07.02.1949
Neðri deild: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

16. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Ég held, að með þeim till., sem hér liggja fyrir frá minni hl. landbn., sé verið að stíga, ef þær verða samþ., stærsta spor, sem við höfum stigið til að undirbyggja okkar atvinnulíf í framtíðinni. Ég mun nú reyna að færa sönnur á það, að ef till. meiri hl. landbn. verða samþ., mundi ekki verða leyst þetta aðkallandi vandamál, eins og hæstv. atvmrh. var að tala um. Ég mun reyna að sanna það, að útreikningarnir, sem byggt er á viðvíkjandi raforkunni, miðað við litla áburðarverksmiðju, fái ekki staðizt. Ég held, að það sé svo þýðingarmikið fyrir hv. d., að rannsaka þetta mál til hlítar, sem hér liggur fyrir frá minni hl. landbn., að það sé ákaflega illa farið, svo framarlega sem þær till. hlytu ekki samþykki d. nú. Ég hef satt að segja undrazt það nokkuð hér undanfarið á Alþ., hvernig farið hefur verið að viðvíkjandi okkar gjaldeyrismálum af hálfu landbúnaðarins og þeirra, sem honum eru sérstaklega hlynntir. Það hefur verið samþ. hver till. af annarri, sem fer fram á mjög mikil gjaldeyrisútgjöld vegna landbúnaðarins, eins og t.d. till. um innflutning landbúnaðarvéla og jeppabifreiða. Það er einnig vitað, að landbúnaðurinn þarf mikinn gjaldeyri vegna fóðurbætis innflutnings og með vaxandi vélnýtni aukinn innflutning á benzíni, vélahlutum og nýjum vélum, sem eru ákaflega þýðingarmiklar fyrir landbúnaðinn. Hann kemur til með að þurfa á næstu árum í vaxandi mæli útlendan gjaldeyri, en skilar svo að segja engum í staðinn, vegna þess að hann framleiðir svo að segja eingöngu fyrir innanlandsmarkaðinn. Hins vegar hefur svo ekki komið að heita má nein till., sem neitt kveður að, um að tryggja landbúnaðinum gjaldeyri til að greiða þessa hluti með. Og sama virðist vera upp á teningnum hvað snertir heildaráformin viðvíkjandi þjóðfélaginu sem slíku. Það eru gerðar vaxandi ráðstafanir til innflutnings vegna landbúnaðarins, en engar ráðstafanir gerðar til að auka neitt að ráði frá því sem nú er útflutningsframleiðsluna. Í því sambandi vil ég benda á það, að meira að segja þær till., sem hér liggja fyrir frá ríkisstj. og meiri hl. landbn. um áburðarverksmiðju, þær eru markaðar af þessum sama ranga hugsunarhætti. Áburðarverksmiðja, eins og hún er hugsuð af ríkisstj. og meiri hl. landbn., mundi þýða það, að til að byrja með yrði einvörðungu framleitt það, sem .við Íslendingar þyrftum sjálfir að nota af áburði. Nú er það hins vegar vitanlegt, að við þurfum að flytja inn fleiri tegundir af áburði, en köfnunarefnisáburð, þannig að við þyrftum vaxandi gjaldeyri til viðbótar fyrir öðrum áburðartegundum. Á sama tíma er gert ráð fyrir í áætlun ríkisstj. að byggja sementsverksmiðju, sem framleiði 75 þús. tonn af sementi. Við skulum segja, að þó að ekki yrði notað nema 2/3 til húsbygginga af þessu, þá þýðir það sama og það, að við byggjum eins mikið og við höfum mest byggt áður. Hins vegar er vitað, að af þeim gjaldeyri, sem þarf til húsbygginga, fer ekki nema 1/10 hluti til sementsverksmiðju og í hennar framleiðslu er meiri parturinn útlent hráefni. Þegar við þess vegna, eftir áætlun ríkisstj., stæðum uppi með sementsverksmiðju, sem framleiddi 75 þús. tonn, og áburðarverksmiðju, sem framleiddi 7.500 tonn, þá mundum við þurfa að flytja inn meira af áburði, öðrum en köfnunarefnisáburði, heldur en áður, og miklu meira, en við gerum nú af