07.04.1949
Efri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

158. mál, ríkisreikningar 1945

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. 1. landsk. var að draga það í efa, að upplýsingar fjmrh. væru réttar, en vafalaust kemur hv. þm. með upplýsingar um það síðar gegnum meðstarfsmenn sína í Nd., að hér hafi verið hallað á yfirskoðunarmennina að ósekju.

Hann segir, að það sé ekki venja að taka til starfa við yfirskoðunina fyrr en reikningarnir séu prentaðir. En ég get ekki séð, hvers vegna þarf að vera að halda þeirri venju, þegar það er ljóst fyrir löngu, að prentaðir reikningar liggja ekki fyrir fyrr en mörgum árum eftir að þeir eiga raunverulega að vera tilbúnir.

Það er alveg rétt, að yfirskoðunin er ekki krítísk endurskoðun, yfirskoðunarmennirnir eru ekki endurskoðendur, heldur framkvæma þeir aðeins pólitíska skoðun. Þess vegna er þetta létt verk, þó að mikið sé af fylgiskjölum, sem þeir þurfa að athuga.

Ég skal ekki þreyta hv. þm. með því að vera að fara frekar út í þetta, en ég verð þó að taka það fram, að mér finnst það vera margir liðir í reikningnum, sem yfirskoðunarmennirnir þurfa ekki að líta á. (SÁÓ: Það þarf að endurskoða hverja tölu.) Ef það er meining og álit hv. þm. að hafa svo nákvæma endurskoðun, þá er það annað en ég hélt. Þessir menn eru kosnir af þinginu til þess að athuga (HV: hvort um pólitískt hneyksli sé að ræða í sambandi við hann.) Já, til þess að athuga, hvort um nokkurt pólitískt hneyksli sé að ræða í sambandi við fjárgreiðslur ríkisins. Einmitt af þessum ástæðum sést það, að hlutverk yfirskoðunarmannanna er annað, en krítísk endurskoðun, svo að þess vegna er það engin afsökun, hvað skoðunin hefur dregizt.