28.04.1949
Neðri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

134. mál, eignarnám lóða í Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá Ed. og fjallar um að fá eignarnámsheimild á lóðum vegna byggingar Menntaskólans í Reykjavík. Þessar lóðir eru ætlaðar til þess að reisa á viðbótarbyggingu við menntaskólann, sem gæti í framtíðinni orðið þáttur í skólabyggingu á þessum stað, ef ákveðið yrði að láta skólann standa áfram þar, sem hann nú er. Hins vegar er líka gert ráð fyrir, að þetta geti orðið hluti af öðrum byggingum, ef skólinn yrði færður af þessum stað. Þetta er gert að mjög athuguðu máli og farið fram á þessa heimild til að leysa málið úr þeirri sjálfheldu, sem það hefur verið í, án þess að tekin sé ákvörðun um það viðkvæma deilumál, hvar skólinn verði látinn standa í framtíðinni. Að sjálfsögðu er hægt að gefa hv. nefnd nánari upplýsingar, ef þess verður óskað.