10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í D-deild Alþingistíðinda. (5055)

906. mál, menntaskólakennsla í Laugarvatnsskóla

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Ég vildi þakka hæstv. menntmrh. fyrir glögg og nákvæm svör. Það kom fram, að þessu fé hefur verið varið án lagaheimildar, hæstv. ráðh. sýndi þann drengskap að játa það, og met ég það að fullu. Ég vakti athygli á þessu fyrst og fremst vegna þess, að það mundi sæta andmælum af minni hálfu, ef stofnað yrði til Menntaskóla á Laugarvatni áður en tilraun er gerð til þess að bæta úr vandræðum hins aldargamla Menntaskóla í Reykjavík. Á Laugarvatni eru nú hafnar miklar framkvæmdir, sem talið er, að muni kosta um 9 millj. kr. Mér er sagt, að þær séu svo stórar í sniðum vegna þess, að menntaskóli sé fyrirhugaður á Laugarvatni. Ef þetta er rétt, tel ég það rangt og óeðlilegt að verja millj. kr. til skólabyggingar á Laugarvatni, þegar ár eða áratugir líða án þess, að elztu menntastofnun þjóðarinnar sé sýndur verðugur sómi. Þetta er höfuðástæðan til þess, að ég hef óskað eftir nánari upplýsingum um þetta mál.