18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í D-deild Alþingistíðinda. (5105)

912. mál, gjaldeyrismál

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurninni skal ég taka það fram, að vorið 1947 leitaði ég aðstoðar Landsbankans til þess að afla upplýsinga um innstæður Íslendinga erlendis, hverjir ættu þær, og hvort þær væru löglegar eða ólöglegar. Bankastjórar Landsbankans leituðu eftir þessum upplýsingum, bæði á Norðurlöndum, í Englandi og í Bandaríkjunum. Kom þá á daginn, að inneignir þessar voru hvergi nærri eins miklar og ýmsir höfðu haldið, og í annan stað, að algerlega var neitað að gefa upp innstæðueigendur.

Í maí s. l. barst mér í hendur mánaðarrit alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá aprílmánuði, þar sem skýrt var frá því, að innstæður Íslendinga í Bandaríkjunum hefðu 30. júní 1947 numið 7 millj. dollara. Árið 1945 voru innstæðurnar taldar 4.3 millj. dollara og 1946 5.8 millj. dollara. En í júníhefti þessa tímarits er talið, að innstæður Íslendinga í sept. 1947 hafi aðeins verið 3.6 millj. dollara. Í fyrrgreindu tímariti er sagt, að innstæðurnar 30. júní 1947 hafi skipzt þannig, að 3 millj. væru eign opinberra aðila, en 4 millj. eign einstaklinga. Eins og séð verður af þessum tölum, ber þeim alls ekki saman við skýrslur okkar um gjaldeyriseignir Íslendinga í Bandaríkjunum á þessum árum. Enn hefur ekki fengizt skýring á því, hvernig á þessum mismun stendur.

Í maímánuði bárust einnig lögin, sem Bandaríkjaþing samþykkti um Marshall-hjálpina, og virtust þá opnast nýir möguleikar til að fá upplýsingar um eigendur innstæðna í Bandaríkjunum. Í 115. gr. þessara laga er gert ráð fyrir því, að þátttökuríkin skuldbindi sig til, „eftir því sem hægt er, að gerðar séu ráðstafanir til þess að hafa upp á, aðgreina og nota á viðeigandi hátt í sambandi við framkvæmd þeirrar áætlunar, eignir og tekjur af þeim, sem tilheyra þegnum þess ríkis og eru innan Bandaríkjanna eða lendna þeirra.“

Ríkisstj. fól því sendiráði Íslands í Washington í maí s.l. að fara þess á leit við stjórn Bandaríkjanna, að hún léti safna upplýsingum um íslenzkar innstæður þar í landi og hverjir séu eigendur þeirra.

Í lok ágústmánaðar barst svar Bandaríkjastjórnar, þar sem skýrt var frá því, að þar sem innstæður Íslendinga í Bandaríkjunum hafi aldrei komið undir eftirlit stjórnarinnar þar á stríðsárunum, hafi Bandaríkjastjórn engar upplýsingar um eigendur þessara innstæðna.

Inneignir allra Evrópuríkja, að undanteknum Íslandi, Bretlandi, Írlandi og Tyrklandi, voru í vörzlu bandarískra stjórnarvalda á stríðsárunum. Aðstoð Bandaríkjanna, sem um ræðir í Marshall-lögunum, virðist því aðeins bundin við upplýsingar um hinar svokölluðu „blocked“ innstæður.

Með tilliti til ákvæða Marshall-laganna og upplýsinga gjaldeyrissjóðsins leit ég svo á, að svar Bandaríkjastjórnar væri alls ekki fullnægjandi. Hefur sendiráðinu í Washington verið falið að fá úr því skorið, hvort Bandaríkjastjórn geti aðstoðað íslenzku ríkisstj. við að hafa upp á þessum upplýsingum, þótt hins vegar sé ekki dregið í efa, að það sé rétt, að Bandaríkjastj. hafi ekki þessar upplýsingar nú sem stendur. Svar við þessari málaleitan hefur enn ekki borizt.

Auk þess, sem gert hefur verið til að afla upplýsinga um innstæður Íslendinga í Bandaríkjunum, hefur ríkisstj. fyrir milligöngu sendiráðs Íslands erlendis leitazt við að fá upplýsingar um bankainnstæður og aðrar eignir Íslendinga á Norðurlöndum, í Englandi og Sviss. Hefur nú svar borizt frá stjórnum allra þessara landa nema Danmerkur. Hafa stjórnir Bretlands, Svíþjóðar og Sviss algerlega neitað að veita nokkra aðstoð í þessu máli. Segir svo í bréfi til utanrrn. frá 15. sept., að það sé ófrávíkjanleg regla brezkra banka að láta ekki þriðja aðila í té upplýsingar um innstæður viðskiptamanna þeirra, og enn fremur, að brezka ríkisstj. leggi áherzlu á, að ekki sé vikið frá þeirri reglu, til þess að viðhalda trausti viðskiptamanna á bönkunum.

