25.04.1949
Sameinað þing: 68. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í D-deild Alþingistíðinda. (4878)

121. mál, ríkishlutun um atvinnurekstur

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég skal ekki haga orðum mínum þannig, að þau veki deilur, en ég vil aðeins leiðrétta það, sem hv. þm. Ísaf. sagði. Hann kvað mig hafa sagt, að í stjórn síldarverksmiðja ríkisins væru pólitískir spákaupmenn. Ég man ekki til þess, að ég hafi sagt þetta, enda veit ég, að það eru margir góðir menn í stjórn síldarverksmiðjanna. En það var hið pólitíska kosningafyrirkomulag, sem ég var að deila á, því að það getur orðið til þess, að mennirnir í stjórn síldarverksmiðjanna geti alls ekki unnið saman. Ég mun hafa sagt að það mætti ekki koma fyrir að síldarverksmiðjunum yrði stjórnað af pólitískum spákaupmönnum, og átti ég þar við, að í stjórnartíð ákveðins ráðherra var verksmiðjunum stjórnað eins og pólitísku fyrirtæki.

Út af ummælum hv. 4. þm. Reykv. vil ég segja, að það gleður mig að heyra, að Alþfl. sé með einhverjar till. í dýrtíðarmálunum, en þær hafa ekki komið fram á neinn praktískan hátt, svo að ég viti, því að ég tel það enga lausn, sem flokkurinn kallar þriðju leiðina. Ef sá háttur helzt, sem nú er á hafður, eru ekki horfur á neinni lausn dýrtíðarvandamálsins. Þetta vitum við báðir, hv. 4. þm. Reykv., og einnig hæstv. viðskmrh. Ég vil benda hv. 4. þm. Reykv. á, að blað hans hefur haldið því fram, að það sé stefna Alþfl., sem hafi ráðið í dýrtíðarmálunum.

Hæstv. ráðh. reynir að koma því á mig, að ég hafi stofnað til sérleyfisferðanna. Ég hygg. að það sé vegna þess, að hann finnur, um hve mikinn endemisrekstur er þar að ræða, sem hann hefur þó haft meiri afskipti af en ég. Ég var frá byrjun mjög andvígur því, að ríkið tæki þennan rekstur í sínar hendur, en vissi aftur á móti, að sumar stofnanir sóttu mjög fast að fá hann, m. a. póststjórnin. Það var einnig fjarri því, að ég vissi, að um 10 bíla væri að ræða, sem byggja ætti yfir, heldur hélt, að það væru aðeins 4–5. En hæstv. ráðh. mun hafa haldið fast við, að ríkið tæki þennan rekstur í sínar hendur, og kom það á daginn, að í byrjun ársins 1945 tekur ríkið ¼ af honum í sínar hendur. Ég skeyti því svo engu að bera af mér sakir þær, er ráðh. taldi mig hafa unnið til, en ég hef eigi komið nærri. Vona ég svo, að málið fari í nefnd.