alls konar öðru efni, sem þarf til húsbygginga, en sementi. Þessar verksmiðjur kalla óhjákvæmilega á mjög aukinn innflutning, ef framleiðsla þeirra á að koma að gagni. Móti þessum stórkostlega aukna innflutningi eru svo engar ráðstafanir gerðar til að auka útflutninginn, að undanskilinni fyrirætluninni um að flytja inn 10 nýja togara. Ég álít þess vegna, að svo framarlega sem ekki verði tekin ákvörðun nú um stórfellda, aukna útflutningsframleiðslu Íslendinga nú á næstu 5–6 árum, þá komi, þegar kemur fram að árunum 1950–60, grundvöllurinn fyrir okkar efnahag til með að brotna undan okkur, og við komum þá ekki til með að hafa þann gjaldeyri, sem við þurfum til þess að geta fullnægt lífsskilyrðum þjóðarinnar nú og með vaxandi fólksfjölgun eða til að geta haldið í fullri drift þeim tækjum, sem við erum að fá inn í landið. Ég álít, að svo framarlega sem verður ekki nú, í ársbyrjun 1949, hugsað fyrir útflutningsframleiðslu vegna þessara hluta, þá komi að því, að það verði mikill skortur á gjaldeyri. Þetta er alvörumál, og vil ég biðja menn að hugleiða það. Það er undarleg skammsýni að samþ. hverja till. á fætur annarri um aukinn innflutning, sem krefur erlends gjaldeyris, en gera ekki um leið ráðstafanir til þess að tryggja gjaldeyri inn í landið. Ég vil spyrja hv. þm., sem vita, að við þurfum 30 millj. kr. til þess að geta haldið gangandi þessum 10 þús. bílum, sem til eru í landinu, og ég vil spyrja þá sömu menn, sem samþ. þáltill. um innflutning 750 jeppabifreiða og þáltill. um innflutning á landbúnaðarvélum fyrir 10–12 millj. kr., hvar þeir ætla að taka gjaldeyri, þegar fram í sækir. Það er hins vegar vitanlegt, að það er ekki landbúnaðurinn einn, sem þarf vaxandi gjaldeyri, heldur líka þarf sá mjög myndarlegi iðnaður, sem hér er að rísa upp, gjaldeyri fyrir sínum hráefnum. Fólkið sjálft kvartar yfir því að hafa ekki nægan gjaldeyri fyrir lífsnauðsynjum, og hér á Alþ. koma fram sívaxandi kröfur um aukinn innflutning. Ég álít það algert ábyrgðarleysi, að gera ekki nú þegar stórfelldar ráðstafanir til þess að leggja grundvöllinn að nýrri útflutningsframleiðslu fyrir okkur Íslendinga. Ég vil taka það fram, vegna þess að þetta frv. er upprunalega hugsað út frá sjónarmiðum landbúnaðarins, að jafnvel þó að aðeins sé á það litið, þá er þetta mál, sem minni hl. landbn. flytur, jafnnauðsynlegt, eingöngu frá sjónarmiði landbúnaðarins, til þess að tryggja það, að hann sitji ekki á hakanum með gjaldeyri, þegar fram í sækir.

Hæstv. atvmrh. vildi halda því fram, að till., sem minni hl. landbn. flytur, leysti ekki aðkallandi vandamál landbúnaðarins. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að till., sem meiri hl. landbn. flytur og styðst við stjfrv., leysir ekki aðkallandi vandamál landbúnaðarins. Þar skortir tvennt á. Í fyrsta lagi fær sá útreikningur; sem byggt er á um rafmagn fyrir litla áburðarverksmiðju, ekki staðizt. Í öðru lagi yrði landbúnaðinum ekki með þessu móti tryggður sá gjaldeyrir, sem hann þarf til þess að geta séð sjálfur um sína auknu ræktun og haldið henni gangandi áfram. Eins og hv. frsm. minni hl. landbn. benti á, byggir landbúnaðurinn stöðugt meir og meir á aðkeyptu rekstrarafli, benzín og hráolía kemur í staðinn fyrir hestaflið og mannsaflið. Fyrir þessa hluti þarf útlendan gjaldeyri. Ef ekki er hugsað fyrir aukinni útflutningsframleiðslu, þá þýðir það það, að þessir hlutir stoppa, geta ekki starfað áfram eftir 5–6 ár.

