02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í D-deild Alþingistíðinda. (5151)

79. mál, lyfsölumál

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég hélt, þegar hv. þm. S-Þ. kvaddi sér hljóðs, að það væri til þess að skýra frá störfum sínum sem heilbrigðismálaráðherra og gera grein fyrir þeim reglum, sem hann fór eftir við veitingu lyfsöluleyfa, en hann hafði annað erindi, sem ég blanda mér ekki í. — Út af orðum hv. þm. Seyðf., þá mun ég ekki halda langar ræður um veitingar á einstökum leyfum, enda hef ég ekki við höndina skýrslu landlæknis varðandi veitingu Ingólfsapóteks. En eftir því sem ég þekki til embættisrekstrar landlæknis, þá treysti ég honum alveg til að gera tillögur sínar samvizkusamlega úr garði, og hafði ég enga ástæðu til að vefengja þau rök, sem hann færði fram till. sinni til stuðnings. Varðandi það, að sá maður, sem fékk Ingólfsapótek, hafi verið kominn út úr sinni stétt, þá mun landlæknir ekki hafa litið þannig á, að þau störf, sem hann vann, hafi verið óskyld lyfsölu, því að hann var við lyfjagerð. Þetta vildi ég láta koma fram um till. landlæknis og rökstuðning hans við þær að gefnu tilefni frá hv. þm. Seyðf., en get ekki farið nákvæmar út í þetta, af því að ég hef ekki skýrslu landlæknis við höndina.