04.05.1949
Efri deild: 96. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. 2. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég get orðið við þeim tilmælum form. sjútvn. að lengja ekki verulega þessar umr. og það því frekar, þar sem hann í sinni ræðu hefur ekki farið efnislega í sínar brtt., en vísað aðeins í nál. sitt. Hins vegar veit ég ekki, hvort heppilegt er að sneiða hjá efnislegum umr., ef þm. virðist það skipta máli, hver hin efnislegu ágreiningsatriði eru, sem n. klofnaði um. En þar sem hv. form. hefur latt til þess, þá mun ég stilla máli mínu í hóf, en vil þó drepa á mínar till. og ástæðurnar fyrir því, að ég hef ekki getað átt samleið með öðrum nm. um afgreiðslu málsins. En eins og komið er fram í nál. og drepið hefur verið á í þeim umr., sem orðnar eru, þá er ég að ýmsu leyti sammála form. n. og mun greiða atkv. með mörgum af hans brtt. á þskj. 614. Ég er alveg sammála form. um það veigamikla atriði, að sá háttur verði á hafður við uppbyggingu frv., að sérstakri n. verði falið að ákveða bótatímabil, skiptingu veiðisvæða og flokkun skipa. Það eru varla möguleikar á að vinna það starf á þeim tíma, sem hér er til stefnu, og óheppilegt, að handahófsregla gildi við slík störf. Hins vegar er ég algerlega ósammála form. n. um önnur veigamikil atriði, einkum varðandi leiðir til tekjuöflunar fyrir sjóðinn og ákvæði um úthlutun bóta.

Í frv., eins og það liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að tekna verði aflað með því að taka ákveðna prósentu af brúttóafla skipanna og síðan leggi ríkissjóður jafnháa upphæð á móti.

Ég viðurkenni, að rétt sé að leggja gjöld á útgerðina til sjóðsins, en hins vegar tel ég, að ekki sé rétt að taka það gjald af sjómönnunum; þar sem þeir fá ekki aukna tryggingu með frv. Ég tel réttmæta till. form. um það, að bátaútvegurinn sé látinn greiða nokkurt iðgjald til sjóðsins. Hins vegar vil ég ekki hafa það nema 1/4% af útfluttum sjávarafurðum í stað 1/2% hjá form. n. Ég get ekki verið sammála form. n. um gjald af innfluttri vöru, þar sem ég hef ekki tryggingu fyrir, að það verði ekki lagt á vöruna, en færi svo, að það yrði gert, mundi slíkt hafa í för með sér aukna dýrtíð. Hins vegar hef ég lagt til, sem ekki fékk undirtektir í n., að verulegur hluti af tekjuöflun sjóðsins verði með þeim hætti að láta lánsstofnanir, sem skipta við sjávarútveginn og hafa haft af því gróða á undanförnum árum, þ.e.a.s. Landsbankann og Útvegsbanka Íslands, leggja tíunda hluta af nettóviðskiptahagnaði sínum í sjóðinn, og þá verður þessi hagnaður þannig, að fé sjóðsins verður ávaxtað til helminga hjá þessum lánsstofnunum, þannig að þær halda þessu fé sem sínu rekstrarfé, meðan það safnast í sjóðinn, þangað til, til sjóðsins kasta þyrfti að koma með bætur, þá tapast þetta fé einnig úr rekstri bankanna. Eins og ég sagði, fékk þetta ekki miklar undirtektir í n. Að vísu vildu menn ekki neita réttmæti þess, að þessar stofnanir tækju einhvern þátt í því að tryggja áframhaldandi starfsemi útgerðarinnar, því að það er ekki hægt að neita því, að bankarnir hafa þarna mikilla hagsmuna að gæta. En það, sem einkum var fært fram gegn þessu, var það, að þetta bryti í bága við það skattfrelsi, sem þessar lánsstofnanir hafa í l., og það verð ég að vísu að viðurkenna, að er rétt, en hins vegar, ef meiri hl. Alþ. hefur vilja til þess að afla sjóðnum fjár á þennan hátt, þá hefur það, eins og þm. vita, vald til að samþ. einnig að breyta ákvæðum um skattfrelsi bankanna á þann hátt, að þetta yrði samrýmanlegt. Þess vegna er ekki hægt að segja, að þingið geti ekki haft þetta mál á valdi sínu, ef það vildi aðhyllast þessa leið. Í þriðja lagi legg ég til, að ef tekjur sjóðsins samkvæmt 1. og 2. tölul. nema minna en 4 millj. kr., þá skuli ríkissjóður leggja til það, sem á vantar. Þetta eru þær höfuðtill., sem ég hef fram að leggja um tekjuöflun.