Við skulum nú athuga, hvernig málið horfir við, ef byggð yrði lítil áburðarverksmiðja, og hvort það mundi tefja málið, eins og hæstv. atvmrh. sagði, að leggja heldur í að byggja stóra áburðarverksmiðju. Hæstv. atvmrh. sagði, að lítil áburðarverksmiðja gæti verið komin upp eftir 2–3 ár. Ég vil nú leyfa mér að benda hæstv: atvmrh. og hv. þm. á þann einkennilega útreikning, sem liggur til grundvallar fyrir möguleikanum á því að nota rafmagn frá nýju Sogsvirkjuninni handa litlu áburðarverksmiðjunni. Í fylgiskjali II með áliti minni hl. landbn. er álit rafmagnsstjóra, Steingríms Jónssonar, og þar segir hann seinast í svari sínu til minni hl. landbn. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Vöxtur raforkunotkunar í Reykjavík var frá fyrsta rekstrarári 1922 fram til 1936, meðan Elliðaárstöðin var ein, 7,5% á ári að meðaltali, sem hvert ár var hærra en næsta ár á undan. Frá 1937, eftir að Sogsvirkjunin tók til starfa, til ársloka 1948 hefur vöxturinn verið að meðaltali nær 25% á ári. Meðalvöxtur frá 1922 til 1948 hefur verið 14% til jafnaðar, en það svarar til nærri 4-földunar á hverjum áratug. Ef því sami vöxtur verður áfram eins og meðaltalið hefur verið 1922–1948, er þörf á, að allt Sogið verði virkjað á einum áratug, enda þótt ekki komi til áburðarverksmiðja.“ Nú vil ég biðja hæstv. ráðh. og hv. þm. að athuga, hvernig þessi útreikningur er byggður upp. Fyrst er lagður til grundvallar útreikningurinn á meðaltalsrafmagnsnotkun í Reykjavík á árunum 1922–1936, 7,5%, meðan vöxtur rafmagnsnotkunar er hindraður sökum þess, hvað rafmagnsstöðin er lítil. Síðan, eftir að Sogsvirkjunin er komin til sögunnar og fólkið getur notað rafmagnið meira, þá kemst vöxturinn upp í 25% á ári, og hann mun að líkindum aukast ár frá ári, og ég man ekki betur en að sagt sé í skýrslu frá borgarstjóra, að vöxtur rafmagnsnotkunar hafi 10-faldazt á 10 árum. — En svo, þegar rafmagnsstjóri fer að reikna út, hvernig búast megi við, að rafmagnsþörfin verði á næstu árum, eftir því sem reynsla undangenginna ára sýnir, þá leggur hann til grundvallar meðaltal vaxtarins á árunum 1922–48 og tekur með 7,5%, eins og vöxturinn var, meðan alls ekki var hægt að veita sér notkun rafmagns eins og með þurfti. Út úr þessu fær hann það, að við eigum að bæta við okkur 14% á ári að meðaltali, en þessi hækkun hefur verið 25% á ári síðustu 10 árin. Þetta er útreikningur, sem ekki fær staðizt. Það er engum efa bundið, að meðaltalsvöxturinn dumpar ekki allt í einu úr 25%, eins og hann hefur verið síðustu ár, og niður í 14% á næstu árum. Ég sé ekki betur en með þessum útreikningi, sem líka er gengið út frá á bls. 5, þá sé reiknað með allt of lítilli vaxtarþörf, og að taflan á bls. 5 standist alls ekki reynslunnar próf. Það þýðir hins vegar, að í fyrsta dálknum þar yrði að reikna með mun meiru en þar er gert til almennra þarfa. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að einmitt nú er verið að auka innflutning á rafmagnsfrekum raftækjum, sem munu auka rafmagnsnotkun, svo að ekki sé talað um, þegar bætt verður við rafmagnsnotkunina fleiri sveitum á Suðvesturlandi, eins og Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu. Og er ekki nema eðlilegt, að fólkið í þessum byggðum vilji fá rafmagn líka. Það er þess vegna alveg gefið, að útreikningurinn um aukna notkun rafmagns til almennra þarfa er allt of lágt reiknaður, enda kemur það fram í áliti raforkumálaskrifstofunnar, sem er prentuð í nál. minni hl. landbn., á bls. 3–4. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Raforkumálaskrifstofan telur mjög varhugavert, ef ekki með öllu útilokað, að reikna með því, að hægt sé að tryggja 10.000 tonna áburðarverksmiðju nægilegt rafmagn frá nýju Sogsvirkjuninni án þess að draga úr eðlilegri notkun rafmagns til annars iðnaðar og heimila.“ Sannleikurinn er sá, að verði Sogið látið framleiða rafmagn handa áburðarverksmiðju án þess að taka allt afl þess til notkunar, þá verður það svo í Reykjavík og á öðrum stöðum á Suðurlandsundirlendi, að það verður til að draga úr allri almennri notkun, og fyrir utan það, hvað það kæmi sér illa fyrir almenning, yrði það líka til tjóns fyrir rafveituna. Ég álít þess vegna, að engin von sé til þess, ef ekki á að ganga stórkostlega á hlut neytenda, að það verði rafmagn afgangs frá Soginu til að reka áburðarverksmiðju, og þó að ekki sé nema 5.000–7.500 smál. Ég verð að segja það, þó að ég sé álitinn bjartsýnn, að mér finnst það fullmikil bjartsýni að reikna með nýju Sogsvirkjuninni á árinu 1951. Ég veit ekki til þess, að farið sé að panta vélar, hvað þá meir, og mér er nær að halda, að það muni dragast 1–2 ár eða meira fram yfir áætlun, ef ekki verður settur sérstakur kraftur í þetta verk. Ég álít þess vegna, að stjfrv. og till. meiri hl. landbn. leysi ekki áburðarþörf landbúnaðarins, vegna þess að það er ekki til raforka handa verksmiðjunni með þessu móti. Ég held þess vegna, að því fari mjög fjarri, að þetta sé eins vel hugsað og vel undirbúið og hæstv. atvmrh. vildi vera láta, þegar hann var að bera litla áburðarverksmiðju saman við þá stóru, sem minni hl. landbn. leggur til, að byggð verði.