Noregur er eina landið, sem hefur látið í té nokkrar upplýsingar, og hafa norsk stjórnarvöld skýrt frá, að skráðar eignir manna, sem búsettir eru á Íslandi, séu 500 þús. norskar kr. í bankainnstæðum og 100 þús. kr. norskar í hlutabréfum. Hefur norska stjórnin boðizt til þess, að gerður sé samningur um gagnkvæmar upplýsingar um eignir og innstæður ríkisborgara í hvoru landi fyrir sig. Er nú verið að undirbúa slíkan samning.

Að lokum vil ég geta þess, að ríkisstj. mun ekkert láta ógert til að afla upplýsinga um innstæður Íslendinga erlendis, þótt árangur af þeirri viðleitni hafi verið mjög lítill enn sem komið er.

Út af 2. fyrirspurninni hef ég skrifað viðskiptanefnd og beðið hana um upplýsingar í málinu, og hún svarar þannig:

„Viðskiptanefnd hefur móttekið bréf hins háa ráðuneytis, dags. 12. þ. m., varðandi fyrirspurnir, sem lagðar hafa verið fram á Alþ.

Út af fyrirspurn nr. 2 vill n. taka fram eftirfarandi:

I. Varðandi innflutningsleyfi án gjaldeyris. Slík leyfisveiting er ekki nýtt fyrirbrigði, heldur í flestum tilfellum eðlilegur og sjálfsagður liður í leyfisveitingum almennt, enda hafa slík leyfi verið veitt í þeim tilfellum, er síðar greinir, öll þau ár, sem innflutningur til landsins hefur verið takmarkaður af opinberum nefndum.

Innflutningsleyfi án gjaldeyris eru veitt og hafa verið veitt í þeim tilfellum, er hér greinir: 1) Oft eru vörur greiddar fyrir fram. Afgreiðslufresturinn er í mörgum tilfellum alllangur. Er varan kemur, getur gjaldeyris- og innflutningsleyfið verið fallið úr gildi. Endurnýja þarf því innflutningsleyfið, en ekki gjaldeyrisleyfið.

2) Sjómenn fá innflutningsleyfi án gjaldeyris fyrir þeim vörum, er þeir kaupa fyrir þann hluta launa sinna, sem greiddur er í erlendum gjaldeyri.

3) Útgerðarfyrirtæki, er hafa heimild til gjaldeyrisráðstöfunar fyrir nauðsynjum skipa í erlendum höfnum, fá slík leyfi, ef um er að ræða vöru, sem taka þarf í land úr skipunum í innlendum höfnum (kol, veiðarfæri o. þ. h.).

4) Í allmörgum tilfellum hafa slík leyfi verið veitt fyrir vörum, sem greiddar hafa verið með umboðslaunum. Þessum leyfisveitingum hefur þó verið fallið frá á þessu ári, en í þess stað í sumum tilfellum verið veitt gjaldeyris- og innflutningsleyfi, eftir að umboðslaunin hafa verið greidd inn til banka hér og hann látið í té vottorð um, að svo sé.

5) Við tollafgreiðslu á vörum hér er innflutningshlið leyfanna árituð fyrir tryggingargjöldum. Komið getur því fyrir, að veita þurfi innflutningsleyfi til viðbótar hinu upphaflega leyfi, ef varan hefur verið tryggð hjá innlendri tryggingarstofnun. Getur hér verið um allverulegar upphæðir að ræða.

6) Slík leyfi eru veitt fyrir öllum gjafapökkum, enda beri skjölin yfir gjafasendingarnar með sér, að um raunverulega gjöf sé að ræða.

7) Ef útfluttar vörur héðan eru fluttar aftur inn í landið, eru slík leyfi gefin. Í sumum tilfellum er útfluttri hrávöru breytt í unna vöru (söltuð skinn, úrgangsull o. fl.) og hluti af andvirði vörunnar látinn af hendi til hins erlenda aðila; sem breytir henni í unna vöru. Síðan er varan aftur flutt inn í landið samkvæmt þeim samningi, er um slíkt hefur verið gerður fyrir fram. Aðeins innflutningsleyfi þarf fyrir slíkum vörum, en ekki gjaldeyrisleyfi.

