11.02.1949
Neðri deild: 63. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

13. mál, ríkisborgararéttur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég flyt hér brtt. á þskj. 339 um, að einum manni verði bætt við þá, sem hér liggja fyrir till. um, að veittur verði ríkisborgararéttur. Þessi maður heitir Joen Fredrik Sofus Gjöveraa, sjómaður í Neskaupstað, fæddur 14. des. 1890 í Færeyjum. Ástæðan til þess, að ég verð að flytja þessa brtt., er sú, að mér barst, rétt áður en ég fór í jólafrí, bréf frá bæjarfógetanum í Neskaupstað með beiðni frá þessum viðkomandi manni um að verða þessa réttar aðnjótandi og þar sem hann sendir öll skilríki sín með, sem fylgja þurfa. Þar sem ég kom seint til þings, náðu þessi gögn ekki á réttum tíma til n. Ég hef borið þessa umsókn undir nm., og meiri hl. n. hefur leyft mér að lýsa því yfir, að hann væri samþ. því, að þessi maður öðlist ríkisborgararétt og þessi till. yrði samþ., þó að ég yrði hér sjálfur að flytja hana: Ég hygg, að ekki verði ágreiningur um, að hann skuli öðlast ríkisborgararétt. Hann er búinn að vera hér samfleytt í 34 ár, talar íslenzku og er giftur íslenzkri konu, og hefur í rauninni mestallan tímann notið allra þeirra réttinda, sem hér um ræðir, þó að hann kjósi nú að fá hann lögformlega veittan. Öll gögn hans eru í fyllsta lagi, og ég vænti því, að till. á þskj. 339 verði samþ. og maður þessi öðlist ríkisborgararétt, þar sem líka allshn. mælir með því.