Ég vil taka það fram, að ég er sammála hæstv. atvmrh. um, að það sé óhjákvæmileg nauðsyn, að við hagnýtum þær auðlindir, sem íslenzku fossarnir eru. En ég er á því, að það megi ekki bíða. Það er svo mikil samkeppni um alla Evrópu um að hagnýta fossaaflið og reisa stóriðju og t.d. áburðarverksmiðjur á þeim grundvelli, að við Íslendingar megum ekki dragast aftur úr, ef við ætlum að vera með í því kapphlaupi, sem alltaf verður um að útvega markaði í tíma. Það er frekar of seint en of snemmt að taka ákvörðun um það nú að leggja í slíka stóriðju, eins og lagt er til í till. minni hl. landbn. Við höfum fengið að kenna á því undanfarið, hvílíkum erfiðleikum það getur valdið fyrir okkur að byggja á fiskveiðum einvörðungu hvað gjaldeyrisöflun snertir. Og þeim, sem hafa hugsað um framtíðarskipan okkar þjóðfélags, hefur verið ljóst, að jafnhliða hinum stóru átökum, sem við höfum gert og búum nú að, þarf að undirbyggja stóriðju á Íslandi á grundvelli fossaaflsins. Hvað raforkuna snertir, þá er það ekki bara vegna áburðarverksmiðju sérstaklega, sem við þurfum að ráðast í það stórvirki að virkja Urriðafoss, heldur þurfum við þess líka vegna iðnaðarins og landbúnaðarins yfirleitt. Það er gengið út frá því, að ef Urriðafoss er virkjaður, þá verði notuð 67.500 kw. handa 30 þús. tonna verksmiðju, en þá eru eftir 30 þús. kw. fyrir iðnaðinn og almenna notkun. Ég vil leggja áherzlu á það, að það er lífsspursmál að láta þessa virkjun gerast fljótt, svo að við verðum ekki að tapa stórfé á hverju ári í erlendum gjaldeyri vegna þess, hvað raforkuuppbyggingin er mikið á eftir í okkar atvinnulífi. Nú stendur raforkuskorturinn almennum iðnaði í Reykjavík stórkostlega fyrir þrifum, og ég býst við, að landbúnaðurinn hafi sömu sögu að segja, þar sem hann hefur á annað borð möguleika til þess að hagnýta sér raforku. Þessi vandræði iðnaðarins hvað raforku snertir hafa leitt til þess, að hvert fyrirtækið á fætur öðru er að kaupa dieselvélar til að framleiða rafmagn með hráolíu eða benzíni. Ekkert stórt fyrirtæki í Reykjavík þorir nú að byggja á íslenzkri raforkuframleiðslu. Með þessari útlendu raforkuframleiðslu, sem nú er verið að koma hér upp, er kastað millj. kr. á glæ í gjaldeyri, sem við hefðum getað sparað, ef við hefðum verið stórtækari í okkar raforkuframkvæmdum. Ég held, að bæði til þess að halda uppi því, sem við nú þegar höfum skapað, og til þess að byggja grundvöll þess, sem við þurfum að skapa á næstu árum, sé nauðsynlegt að hraða virkjun fossanna svo gífurlega, að við verðum að ráðast í þessi verkefni, þó að okkur finnist þau allstór.

Nú vil ég enn fremur koma að því, að öryggið fjárhagslega er alveg ólikt fyrir landbúnaðinn hvað snertir litlu eða stóru verksmiðjuna. Í því sambandi vil ég geta þess, að það hefur orðið reikningsskekkja, eins og líka hv. frsm. meiri hl. gat um, í útreikningnum um 7.500 tonna verksmiðju. Á bls. 7 í stjfrv. er tilgreindur rekstrarkostnaður slíkrar verksmiðju. Þar er reiknað með 120 millj. kwst. á 0,013 kr. kwst., en á að vera 2,14 aur., þannig að í stað 1.560.000 kr. eiga að vera 2.568.000, sem þýðir það, að framleiðslukostnaðurinn við 7.500 tonna verksmiðju yrði 11.558.000 kr., og það þýðir aftur, að verðið á tonni af köfnunarefni úr 7.500 tonna verksmiðju verður ekki 1.410 kr., heldur 1.541 kr. Nú vil ég biðja menn að athuga það mjög vel, að sá útreikningur, sem er í nál. minni hl., hann styðst að öllu leyti við sama útreikning eins og 7.500 tonna verksmiðjan hvað snertir þörfina, en eðlilega margfaldast rekstrarefni, umbúðir og annað slíkt, og aðeins þar, sem er um ódýrari rekstur að ræða vegna stærðarinnar, það er reiknað ódýrara. Með því að framleiða í stórri verksmiðju, verður tonnið 1.133 kr., en það er 1.000 kr. minna á tonnið en köfnunarefni kostar nú. Í stjfrv. er reiknað með, að tonnið af köfnunarefni kosti 2.155 kr. að meðaltali. Framleiðslukostnaðurinn á hverju tonni er í 7.500 tonna verksmiðju 1.541 kr., en í 30 þús. tonna verksmiðju 1.133 kr. Þetta þýðir, að það munar 1.0000 kr. á tonninu á köfnunarefnisverðinu, eða helmingi frá því verði, sem nú er reiknað með, niður í það verð, sem 30 þús. tonna