8) Íslenzkir ríkisborgarar, sem dvalið hafa erlendis, fá að sjálfsögðu gjaldeyrislaust innflutningsleyfi fyrir búslóð sinni og öðrum tilheyrandi áhöldum og munum, er þeir flytja aftur hingað heim.

9) Erlendir borgarar, sem hafa rétt til að dvelja hér samkvæmt fengnum dvalar- og atvinnuleyfum eða öðrum skilríkjum íslenzkra stjórnarvalda, fá og slík leyfi, eftir því sem viðeigandi þykir.

10) Til munu dæmi þess, að Íslendingar, sem búsettir eru erlendis og hafa þar tekjur af atvinnu, vilja flytja hluta af þeim tekjum hingað heim í því formi að flytja inn vörur. Sé slíkt leyft, þarf aðeins innflutningsleyfi fyrir vörunum.

11) Oft eru skip, vélar og margs konar efni til iðjuvera keypt samkvæmt fyrir fram gerðum samningi um, að greiðslur fari fram smám saman, um leið og varan er framleidd. Er í þeim tilfellum oft veitt aðeins gjaldeyrisleyfi til að byrja með, ef fyrir fram er vitað, að innflutningur vörunnar á sér ekki stað fyrr en eftir lengri tíma, en almennur gildistími leyfa segir til um. Ef varan kemur til landsins, þarf auðvitað aðeins innflutningsleyfi fyrir henni.

Af framanrituðu er ljóst, að upphæð veittra innflutningsleyfa án gjaldeyris getur orðið allhá á ári hverju. Það er og ljóst, að slík leyfisveiting getur ekki komið til greina, svo að neinu máli skipti, án þess að áður sé gerð grein fyrir því, hvort vara, sem um er að ræða, sé greidd og þá jafnframt á hvern hátt hún sé greidd með erlendum gjaldeyri. Ef slíkar upplýsingar eru ekki látnar í té samhliða umsóknunum, eru umsóknirnar ekki afgreiddar, fyrr en þær liggja fyrir.

II. Varðandi ferðir Íslendinga til útlanda. Íslendingur, sem óskar að fá leyfi til að kaupa farseðil til annarra landa, þótt hann fái ekki gjaldeyrisleyfi, verður að gera grein fyrir, hvernig slíkt getur átt sér stað, og vísast í þessu sambandi til skýrslu, er ráðuneytinu hefur verið látin í té.

Allir aðilar, sem óska að fá slík fararleyfi, eru skráðir á skýrslu á þann hátt, er meðfylgjandi skýrsluform segir til um. Skýrslan er síðan lögð fyrir fund í nefndinni, og er þar tekin ákvörðun um, hvort fararleyfi skuli veitt eða ekki.

Eins og ráðuneytinu er kunnugt, hefur nefndin staðið í nánu sambandi við það varðandi framkvæmd þessara mála, og vísast til þess í sambandi við þær reglur, sem fylgt hefur verið á hverjum tíma.

Nefndin hefur látið gjaldeyriseftirliti bankanna í té umræddar skýrslur til athugunar, ef að teldi ástæðu til sérstakra aðgerða í sambandi við þær upplýsingar, sem skráðar eru eftir einstaklingum varðandi möguleika þeirra til að ferðast til annarra landa án endurgjalds frá bönkunum hér.“

Þetta er bréf viðskiptanefndar til viðskmrn. Vænti ég, að í því felist fullnægjandi svar við þessari spurningu.

Þá er þriðji liður fyrirspurnarinnar, hvort þess hafi verið krafizt, að umboðslaunum væri skilað til bankanna. Út af þessari spurningu hef ég skrifað gjaldeyriseftirlitinu og beðið það um að svara þessu, og ég held, að málið skýrist einnig bezt með því, að ég lesi einnig upp bréf gjaldeyriseftirlitsins. Bréfið er dagsett 15. nóv. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sem svar við bréfi hins háa ráðuneytis, dags. 12. þ. m., viljum vér ,aka eftirfarandi fram: Unnið hefur verið að því að fá innflytjendur til að láta skrifstofunni í té árlegar skýrslur um tekjur af umboðslaunum, svo og aðrar gjaldeyristekjur og ráðstöfun þeirra, og hefur um þessa framkvæmd verið leitað samstarfs við verzlunarráðið. Allmargir innflytjendur hafa látið þessar skýrslur í té, en nokkur hluti þessara aðila á þó enn eftir að senda skýrslur og gera fullnægjandi skil. Gjaldeyriseftirlitið hefur nú síðast með ábyrgðarbréfum, dags. 29. sept. s. l., sent nýjar kröfur og skýrslur til þeirra, sem eigi höfðu áður skilað þeim, og var frestur settur til 15. nóv. s. l. Meiri hluti þessara innflytjenda hafa nú svarað, og er verið að gera gangskör að því að fá skilagreinar frá þeim, sem enn þá eru eftir.

