07.05.1949
Neðri deild: 103. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

158. mál, ríkisreikningar 1945

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði. Hann er, eins og kunnugt er, einn af þeim mönnum, sem af hálfu þingsins hafa endurskoðað ríkisreikningana nú að undanförnu.

Út af því, sem ég sagði um ósamræmi milli reikninga einstakra sjóða og ríkisreikningsins, þá nefndi hann, að þetta gæti ef til vill verið þannig, að reikningum sjóðanna hefði verið lokað fyrr, en ríkisreikningnum og einhverjar greiðslur hefðu farið fram, frá því er reikningum sjóðanna var lokað og þar til ríkisreikningurinn var gerður. Ég skal ekki lasta, þótt forráðamenn sjóða séu fyrr á ferðinni með reikninga sína en fjmrh., en ég vil benda á, að þetta er ekki frambærileg skýring á því ósamræmi, sem þar er. Þarna eru tveir sjóðir, sem eru eign ríkisins og eru talsverðar upphæðir, og telur ríkissjóður þá með eignum sínum. En fyrir það ósamræmi, sem þarna er, verður hrein eign sjóðanna nokkru meiri ,en verið hefur, og eru þeir færðir með eignum á aðalefnahagsreikningi ríkisins. Fyrir þetta verður eign ríkisins oftalin. Þetta geta endurskoðendurnir athugað nánar milli umr., því að þetta er aðeins 2. umr. málsins. Ég vil benda á, að það væri æskilegt, að slíkt ósamræmi í reikningsfærslu og uppgjöri hjá ríkisfyrirtækjum og ríkissjóði ætti sér ekki stað.

Viðvíkjandi þessu máli yfir höfuð og hvað ríkisreikningurinn væri seint á ferðinni, þá gat hv. 1. þm. Árn. þess, að þeim væri seint lokað, t.d. ríkisreikningnum fyrir 1947 ekki fyrr en í október 1948. Það er ástæðulaust fyrir fjmrn. að halda reikningnum svo lengi opnum. En ég vil þó benda á það, eins og þegar hefur verið gert af öðrum, að síðan þessum ríkisreikningi var lokað og til þessa dags er liðið meira en hálft ár, og eitthvað hefði mátt gera á þeim tíma, og það mun vera farið að nálgast tvö ár, síðan lokað var ríkisreikningnum fyrir 1946, og þó höfum við ekki fengið hann enn. Það virðist hafa farið mjög versnandi með ríkisreikninginn, eftir að Sjálfstfl. tók við fjármálastjórninni sællar minningar fyrir 10 árum síðan, því að áður var ríkisreikningurinn miklu fyrr á ferðinni. T.d. á fyrra þinginu 1938 var lagður fram ríkisreikningurinn fyrir 1936 og gengið frá honum á því þingi, en síðan fór þetta fljótlega að versna og hefur verið í þessu slæma lagi síðan.