verksmiðja mundi gefa. Legðu erlendu auðhringarnir því í samkeppni, þá er tvennt ólíkt, hverja aðstöðu Ísland hefur með stærri verksmiðju eða minni, 7.500 smál. eða 30 þús. smál. Er rétt að leggja áherzlu á, hve munurinn hér er mikill, því að um það er að ræða að tryggja íslenzka landbúnaðinum áburð með kostnaðarverði. Sýnist mér, að þetta ákvæði: „Vexti af lánum þessum greiðir ríkissjóður að því leyti, sem það telst nauðsynlegt, til að verð á íslenzkum köfnunarefnisáburði verði sambærilegt við erlendan áburð“ — beri þess vitni, að þeir séu smeykir, sem hafa sett það í frv. En það er álikt, hve stærri verksmiðja er miklu samkeppnisfærari. Við megum ekki leggja í verksmiðju, sem ríkissjóður yrði að greiða tapið við, heldur samkeppnishæft fyrirtæki. Með svona stórri verksmiðju eru skapaðar meiri útflutningsafurðir á Íslandi. Þessí iðnaður mun ásamt sjávarútveginum gefa miklar upphæðir í erlendum gjaldeyri, eða um 64 millj: kr. En reiknað er með í mesta lagi 10–15% kostnaði í erlendum gjaldeyri. Yrði þetta því praktískur útflutningsiðnaður. Verksmiðjan mun með 100 starfsmönnum ekki taka vinnuafl frá atvinnuvegunum, en gefa mikið í aðra hönd. Er þetta annað atriðið af tveim, sem eru mikilsverð. Hitt er þetta: Ef útreikningurinn með 7.500 tonna verksmiðjuna og hins vegar hina 30 þús. tonna er réttur, þá hefur þetta í för með sér tugi milljóna króna gróða fyrir ríkið. Ég vænti þess, að íslenzka ríkið yrði ánægt með 20 millj. kr. í ríkissjóð á ári — auk m.a. 2 millj. kr. í varasjóð. Þetta; yrði praktískur grundvöllur undir tekjuöflunum ríkisins og rekstri þess. Við erum að kvarta um, hversu þyngja eigi álögur á þjóðina, hve ægilegt sé að rísa undir kostnaðarbyrðunum af vaxandi skólahaldi o.s.frv., það sé þörf á nýjum tekjustofnum. Mér finnst nú fyrir hönd Alþingis, er lagt hefur þessar álögur á þjóðina, að þá eigi hv. þm. að hugsa sig tvisvar um, áður en þeir kasta frá sér tækifærum til að koma á fót stóriðju á Íslandi. Ég álít það eigi rétt að hræða menn með því, að 6 ár muni taka að koma þessari verksmiðju upp. Við megum ekki hugsa okkur um þetta, ef við ætlum á annað borð að skipuleggja efnahagsgrundvöll landsins. Þegar ákveðið var að smíða nýsköpunartogarana og rætt var um þá hér í Sþ. árið 1945, þurfti að hugsa fyrir þessu fjórum árum fyrr, en nú eru þeir allir komnir í gang og gefa okkur um 60 millj. kr. í erlendum gjaldeyri. En þá var verið að tala um það, hve þeir kostuðu í erlendum gjaldeyri. M.ö.o., við urðum að tala um þetta 4 árum áður, þó að við ættum að taka ákvörðun þá undir eins. Það er ekki seinna vænna að taka ákvörðun núna, ekki síður en þá. Í nál. minni hl. segir, að 6 ár muni taka að virkja Urriðafoss fyrir 100.000 kw. um það bil. Mun erfitt að útvega vélarnar, og getur þetta verið rétt. En hitt efast ég ekki um, að hægt væri að gera þetta á skemmri tíma, ef unnið væri af krafti. Undirbúningurinn þyrfti ekki að taka nema 2–3 ár. Sama máli gegnir um áburðarverksmiðjuna. En ganga verður þá í þetta nú þegar. Hitt er annað mál, er athuga ber: Í fyrsta lagi: Er þetta ekki ofvaxið okkur? Og í öðru lagi: Verður markaður fyrir hendi fyrir framleiðslu verksmiðjunnar? Hv. frsm. meiri hl. kom réttilega inn á þetta, — að varðandi þessi efni er það þetta, sem auðhringarnir miklu láta sig skipta. Hann gat þess, að vandamálið snerist um það, hvort við beinlínis þyrðum að leggja út í þetta fyrirtæki. Við þurfum að vita, að þetta krefst hugrekkis og harðvítugrar baráttu. Það eru stærstu auðhringarnir í Vestur-Evrópu, í Englandi, Frakklandi, Vestur-Þýzkalandi og Noregi, sem eiga áburðarverksmiðjurnar, og einmitt af þeirri ástæðu er gróðinn af framleiðslunni svo gífurlegur sem raun ber vitni. Þegar sjómenn, verkamenn og bændur á Íslandi starfa að afurðaframleiðslu sinni, finnst þeim gott að hafa 15–20% upp úr krafsinu, hvort sem nú er um bát að ræða eða annað. En hringarnir reikna með 50–100% ágóða a.m.k. Ef Íslendingar reikna með 1.133 kr., hringarnir taka 21.50 kr. og leggja þar með 100% á þetta, þá eru hinir síðarnefndu þar með að sölsa undir sig arðinn af striti hins vinnandi fólks. Hitt verðum við að gera okkur ljóst, að við erum nú að taka upp baráttuna gegn þessum hringum. Það er þetta, sem táknar harða baráttu. Hæstv. ríkisstj. hefur séð, að við ramman er reip að draga. Ég veit, að þau ríki, er að Marshallsamstarfinu standa, muni segja við okkur í París: „Þið þurfið ekkert að vera að hugsa um áburðarframleiðslu. Við skulum sjá ykkur fyrir henni.