Það er vafalaust, að tilfallin umboðslaun verzlunarfyrirtækja eru allmiklu meiri en komið hafa fram hjá bönkunum. Hins vegar eru kunnar ýmsar ástæður til þess, að ekki er hægt að vænta þess, að þau komi öll fram í gjaldeyriskaupum bankanna, eins og nú er háttað.

Helztu ástæðurnar eru þessar:

1. Oft eru umboðslaunin greidd á þann hátt, að þau eru dregin frá vörureikningum og þeim mun lægri upphæð innheimt fyrir innflutningsvörurnar hér.

2. Í mörgum tilfellum hefur umboðslaunainneign verið varið til greiðslu á kröfum fyrir vörur, sérstaklega meðan yfirfærsluerfiðleikar voru miklir. Enda er kunnugt um, að erlend firmu hafa oft ekki fengizt til að senda hingað greiðslu á umboðslaunainneignum, þegar svo er ástatt, að í bönkunum hér lágu kröfur frá þeim, sem ekki fengust greiddar.

3. Þeir innflytjendur, sem hafa eigin skrifstofur erlendis, hafa varið umboðslaunatekjum sinum til greiðslu á skrifstofukostnaði og oft fest þau, a. m. k. um tíma, í greiðslum fyrir vörur vegna dráttar á yfirfærslum að heiman.

4. Viðskiptanefndin hefur gert talsvert að því að leyfa innflytjendum að verja umboðslaunum til vörukaupa. Munu slík leyfi nema allmiklum fjárhæðum, en ekki höfum vér í höndum tæmandi upplýsingar um það.

Í skýrslum þeim, sem unnið er að að safna um þessar tekjur, er ætlazt til, að gerð sé grein fyrir eftirfarandi atriðum:

1. Inneign í byrjun hvers árs.

2. Innborguð umboðslaun á árinu.

3. Aðrar innborganir á árinu, t. d. endurgreiðslur eða tryggingarbætur.

4. Skrifstofukostnaður erlendis á árinu, ef um hann er að ræða.

5. Skilað bönkum hér á árinu.

6. Inneign í árslok.

Lögð er áherzla á það að koma þessum þætti eftirlitsins í fastar skorður og gera þessar sakir rækilega upp.

Hins vegar má það vera öllum ljóst, að erfitt er að fá fullkomin skil á þessum gjaldeyri, nema gjaldeyrisástandið sé í því horfi, að yfirfærslur geti gengið greiðlega hér og að breytt verði um fyrirkomulag leyfisveitinga að því er þetta snertir, þannig að sérstök leyfi verði ekki veitt út á umboðslaunainneignir, nema þess sé krafizt, að gjaldeyrinum sé áður skilað til bankanna hér.

Samkvæmt bókum vorum hafa umboðslaun, innborguð til bankanna í erlendum gjaldeyri, numið eftirtöldum fjárhæðum:

Árið 1945 kr. 976.000,00

—– 1946 — 118.9000,00

—– 1947 — 1.054.000,00

Telja má, að raunverulega hafi þessar innborganir verið hærri, en hér er talið. Stafar það af því, að ekki hefur alltaf verið unnt að greina slíkar fjárhæðir frá öðrum greiðslum, þegar innborganir voru flokkaðar.

Enn fremur má geta þess, eins og áður er sagt, að nokkuð af umboðslaunum hefur komið fram sem lækkun á kröfum, sem sendar hafa verið bönkunum til innheimtu.

Að öðru leyti leyfum vér oss að vísa til greinargerðar um starfsemi gjaldeyriseftirlitsins, sem vér sendum fjárhagsráði 20. f. m. og ráðuneytinu var sent afrit af.“

Ég tel, að með þessu svari gjaldeyriseftirlitsins sé einnig þessum hluta spurningarinnar svarað, og sé ekki ástæðu til að bæta neinu við það.