08.04.1949
Efri deild: 84. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

16. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og nál. bera með sér, varð landbn. ekki að öllu leyti sammála um afgreiðslu málsins. Málið var nokkuð fljótt afgr. í n., eða á fyrsta fundi hennar um það, og þótt áburðarverksmiðjunefndin sæti fundinn líka, taldi ég ástæðu til nánari athugunar. Þó var enginn ágreiningur um það, hvort reisa ætti verksmiðju, allir voru sammála um, að áburðarverksmiðju þyrfti að reisa. Ágreiningurinn var um það tvennt, hve stór verksmiðjan ætti að vera og hvort rétt væri að ætla verksmiðjunni rafmagn frá Soginu, þótt ekki væri hún stærri, en gert er ráð fyrir í frv. Um þetta var ágreiningurinn, því að ég álít, að verksmiðjan eigi að vera miklu afkastameiri en frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar er ég samþykkur brtt. meiri hl. n. og tel þær til bóta.

Mál þetta hefur verið rætt mikið hér í þinginu í vetur, og árangurinn er þó sá, að gert er nú ráð fyrir nokkru stærri verksmiðju, en upphaflega var gert. En sú stækkun útheimtir að sjálfsögðu aukið rafmagn, og er varla nóg tillit tekið til þeirrar staðreyndar.

Áburðarverksmiðjumálið er langt frá því að vera nýtt af nálinni. Það kom fyrst fram hér á Alþ. á árunum 1939–37 og var fyrst athugað til hlítar af skipulagsnefnd atvinnumála, sem starfaði á þeim árum og átti að koma atvinnulífi landsmanna á skynsamlegan grundvöll. Hún fékk erlendan verkfræðing sér til aðstoðar og skilaði allýtarlegu áliti og tillögum í þessu máli. En þá var ekki gert ráð fyrir svipaðri framleiðslu og nú er þó gert ráð fyrir, heldur aðeins mjög lítilli verksmiðju, en síðan hefur reynslan leitt í ljós, að hefði verið farið svo smátt af stað, hefði framkvæmdin reynzt ónýt eða því sem næst. Þá var líka aðeins gert ráð fyrir að framleiða eina tegund áburðar, en það veit bóndinn einn, hve gott er að hafa allar áburðartegundir fyrir jörðina. Þetta liggur svo í láginni þar til 1944. Þá var flutt stjfrv. um, að ríkið skyldi reisa verksmiðju til að framleiða ammóníumnítrat eða ammóníumsaltpétur, sem þá var nýlega farið að nota í Ameríku, og var þar ekki gert ráð fyrir stærri verksmiðju en svo, að hún væri þegar orðin allt of lítil. Þessu frv. var þá vísað frá með þeim rökum, að ekki væri nægilegt rafmagn fyrir hendi, og enn hefur reynslan sýnt, að þau rök voru rétt, því að þótt síðan hafi verið reist 7.500 kw. eimtúrbínustöð hér við Reykjavík og kölluð varastöð, þá hefur hún alltaf þurft að vera í gangi, og ekki er að tala um afgangsrafmagn. Þá mun einhverjum hafa dottið í hug að reisa áburðarverksmiðjuna á Akureyri, en þar er þegar orðið allt of lítið rafmagn. [Frh.]