við höfum bæði þjóðnýtingu og kapítalisma, og þjóðin stendur ekki undir þessu, það er að sliga hana. En allt, sem kemur fram hjá stj., miðast við að halda þessu ástandi. Við vitum, hvað þessu veldur. Heildsalastéttin hindrar heilbrigða lausn á þessum málum, af því að hún vill ekki sleppa sérréttindum sínum. Nú sýnist mér, að það, sem felst í till., sem hér liggur fyrir, sé, að þessi stétt vilji seilast inn á ný svið og notfæri sér í því skyni að ýmsu leyti réttmæta óánægju.

Hv. flm. klykkir út með því, að þjóðin lifi yfir efni fram og skerða þurfi hlut almennings. Ef lækka á gengið eða halda vísitölunni fastri, þá er hann ekki á móti ríkisrekstri. En þegar hv. 1. þm. Reykv. segir, að þjóðin lifi yfir efni fram, verður manni á að spyrja, hverjir það séu, og í hvaða tilliti. Þjóðin er ríkari af milljónamæringum, en nokkur önnur þjóð í veröldinni. Það er að lifa yfir efni fram að ala 200 menn, sem eiga milli 500 og 600 millj. kr. Það er að lifa yfir efni fram að láta slíkt safnast saman hjá fáum einstaklingum. Tekjuskiptingin gefur til kynna, að auðsöfnunin sé gífurleg hjá þeim ríkustu, og það er vissulega að lifa yfir efni fram að viðhalda slíkri yfirstétt. Það er lítill efi á því, að það er sjúkleg ofrausn, svo að notuð séu orð, sem hv. 1. þm. Reykv. heldur upp á, ekki sízt er það hefur í för með sér, að fjármagn og vinnuafl dregst frá framleiðslunni. En meðan gróðamöguleikarnir eru mestir í verzluninni í skjóli innflutningshaftanna, streymir fjármagnið til verzlunarinnar. Þetta er vandamál, sem við höfum átt að stríða við í áratugi, og það verður ekki leyst nema með því að taka verzlunina í hendur ríkisins, eins og síma, hafnir, rafmagn o. fl. Það þarf að loka þessari atvinnugrein fyrir einstaklingsframtakinu, en gefa því frjálsari hendur á öðrum sviðum. En þetta hefur verzlunarstéttin ekki viljað ganga inn á og Alþ. ekki heldur.

Með umr. um þetta mál er í raun og veru stofnað til umr. um alla þá pólitík, sem rekin hefur verið í landinu, um það vald, sem heildsalarnir eru í okkar þjóðfélagi og um það ópraktíska fyrirkomulag að viðhalda einstaklingsrekstrinum, samtímis því sem hann er heftur á öllum sviðum með íhlutun ríkisvaldsins. Við búum við það versta úr báðum þeim þjóðfélögum, sem um er að ræða, einstaklingsrekstrarins og ríkisrekstrarins, og það er því ekki von, að vel fari. Hins vegar kom það fram, því meira sem leið á ræðu hv. 1. þm. Reykv., að fyrir honum virðist vera aðalatriðið gengislækkun, vísitölubinding og slíkt. Og þó að það komi ekki fram í till., virtist það vera stefnan, sem allt ætti að miða við. Þá var ekkert við það að athuga, að frjálsræði einstaklingsins væri skert. Vísitölubindingin er einhver sú harðvítugasta árás, sem gerð hefur verð á samningafrelsið. Með henni voru allir gildandi samningar milli verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda settir úr „funktion“. Þegar barizt er fyrir því að draga úr afskiptum ríkisvaldsins, virðist sem sjálfsagt væri að afnema þetta, en hv. 1. þm. Reykv. þykir sjálfsagt, að þessu sé við haldið. Ég fæ ekki betur séð en ætlunin sé að viðhalda því, sem er auðmönnunum til góðs, en verkamönnunum til tjóns, og ef till. nær fram að ganga, eigi að taka ný svið undir einstaklingsframtakið, en viðhalda höftunum á útflutningnum, og ég tók ekki eftir því, þó að hv. flm. minntist á að afnema innflutningshöftin, að hann gerði það að neinu aðalatriði, og ekki gerir Sjálfstfl. það að neinu atriði. Fyrir þinginu er eitt mál, sem miðar í þessa átt, till., er var til umr. í Nd. í dag, en Sjálfstfl. er á móti henni. Það er sjálfsagt að vísa till. til n., en þar munu verða umr. um hana, er skapa deilur um alla pólitíkina í landinu.