“ Hringarnir vilja nefnilega græða á okkur. Og þeir munu segja, að Íslendingar eigi ekki að nytja sitt fossaafl. En á sama tíma leyfa þeir Þjóðverjum að vinna kol og Ítölum að virkja fossana. Við verðum að halda því fram, að Íslendingar eigi sama rétt á að hagnýta sér fossana sína og koma á fót hjá sér stóriðju og aðrar þjóðir auðlindir sínar. Er nú lífsnauðsyn, að við stöndum fast á þessum rétti. Við megum ekki láta beygja okkur. Við eigum rétt á að hagnýta okkur þær auðlindir, er fossarnir eru okkur. Þegar Vestur-Evrópuþjóðir tala um réttindi, þá þurfum við að sýna, að við viljum halda í þau. En vilji þær ekki styðja okkur, þýðir það eyðileggingu fyrirætlana okkar. Ef þessar þjóðir halda því fram, að við getum komið okkur upp lítilli áburðarverksmiðju og þær muni ekki verða okkur Þrándur í Götu, þá er hugsunin hjá þeim sú, að við munum ekki verða samkeppnisfærir. Hringarnir vilja láta okkur eyða fé til þess, svo að frekari grundvöllur útflutningsframleiðslunnar verði eigi fyrir hendi. Ég held því, að til þess að reisa 30.000 tonna verksmiðju sé vandamálið það, hvort við getum byggt upp stóriðju hér á landi eða ekki. En við glötum þessu tækifæri, ef við hikum núna. Ég álít, að við ættum að geta þolað þetta fjárhagslega. Peningarnir eru ekki svo miklir, borið saman við aðrar fjárfestingar, að okkur þurfi að hrjósa hugur við. Hæstv. ráðh. sagði, að kostnaðurinn yrði um 270 millj. kr. En þriðjungurinn af virkjun Urriðafoss mun ganga til að fullnægja almennri eftirspurn. En, jafnvel þótt reiknað sé með 270 millj. kr. kostnaði og við yrðum að leggja eitthvað að okkur, þó að hart væri aðgöngu, þá yrðu þetta aðeins 10 millj. kr. framlög á ári hjá þjóð, er hefur yfir þúsund milljóna króna tekjur á ári. Henni er þetta kleift, ef hún vill leggja eitthvað að sér. Hins vegar má segja, að borgi það sig fyrir okkur á annað borð að taka lán, þá er það til þvílíkrar verksmiðju, fyrirtækis, sem gerir okkur sterkari gjaldeyrislega. Ég veit, að frændur vorir, Norðmenn, keppast við að herða sig með áburðarframleiðsluna. Þeir eru og að bæta við sig stórkostlega mikilli raforku. Í fjárhagsáætlun þeirra fyrir árið 1949, sem lögð er fyrir Stórþingið, segir frá því, hvernig þeir eru að hleypa hverju fyrirtækinu af öðru af stokkunum. Með leyfi hæstv. forseta: „Av særlig viktighet er fullfaringen av en rekke investeringer í kraftutbyggingen. Måranlegget vil í lepet av siste kvartal 1948 og ferste halvör 1949 komme inn med en kapasitet på ca. 144.000 kw. Holsanlegget vil komme í gang í ferste halvár 1949 med 80.000 kw. Gronsdal kommer inn í 1948 med 23.000 kw. og Daleanlegget vil komme inn í 1949 med ytterligere 14.000 kw. Ivelandsanlegget ved Kristiansand vil í 1949 bli ferdig med ca. 32.000 kw. Et nytt aggregat blir ferdig í Glomfjord, og vil nár ammoniakkanlegget kommer í gang producere 250 mill. kw. årlig. í alt vil maskinkapasiteten í lopet av de to år oke med 410.000 kw. og gi et samlet tilskudd på 2.15 milliarder kilowatt-timer årlig. Til sammenligning kan nevnes at kapasiteten í 1938 var 2.11 mill. kw., og produksjonen 9.6 milliarder kilowatt-timer.“ (Nasjonal-budsjettet 1949, 17. bls.). Norðmenn hraða því byggingu raforkuvera sinna af kappi. Eru þeir m.ö.o. með 5–6 raforkuver á prjónunum, sem öll á að taka til notkunar 1949. Í sömu skýrslu segir svo um köfnunarefnisframleiðsluna: „Produksjonen av kvelstoffgjadsel ventes å oke fra ca. 85.000 tonn í 1948 til 108.000 tonn í 1949, Nesten hele ekingen på 23.000 tonn med en verdi på ca. 37 mill. kroner etter de ndgjeldende priser vil bli eksportert. (Anslaget bygger pö den forutsetning at de pdgáende utvidelser av Norsk Hydros anlegg kan fortsettes etter programmet og at bedriften får tilstrekkelig elektrisitet til sín lopende produksjon.)“ (31.