20.04.1949
Sameinað þing: 66. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í D-deild Alþingistíðinda. (5486)

947. mál, stöðuveitingar við atvinnudeild háskólans

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Það er ekki hægt annað en að þakka hæstv. ráðh. þá elju, sem hann hefur haft við að lesa þetta upp hér yfir okkur þm. En ég get ekki sagt, að starf undirmanna hans veki alveg sams konar ánægju eins og hans fyrirhöfn. Þegar ég heyrði þessa undarlegu skýrslu, kom mér í hug, að þegar herskipin voru illa sett í síðasta stríði, þá settu þau út reyk mikinn til þess að fela sig, svo að ekki yrði á þau skotið. Ég vil skjóta því til hæstv. ráðh., sem er yfirmaður þessara deilda, að ekkert hefur sannfært mig betur en þessi skýrsla um það, að hann þarf að taka til nokkurra úrræða í sambandi við þessi mál. Það er alveg óhugsandi, að Áskell Löve og Halldór Pálsson, sem kunna ekki að svara svona fyrirspurn betur en þetta, séu réttu mennirnir í því starfi, sem þeir hafa með höndum. Það er sýnilegt, að menn, sem halda, að Alþ. eigi að fá svona svör, eins og hér hafa komið fram, sérstaklega frá Löve, kunna ekki neitt til starfa. Um Halldór Pálsson hefur það komið fram í öðru sambandi, að hann lét verja 400 þús. kr. til þess að fá jörðina Hest til að mega byggja þar fjárhús og girðingar fyrir 300 þús. kr. til þess að hafa þar sauðfé, sem er svo eftir stuttan tíma drepið. Ég álít, að það sé mjög fróðlegt að fá fram, hvernig bætt hefur verið við mönnum í þessa deild, þegar kommúnistar réðu miklu hér. Sérstaklega hefur 4. landsk. (BrB) bætt fjöldamörgum mönnum í deildina. Það voru allt flokksbræður hans, en ekki spurt um það, hvers landið þyrfti með. Ef menn hugsa um það, hvernig að náttúrufræði var unnið áður, af Eggert Ólafssyni, Jónasi Hallgrímssyni, Þorvaldi Thoroddsen, Helga Péturss, Stefáni á Möðruvöllum og Bjarna Sæmundssyni, þá fá menn glögga hugmynd um það, hver munurinn er, og hvernig árangurinn verður, þegar vel er unnið af áhugamönnum, þó að við erfið kjör sé. Hvernig nú er unnið, sjá menn af því langa svari, sem hæstv. landbrh. gerði vel í að láta okkur heyra, þó að ég búist við, að mörgum þm. hafi fundizt, að spurningatíminn væri að eyðileggja sjálfan sig með því að fá svona skýrslur. Það er ómögulegt annað en menn veiti því eftirtekt, að það er ákaflega lítið leggjandi upp úr þessu starfi. — Ég vil að endingu minnast á matvælaeftirlitið. Það var vel byrjað, en ekkert hefur orðið úr því, og þannig mundi mega taka aðra hluti til athugunar í sambandi við þessi mál, ef tími væri til þess nú.