16.03.1949
Sameinað þing: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í D-deild Alþingistíðinda. (4901)

131. mál, áburðarverksmiðja

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Þegar það er athugað, hvar reisa skuli þessa verksmiðju, þarf að taka tillit til þess í fyrsta lagi, hvort rafmagn sé fyrir hendi, í öðru lagi kælivatn og í þriðja lagi hafnarskilyrði. Auk þessa koma til greina ýmis önnur atriði, svo sem vistarverur fyrir starfsmannafjöldann, og þarf að vega og meta vandlega alla þessa hluti. Og ég geri ráð fyrir, að eðlilegast verði, að verksmiðjustjórnin, sem mun verða þriggja manna stjórn, geri sínar tillögur um staðsetningu og ríkisstj. taki svo endanlega ákvörðun.

Það liggur í hlutarins eðli, að það hlyti að verða kostnaðarminnst að reisa verksmiðjuna í námunda við kaupstað, þar sem umrædd skilyrði væru fyrir hendi. Komið gæti til greina að byggja utan um hana sérstakt kauptún, en þá verða menn að gera sér grein fyrir því, að þar yrði um milljóna aukakostnað að ræða.

Ég er því út af fyrir sig ekkert andvígur, þótt sérstök n. athugaði þetta. En þá yrði sú nefnd að athuga þetta hlutlaust og alla staði, sem til greina koma. Það er talað um það alveg sérstaklega, að athuga beri Þorlákshöfn gaumgæfilega. En hvers vegna er það sérstaklega tekið fram um hana umfram aðra staði? Vafalaust koma Akureyri, Akranes og Rvík engu síður til greina. Og Alþ. verður að afgreiða þessa nefndarskipun svo, að nefndin starfi hlutlaust í þessu efni. Ég vildi því mega skjóta því fram, að ef till. fær að fara til n., þá felli n. niður þessa setningu um það, að sérstaklega beri að rannsaka Þorlákshöfn og hún sé þannig látin ganga fyrir öðrum stöðum.