–32. bls.). Norðmenn, frændur vorir, auka því útflutninginn gífurlega. Og þeir vita, hvað þeir eru að gera. Þeir vilja hagnýta sér auðlindir landsins. — En við stöndum betur að vígi en Norðmenn, hvað vatnsaflið snertir. Þeir hafa áhyggjur af jöklabráðnuninni í Noregi. Hins vegar er víst, að á Íslandi mun vatnsmagnið í ám og vötnum haldast líkt og nú um langan aldur, þó að annað bregðist, t.d. fiskimiðin, er allt útlit er fyrir, að tæmist, ef eigi verður komið meira viti í búskap heimsins, en nú er. Ég held því, að þegar Norðmenn o.fl. keppast við að auka framleiðsluna í slíkum mæli, þá megum við ekki skjóta framkvæmdum á frest. Við verðum að leggja í þetta núna. Einhver kann þó að álíta, að of seint sé orðið að leggja í slíka hluti sökum minnkandi markaða, þegar framleiðslan eykst svo hratt. Þó er það rétt, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að þörfin fer vaxandi í heiminum fyrir áburð sökum aukinnar ræktunar til að sjá mannkyninu fyrir matvælum. Og ólíklegt er því, að vandræði verði af markaðsleysi. Ég skal vitna til skýrslu Marshallnefndarinnar í árslok 1946. Þar er gengið út frá því, að auka þurfi framleiðslu allra Marshalllandanna, Frakklands, Englands, Belgíu og Noregs og Vestur-Þýzkalands úr 960 þús. tonnum 1946 upp í 2 millj. tonna 1951. Hér er því um rúma tvöföldun að ræða á 5 árum. En ég vil biðja menn að athuga, að leiðréttingar eru með skýrslu þessari á sérstöku blaði, og gætti ég þeirra, er ég las upp tölurnar. Þrátt fyrir þessa tvöföldun er reiknað með, að árið 1951 verði enginn afgangur til útflutnings af áburðarframleiðslu þessara landa nema um 39 þús. tonn. Það er allt og sumt, sem lönd þessi reikna með að flytja út, öll framleiðslan muni ganga til þess að fullnægja þörfinni á gagnkvæman hátt, en afgangurinn verði aðeins þessi. Við verðum að gá að því, að lönd þessi hafa verið síðan fyrir stríð langstærstu köfnunarefnisframleiðendur heimsins. Þar getur orðið markaður fyrir köfnunarefnisáburð. Þau verða jafnvel ekki sjálfum sér nóg fyrr en árið 1951 og reikna þá sjálf aðeins með um 39 þús. tonna afgangi. En hefðum við Íslendingar verið búnir árið 1945 að koma okkur upp verksmiðju og hefðum síðan lagt grundvöllinn næstu árin, þá ætti áhættan að hafa orðið hverfandi lítil. Markaður fyrir áburð er mikill í allri Ameríku, töluverður í Austur-Evrópu og sívaxandi í Asíu og Afríku. Hvað veröldina snertir í heild sinni eykst áburðarþörfin stórum, því að mennirnir hafa farið illa með jarðveginn, meira að segja ber hann þess menjar þar, sem hann er þó talinn beztur, í Suður-Rússlandi („svarta moldin“) og víðar. Þarf mikið af áburðarframleiðslu heimsins aðeins til að halda lífinu í mannfólkinu. Ég tel því minni ástæðu til að vera óttasleginn varðandi áburðarframleiðsluna en margt annað. Smáþjóðir eins og vér Íslendingar hafa ævinlega mikið að óttast, t.d. nefni ég markaðshorfurnar á þessu ári fyrir fiskinn okkar. Ég efast um, að hæstv. ríkisstj. sé örugg um markaði fyrir hina tíu nýsköpunartogara. Ég býst því við, að fullvíst megi telja, að viljum við lífi halda, þá sé okkur óhætt að þora að leggja í framleiðslu gróðavöru við hin hagkvæmu skilyrði, sem eru fyrir hendi. Ég tel, að við ættum að hafa því betri aðstöðu á þessu sviði, þeim mun frekar sem við verðum að verjast á öðrum sviðum, og eitt af því, sem við værum bezt tygjaðir með, er stór köfnunarefnisverksmiðja rekin með það fyrir augum, að hún geti staðizt samkeppni. Ég er alveg sammála því hjá hæstv. atvmrh., að það væri mjög æskilegt að geta fyrir fram tryggt markað fyrir þessa vöru og aðrar, sem við seljum út úr landinu, og í samræmi við þá skoðun mína lagði ég fram till. við ríkisstj., að fjárhagsráði væri falið að undirbúa stóriðju á Íslandi og reyna jafnframt fyrir sér um samninga við aðrar þjóðir til langs tíma, en þessu var ekki sinnt. Aðrar þjóðir hafa farið þessa leið, eftir því sem mögulegt hefur veríð, t.d. hafa Englendingar gert samning við Pólverja til 5 ára. Það er auðvitað sjálfsagt að athuga markaðsmöguleika, áður en við leggjum út í stóriðju, og þann undirbúning ætti sú nefnd að sjá um, sem falinn væri undirbúningur að byggingu verksmiðjunnar.

