06.12.1948
Neðri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

8. mál, Landsbókasafn

Finnur Jónsson:

Ég gerði við 2. umr. nokkrar fyrirspurnir til hv. frsm. menntmn. í sambandi við þær breyt., sem gerðar eru með þessu frv. frá eldri l. Ég hef síðan athugað málið nánar, og mér virðist, fyrst farið er að endurskoða gildandi l. um landsbókasafnið, þá hefði mátt taka fleira fram um hlutverk safnsins, en gert er í þessu frv. Í 1. gr. frv. er talað um hlutverk landsbókasafnsins, og er það í fjórum liðum:

1. Að annast söfnun og varðveizlu íslenzkra rita og rita, er varða Ísland eða íslenzk efni, fornra og nýrra, prentaðra og óprentaðra;

2. að halda uppi safni erlendra bókmennta í öllum greinum vísinda, lista, tækni og samtíðarmálefna;

3. að annast rannsóknir í íslenzkri bókfræði; 4. að vinna að kynningu íslenzkra bókmennta og íslenzkrar menningar á erlendum vettvangi.

Hins vegar er ekki tekið fram, hvaða not eigi að hafa af safninu innanlands. Það á að safna öllum mögulegum bókum, og það á að vinna að kynningu íslenzkra bókmennta á erlendum vettvangi. En að það eigi að vinna að kynningu þessa stóra safns á innlendum vettvangi, um það er eigi talað. Nú hefur þetta verið gert, og það er einkennilegt, fyrst verið er að endurskoða l., að ekkert skuli vera sett um það í frv., hvað safnið eigi að gera hér heima, ekki sízt, ef með þessu frv. er fjölgað starfsmönnum við safnið úr 3, eins og það er í l. frá 22. nóv. 1907, og upp í 6 eða 7. Maður skyldi halda, þegar búið væri að fjölga starfsmönnum safnsins úr 3 upp í 7, þá ættu þeir að gera eitthvað sérstakt annað, en að safna bókum.

Eitt af hlutverkum landsbókasafnsins á að vera að vinna að kynningu íslenzkra bóka erlendis, en ekki er sagt, hvort það skuli vera með ferðalögum til annarra landa með íslenzkar bækur til kynningarstarfsemi, og þá virðist ekki óþarft að ákveða, hvernig eigi að kynna þær hér á landi, til þess að safnið komi að gagni. Það má vel vera, að búið sé að fjölga landsbókavörðum frá því, sem er í l. frá 1907, en þá er það gert án þess, að til þess sé nein lagaheimild. Það kann að vera, að tala bókavarða hafi verið sett í launal., en breyt. á l. hafa ekki verið gerðar.

Í tilefni af því, að eitthvað mætti standa í þessari endurskoðuðu löggjöf um hlutverk safnsins inn á við, vil ég leyfa mér að flytja svo: hljóðandi brtt.:

„Við 2. gr. bætist nýr liður, er verði tölul. b., svo hljóðandi: að efla bókfræðiiðkanir, m.a. með því að gefa landsmönnum kost á að kynna sér innlendar og erlendar bækur, sem í safninu eru.“

Ég get ekki skilið, að n. hafi neitt á móti því, að ég beri fram till. um að setja inn í þessa endurskoðuðu löggjöf ákvæði um, að safnið verði landsmönnum að sem mestum notum, en ekki sé eingöngu hugsað um bókasöfnun.