05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

13. mál, ríkisborgararéttur

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að blanda mér í deilur út af þessu máli. Hv. frsm. hefur tekið fram það helzta, sem um málið er að segja, en þar sem vinur minn, hv. þm. Barð., hefur komið fram af óvenjulegum ofsa og reitt hnefana yfir frsm., en ég það langt frá honum, að hann nær ekki til mín, þá vil ég segja hér nokkur orð. Hann byrjaði á því að ásaka n. fyrir það, að hún veitti aðeins þeim mönnum borgararétt, sem væru vinmargir og vel efnum búnir. Ég segi fyrir mig, að ég hef engan þessara manna þekkt, sem nú sækja, og hef því engar kunningsskaparskyldur við þá að rækja. Enginn aðstandenda þeirra hefur heldur komið til mín í liðsbón, en mér heyrðist aftur á móti, að hv. þm. Barð. þekkti annan þann mann, sem hann bar fram, allvel og ættfærði hann til merks manns á Patreksfirði, og það hefur kannske fremur verið meðmæli með honum, að sá maður er forstjóri fyrir firma, sem sagt er, að spilli ekki fyrir hv. þm. vestur þar. Ég álít fjarstæðu, þó að Alþ. hafi einu sinni gert það, að veita konum, sem ekki eru skildar við menn með erlendum ríkisborgararétti, íslenzkan ríkisborgararétt. Það er ekki hægt, að þær séu borgarar bæði hér og í einhverju öðru landi. Það er því ekki hægt að veita þeim réttindi hér áður en þær hafa skilið við menn sína eða þeir séu látnir. Og er ekki síður ástæða til að athuga slíkt en hversu lengi þær hafa dvalizt hér. Ef ekkert eftirlit væri haft með þessu, gæti konu með íslenzkan ríkisborgararétt allt í einu skotið upp úti í löndum og haft þar ríkisborgararétt manns síns. Ég er ekki heima í þjóðarétti, en mér finnst, að ekki sé hægt að hafa þetta svo og að ekki liggi svo á að veita þessi réttindi, að ekki sé hægt að bíða eftir því, að færðar séu sannanir fyrir því, að makar þeirra séu annaðhvort dánir eða skilnaður hafi átt sér stað. Því fer fjarri, að ég sé á móti því að íslenzkar konur, sem leita aftur heim, fái aftur sín fyrri réttindi, en ég er á móti því, að þær geti aftur farið til útlanda sem borgarar þess lands, nema þá með því móti, að þær giftist útlendingi, og ég held, að vandræði gætu af orðið, ef öðruvísi verður farið að. Að öðru leyti vil ég vísa til ræðu frsm., hv. þm. Seyðf.