10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í D-deild Alþingistíðinda. (5061)

907. mál, ríkisreikningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég ræddi ekki þetta mál á síðasta þingi, þegar fyrirspurn kom fram varðandi ríkisreikningana, en sé ástæðu til þess fyrir hönd okkar yfirskoðunarmanna að segja örfá orð nú, sem er vegna þess, að það hafa hvorki þá né nú verið dregnar fram aðalástæðurnar fyrir því, hve seint ríkisreikningarnir eru á ferðinni. Aðalástæðan fyrir því er sú, að endurskoðun stjórnarráðsins hefur verið mörg ár á eftir tímanum um margar stofnanir. Ríkisreikningurinn fyrir árið 1944 var afgreiddur á síðasta þingi, og við yfirskoðunarmennirnir skiluðum honum frá okkur án þess að hafa fengið endurskoðun á öllum stofnunum ríkisins. Nú hefur þetta breytzt nokkuð í betra horf upp á síðkastið, þannig að hraðað hefur verið meir endurskoðun stjórnarráðsins. Þó höfum við ekki fengið endurskoðunarskýrslur um allar stofnanir enn á þeim reikningum, sem við höfum nú skilað athugasemdum við. Það er því ekki nema að sumu leyti — svo að vægilega sé til orða tekið — sú ástæða til þess, hve ríkisreikningarnir eru seint á ferðinni, að yfirskoðunarmennirnir hafi verið seint að með sitt starf, því að okkar starf er yfirskoðun, sem er ekki raunveruleg endurskoðun, því að hún fer fram í stjórnarráðinu og hefur verið á eftir tímanum. En eins og hæstv. fjmrh. hefur upplýst, má búast við, að ríkisreikningarnir fyrir 1945 og 1946 verði lagðir fram til úrskurðar á þessu Alþ.