16.02.1949
Sameinað þing: 40. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í D-deild Alþingistíðinda. (5257)

926. mál, lönd hjá Kleppi handa Menntaskólanum í Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af fyrsta lið fyrirspurnarinnar vil ég segja þetta: Ekkert fé hefur verið goldið fyrir lönd hjá Kleppi undir væntanlegt menntaskólahús, og er eigi kunnugt, að þeirri hugmynd hafi fyrr skotið upp að tengja skólann þeim stað eða þessu hæli, en hér ber áð lesa í málið hjá hæstv. fyrirspyrjanda eins og stundum áður hjá honum. Hér mun hann eiga við land í Laugarnesi, þótt spurt sé um land í nánd við Klepp, og vil ég í sambandi við það, með leyfi forseta, lesa úr áliti nefndar, sem skipuð var 3. okt. 1942 til að velja nýju menntaskólahúsi stað, en þar segir svo: „Að ýtarlega athuguðum þeim stöðum innan takmarka bæjarins, sem að dómi nefndarinnar helzt væru líklegir sem skólastaðir, hefur nefndin komið sér saman um að mæla með því, að framtíðarhúsakosti skólans verði valinn staður í Laugarneslandi, en tilhögun staðarins og staðsetning húsanna nánar ákveðin í samráði við skipulagsnefnd og samkvæmt skipulagstillögum að þessu svæði.“ Undir þetta álit rita nefndarmenn nöfn sin: Guðjón Samúelsson, Hörður Bjarnason og Pálmi Hannesson. Á grundvelli tillagna nefndarinnar keypti hæstv. fyrrv. menntmrh. land undir skólann í Laugarnesi af ríkisins hálfu, og voru greiddar 350 þús. kr. fyrir þetta land.

Í öðrum lið er spurt, hver hafi verið eigandi þessara lóðaréttinda, þegar ríkið keypti réttindin, og skal ég svara því. Það var dánarbú Þorgríms Jónssonar í Laugarnesi.

Varðandi þriðja lið fyrirspurnarinnar er hv. fyrirspyrjanda vel kunnugt um, að leitað hefur verið eftir því að nota þetta land fyrir menntaskóla, en bæjarstjórn Reykjavíkur hefur viljað nota það fyrir útgerðarmenn, og það hefur af hálfu stjórnar menntamálanna þótt gerlegt að gefa landið eftir, ef annað fengist í staðinn engu lakara, er ráðizt yrði í að reisa nýjan skóla, og hefur í því sambandi verið mikið talað um land í nánd við Golfskálahæðina. En frá þessu hefur ekki verið endanlega gengið sökum þess, að hik hefur verið á ríkinu að ráðast í þessa nýbyggingu.

Nú hefur að vissu leyti verið tekin ný stefna í málinu, og hefur einmitt verið lagt fram frv. þess efnis í dag. Og ef hæstv. Alþ. aðhyllist þá stefnu og ráðstafanir verða gerðar til að losna við Laugarnes, þá er engin ástæða til að ætla annað en það takist. Um endurgreiðslu eða endurheimt andvirðis Laugarness er auðvitað ekki að ræða, þar sem eignin hefur verið keypt, — og tel ég mig þá hafa svarað öllum liðum fyrirspurnarinnar.