Hins vegar er líka verulegur ágreiningur um aðferðir við að bæta úr sjóðnum. Í frv. er settur upp bótastigi, eins og hv. þm. hafa kynnt sér. Í till. 1. minni hl., form. n., er hins vegar farin önnur leið í þessum efnum, sem mér finnst að sumu leyti nokkuð óljós. En að því leyti sem ég skil hana, þá finnst mér, að grundvallarhugsunin fyrir henni sé ekki réttlát. Mér skilst, að samkvæmt þeirri till. eigi að bæta skipum í viðkomandi flokki jafnt án tillits til aflamagns, að vissu hámarki. Ég get ekki fallizt á þessa grundvallarhugsun, heldur hef ég haldið mig við þá grundvallarhugsun, sem felst í frv., en tel hins vegar, að þær bætur, sem greiddar yrðu samkvæmt þeim stiga, séu of lágar. Það er að vísu hægt að deila mjög um það, meðan ekki hefur verið slegið neinu föstu um það, hvað telja skuli meðalaflamagn skips í hverjum flokki. En samkvæmt þeim athugunum, sem ég hef reynt að gera á þessu, virðist mér, að þær bætur, sem mundu verða greiddar eftir þessum bótastiga, mundu verða ófullnægjandi til þess að tryggja það á aflaleysisárum, að útgerðin gæti haldið áfram störfum, en það hlýtur að vera sá megintilgangur, sem frv. á að fela í sér. Að vísu er í frv., eins og það liggur fyrir, gert ráð fyrir því, að reiknað verði út meðalaflamagn skipa á tilteknu árabili undanfarið og bæturnar síðan miðaðar við það. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að komast að niðurstöðu um það, hvert meðalaflamagn mundi verða samkvæmt þeim útreikningi, en hvað síldveiðarnar snertir geri ég ráð fyrir, að vegna þeirra mörgu aflaleysisára, sem nú hafa verið í röð, mundi sá útreikningur gefa fremur lágt meðalaflamagn og ég er hræddur um, að það mundi verða það lágt, að með því meðalaflamagni og síðan þeim bótastiga, sem hér er ákveðinn í frv., mundu bætur til skipa á aflaleysisárum verða ófullnægjandi. En samkvæmt þeirri aðferð, sem form. n. og einnig ég viljum við hafa, er þetta þannig, að það verður ekki bundið skilyrðislaust við þessa útreikninga, heldur verða þeir hafðir til hliðsjónar. Nú má gera ráð fyrir því, ef samþ. verður till. form. um þessa nefndarskipun og ef sú n. verður skipuð á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, að a.m.k. sumir af nm. mundu hafa tilhneigingu til þess að setja aflamagnið sæmilega hátt, t.d. fulltrúar útgerðarmanna, því að það væri hagur útgerðarinnar að hafa það hátt. En hins vegar er það, að ef ágreiningur verður um þetta í n., þá er það ráðh., sem sker úr. Þó að n. út af fyrir sig sé sammála um eitthvert aflamagn, sem ráðh. þætti of hátt, þá er það á valdi hans að staðfesta ekki reglugerðina nema með því aflamagni, sem hann telur, að vera ætti. Hjá ráðh. hlýtur því að verða tilhneiging til þess að setja þetta aflamagn frekar lægra en hærra, til þess að koma í veg fyrir það, að sjóðurinn yrði strax þrotinn að fé fyrir bætur á árum, sem þó væri kannske ekki hægt að telja sérstök aflaleysisár. Þess vegna geri ég ráð fyrir því, að niðurstaðan verði sú, ef þessi aðferð verður viðhöfð, að meðalaflamagnið verði ákveðið frekar lágt, og með tilliti til þess er það, að ég komst að þeirri niðurstöðu, að þessi bótastigi hér í frv. muni vera of lágur. Ég hef því lagt til, að hann yrði hækkaður nokkuð, eins og felst hér í 3. brtt. á þskj. 619. Þar er stiganum breytt þannig, að í staðinn fyrir að í frv. er gert ráð fyrir, að hæstu bætur verði 40%, þá hef ég minn bótastiga með 50%, og í staðinn fyrir að í frv. nær bótastiginn ekki hærra en til skipa, sem veitt hafa 74.5% af meðalaflamagni, þá held ég mínum bótastiga áfram um skip, sem veitt hafa 85% af meðalaflamagni síns flokks. Þetta þýðir það, að t.d. skip, sem hefur veitt 45% af meðalaflamagni, fær samkvæmt frv. 40% bætur af því, sem á vantar meðaltal, og það mundi þá fá 67% af meðalafla, en samkvæmt mínum till. mundi þetta sama skip fá greitt 721/2% af meðalafla, samanlagt eigin afla og bætur. Nú er, eins og ég hef áður sagt, ekki vitað, ef þessi aðferð yrði viðhöfð, sem ég aðhyllist, hvert yrði ákveðið meðalaflamagn, svo að ekki er hægt að segja, hver fjárhagsafkoma þess skips yrði á viðkomandi vertíð. En ef gengið er út frá því, t.d. við síldveiðarnar fyrir Norðurlandi, að meðalaflamagn skipa í ákveðnum flokki væri 6.000 mál yfir vertíðina, þá þýðir það það, að skip, sem aflaði 45% af meðalafla, hefði í eigin afla 2.700 mál og vantaði þess vegna 3.300 mál á meðalafla og fengi því samkvæmt þeim till., sem nú felast í frv., 40%, þ.e.a.s. 1.320 mál, og hefði þá samanlagt í eigin afla og bætur úr sjóðnum 4.020 mála afla. Samkvæmt þeirri reynslu, sem fengizt hefur undanfarin ár, mundi þetta skip, eftir að hafa fengið þessar bætur, vera með aðeins rúmlega 2/3 af meðalafla í viðkomandi flokki. Þessi afli, rúmlega 4.000 mál, mundi eftir þeirri reynslu sem ég hef sjálfur af tveim síðustu síldarvertíðum, ekki vera næg trygging til þess að standa undir lágmarkstryggingu til skipverja, en það held ég, að sé lágmark, sem reikna verður með, að eigin afli skips og bætur úr sjóðnum verði að geta staðið undir. Ef farið væri eftir þeim till., sem ég geri hér, þá mundi þetta reikningsdæmi lita þannig út, að eigin afli skips væri sá sami, 2.700 mál, og mismunur 3.300 mál, en í staðinn fyrir 1.320 mál í bætur kæmu 1.650 mál. Þessi munur er að vísu ekki mjög mikill, en ég held, að það mundi samt riða baggamuninn um það, að skipið gæti staðið undir lágmarkstryggingu skipverja samkvæmt samningum stéttarfélaga við útgerðarfélögin, en það er það lágmark, sem ég álít, að eigi að liggja til grundvallar fyrir bótum úr sjóðnum. Um þetta mál skal ég svo ekki deila frekar á þessu stigi, vegna þess að þetta er það óákveðið mál enn þá, hvernig þetta meðalaflamagn er metið. En mín skoðun er sú, að meðalaflamagn sé ekki langt frá þeirri tölu, sem ég hef verið að nefna, og þó að meðalaflamagnið breytist eitthvað, þá verða hlutföllin þau sömu hvað meðalafla viðvíkur.

