06.05.1950
Efri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég er í vafa um, hvort ég er ekki í andarslitrunum. Ég mun vera búinn að tala þrisvar og verð því að vera stuttorður. (Forseti: Hv. þm. er frsm. og hefur talað tvisvar.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir, en ég skal samt stytta mál mitt.

Ég verð að byrja á því að svana hv. 1. þm. Eyf. (BSt). Það er alveg rétt, sem hann sagði, að það er ekki 1 millj. kr. skaði hjá ríkissjóði, þó að hans till. yrði samþ., en ég meinti, að till. hans mundi verða til að auka útgjöld ríkissjóðs um 1 millj. kr. á þessu ári, því að þá er ekki hægt að koma við þeirri skuldabréfagreiðslu, sem hér er gert ráð fyrir. Afleiðingin verður þá sú, að annaðhvort verður að hækka útgjöld fjárl. um 11/2 millj. kr. til útrýmingar sauðfjársjúkdómanna eða þá, að það verða takmarkaðir möguleikar til útrýmingar sauðfjársjúkdóma á því svæði, sem hagkvæmast og kostnaðarminnst þótti að taka fyrir að þessu. sinni. En ég er hræddur um, að það verði dálítið erfiður baggi fyrir ríkissjóð að bæta þessu á fjárl. og að það verði kannske þyngri skattur fyrir landsmenn yfirleitt, sérstaklega þau svæði, sem eru enn þá ekki búin að reka fjanda þennan af höndum sér og verða að búa við hann ári lengur eða meira vegna þess. Það hefði því verið manndómur af Eyfirðingum, sem hafa þó haft minnst af þessum vágesti að segja, ef þeir hefðu viljað gera hér sitt til, að unnt hefði verið að hraða þessu sem mest, og slakað hér til, en það verður mörgum að hugsa mest um eigin hag og kæra sig þá síður um, hvernig fer og gengur fyrir hinum. Ef Eyfirðingar vilja ekki taka við bréfunum, þá held ég, að sé ekki heldur hægt að gera ráð fyrir, að stofnanir þar verði fúsar til að taka þau eða það megi koma á frjálsum samtökum um að taka þessi bréf. Og hví má ekki ákveða beinlínis, að þeir taki við þessum bréfum, ef hv. þm. treystir sér til að koma á frjálsum samtökum um að koma bréfunum þar út? Ef þetta ákvæði hverfur, en brtt. hv. þm. verður samþ., þá hygg ég, að ekki verði gott að koma á frjálsum samtökum um að koma þar út bréfum frá Borgfirðingum eða Mýramönnum. Ég held því, að öllum væri fyrir beztu, að till. hv. þm. yrði felld.

Ég þarf ekki að taka það aftur upp, sem ég hef svarað hv. þm. Barð., en ég vil segja nokkur orð út af hinni skriflegu brtt. hans. Frá mínum bæjardyrum séð virðist mér ekki neitt til fyrirstöðu að samþ. hana, því að hún raskar ekki því, sem áður var. Ég hef þó ekki kannað, hvað mikinn kostnað gæti af þessari till. leitt, en því aðeins mun hún borin fram, að einhverjir munu nota sér hana, og getur verið, að þeir séu ekki mjög fáir. En það hygg ég, að 1947 hafi ekki verið gert ráð fyrir, að fjárskipti yrðu sunnan Hvítár á árinu 1950. Þess vegna hygg ég, að ekki hafi margir farið í niðurskurð í því trausti, að það mundi verða, og þess vegna er síður ástæða til að koma þessu að.

Ég held, að það sé búið að tala svo mikið um þetta mál, að við munum hvorugur sannfæra annan, en hvað mig snertir þá get ég vel fallizt á, að atkvgr. um málið sé nú frestað, þangað til síðar. Það tefur ekki málið mjög mikið, enda er það nú til síðustu umr. hér, og vona ég, að það þyrfti þá ekki nema eina umr. í Nd., og a.m.k. yrði það þá ekki nema ein atkvgr. hér, ef það kæmi aftur til einnar umr., því að ég trúi ekki, að það verði farið að hrekja það í Sþ. Ég get því fallizt á, að atkvgr. verði látin bíða til næsta fundar.