Ég vil leggja áherzlu á það atriði í till. minni hl. n., að kosin verði 5 manna nefnd til að stjórna undirbúningi að þessu fyrirtæki, því að það er mikið verk og veltur mikið á, að til alls undirbúnings sé vandað, og um svo stórkostlegt átak má ekki vera pólitískur reipdráttur.

Þá minntist hæstv. ráðh. á Þjórsá. Ég hef áður á þessu þingi gert fyrirspurn til ráðh. varðandi vatnsréttindi í Þjórsá og fékk þá það svar, að eftir íslenzkum l. gætu íslenzk stjórnarvöld tekið þau réttindi án frekari samninga, en ríkisstj. þótti réttara að gefa h/f Titan, sem fyrir löngu hafði keypt réttindin, möguleika á að koma sínum málum í lag eftir styrjöldina og að ríkisstj. hæfi síðan samninga við félagið um kaup á umræddum réttindum, og taldi hæstv. ráðh. miklar líkur fyrir, að hægt væri að komast að hagkvæmum samningum við félagið, svo að það ætti ekki að vera til fyrirstöðu í þessu máli.

Nú gæti ég hugsað mér, að einhverjir kæmu með þær mótbárur, að með því að virkja Urriðafoss og reisa 30 þús. smál. köfnunarefnisverksmiðju, þá væri skapað verulegt misrétti í landinu, þar sem nærliggjandi héruð við slíka virkjun hefðu af henni svo mikil hlunnindi, en hins vegar mundu aðrir landshlutar verða út undan, a.m.k. hvað rafvirkjanir snerti. Ég er þeirrar skoðunar, að rafvirkjanir á öllum þeim sveitabýlum, sem ekki eru í alfaraleið, hljóti í framtíðinni að byggjast á dieselrafstöðvum frekar, en stórum rafveitum. En bæði til kaupa og rekstrar þessum stöðvum þarf erlendan gjaldeyri, en með þeirri stóriðju, sem hér um ræðir, væri skapaður grundvöllur fyrir auknar gjaldeyristekjur, og af því mundu áreiðanlega allir landshlutar njóta góðs. Það er líka víst, að þetta væri tryggari leið en þó að við samþ. þál. um innflutning dieselstöðva, svipaða jeppasamþykktinni fyrir skömmu, vitandi vits, að enginn gjaldeyrir er til. Ég álít, að málið þurfi ekki að tefjast lengur, þó að horfið væri að stóriðjunni, og ætti hún að geta verið komin upp 1956, en fyrr væri varla lokið við minni verksmiðju, þar sem Sogsvirkjuninni nýju verður varla lokið fyrir þann tíma. Þar sem málið telst ekki við samþykkt um stóra verksmiðju, þá ber þegar að hefjast handa. Það er engu spillt, þó að þegar sé hafin athugun á þessu máli, og væri þá fyrsta skrefið að kjósa 5 manna nefnd, sem þegar tæki til starfa.

Það þótti liggja mikið á að fá samþykkt um sementsverksmiðju í fyrra, en nú er fyrst nýbúið að skipa nefnd til að rannsaka málið. Ég er sannfærður um, að það er hægt að hrinda þessu máli í framkvæmd, ef þjóðin fæst til að sameinast um það. Það er illa farið, ef till. meiri hl. n. verður samþ. og þess vegna vil ég vara þm. alvarlega við og biðja þá, sem hingað til hafa fylgt því sjónarmiði, að endurskoða afstöðu sína. Það hafa nú þegar tapazt 2 ár í sambandi við undirbúning að stóriðju á Íslandi, en slíkt má ekki endurtaka sig.