Þriðja brtt., sem ég flyt, að vísu nr. 1 í röðinni, er varðandi stjórn sjóðsins, endurskoðun og þess háttar. Ég vil leggja á það mikla áherzlu, að ekki verði hlaðið upp utan um þennan sjóð kostnaðarmiklu skrifstofukerfi, því að ég álit það fé, sem til hans er aflað, betur komið sem hærri bætur til útgerðarinnar heldur en það fari kannske talsverður hluti af því í slíkan stjórnarkostnað. Ég hef þess vegna lagt til, að stjórn sjóðsins verði ólaunuð. Í till. minni felst, að hún sé skipuð þrem mönnum, einn sé skipaður samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands, annar samkvæmt tilnefningu L.Í.Ú. og hinn þriðji samkvæmt tilnefningu Fiskifélags Íslands. Ég held, að það megi ganga út frá því sem gefnu, að allir þessir aðilar hafi mjög góð tök á því að skipa þessa stjórn mönnum, sem hvort sem er eru á föstum launum hjá þessum stofnunum og geta þess vegna unnið þetta starf, sem ekki yrði verulega mikið nema á þeim árum, þegar kæmi til bóta úr sjóðnum, án annarra launa en þeirra, sem þeir þegar hafa hjá viðkomandi stofnun. Ég held hins vegar, að þessar stofnanir hafi það mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við starfsemi þessa sjóðs, að þær mundu telja það vel til vinnandi að eiga þess kost að mega tilnefna menn í stjórn, þó að þeir væru ekki launaðir, heldur greiddu stofnanirnar þeim þau laun, sem þeir þyrftu að hafa við önnur störf. Ef það færi svo, að einhver þessara stofnana teldi, að ekki svaraði kostnaði fyrir sig að setja mann í stjórnina, án þess að hann fengi laun, þá set ég það ákvæði, að ráðh. skipi annan mann í staðinn, en ég held, að til þess muni ekki koma. Ég legg einnig til, að endurskoðendur ríkisins, sem eru fastlaunaðir menn, endurskoði reikninga þessa sjóðs án aukaþóknunar. Í þriðja lagi legg ég til, að Fiskifélag Íslands, sem fær allt sitt starfsfé frá ríkissjóði, skuli annast alla afgreiðslu fyrir sjóðinn án þess að taka fyrir það sérstök laun. Ætti þá ekki að þurfa að eyða neinu af því dýrmæta fé, sem aflað er til sjóðsins, í stjórnar- eða skrifstofukostnað, heldur væri hægt að nota það allt til þess, sem hlýtur að vera tilgangur sjóðsins, að bæta útgerðina, þegar mikinn aflabrest ber að höndum.

Ég skal svo ekki eyða lengri tíma í umr. um þetta mál að sinni. Ég geri ráð fyrir því, að þegar þetta mál kemur aftur á dagskrá eftir þær umr., sem nú er gert ráð fyrir, að fari fram milli sjútvn. beggja d., þá muni verða frekari umr. um það og einstök atriði, sem ágreiningur er um, og enn fremur þegar aðrir nm. hafa gert grein fyrir þeim till., sem þeir hafa að flytja um þetta mál.