04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

38. mál, fjárlög 1950

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér nokkrar brtt. á þskj. 633, sem útbýtt var í fundarbyrjun. Í fyrsta lagi er það fyrsta till. á þskj. 633, sem er brtt. við brtt. fjvn. varðandi framlag til fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Meiri hl. fjvn. hefur að vísu lagt til, að þetta framlag hækki um 50 þús. kr. frá því, sem er í frv., og er þá framlagið komið upp í 350 þús. kr. eftir till. meiri hl. fjvn., en ég hef leyft mér að leggja til, að það verði hækkað í 500 þús. kr. Ég geri nú ráð fyrir, að öllum hv. þm. sé kunn þörfin á þessari sjúkrahúsbyggingu, enda hefur hún áður verið viðurkennd af Alþingi, í fyrsta lagi með lagasetningu um fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og síðan með fjárframlagi til þess. En vegna þess, hve þörfin er brýn fyrir sjúkrahúsið, þá tel ég þegar vera orðinn of mikinn drátt á byggingu þess og nauðsynlegt nú að leggja allt kapp á að ljúka byggingu þess og fullgera, svo að það geti tekið til starfa, a.m.k. er nauðsynlegt að leggja svo mikið fé til þess nú, að það þurfi ekki að dragast í mörg ár enn, að það geti tekið til starfa. Byggingu þess er nú það langt komið, að húsið sjálft er að mestu leyti tilbúið. Að vísu er enn eftir að ganga frá ýmsu innanhúss, t.d. gólfum, og enn er eftir að dúkleggja og mála þó nokkuð og dálítið fleira, en það má þó segja, að húsið sjálft sé tilbúið. Það er nú búið að verja tæpum 4 millj. kr., eða nánar 3.8 millj. kr., til byggingarinnar. Eins og kunnugt er, á ríkissjóður að greiða 3/4 byggingarkostnaðar, en þó hefur ríkið ekki enn greitt nema um 1.7 millj. kr. til byggingarinnar, og það þýðir, að ríkið er nú þegar farið að skulda vegna byggingarinnar á milli 1.1 og 1.2 millj. kr., eftir því sem ég hef komizt næst, en þessar upplýsingar mínar hef ég eftir upplýsingum, sem framkvæmdastjóri byggingarinnar hefur gefið bæjarstjórninni á Akureyri. Nú er það svo, þótt byggingin sé komin svona langt, að þá er enn eftir mikill kostnaður, sem liggur að mestu leyti í hinum dýru tækjum, sem nauðsynleg eru, til þess að stofnunin geti tekið til starfa. Þessi tæki eru nú öll í pöntun, og er fjárþörf sjúkrahússins á þessu ári, m.a. til þess að leysa út þessi tæki, ekki áætluð minni en 1.3 millj. kr. Það liggur því í augum uppi, bæði vegna þess, hve ríkið er orðið á eftir með sínar greiðslur, og einnig vegna þess, hve fjárþörfin er mikil, að þá er alveg ófullnægjandi að veita ekki meira en 300 eða 360 þús. kr. til þessarar byggingar á yfirstandandi ári. Og ef ríkið sér sér ekki fært að hraða meira greiðslum sínum, jafnvel með lántöku ef ekki öðru, þá mundi það dragast um árabil, svo að ég segi ekki meira, að ljúka byggingu sjúkrahússins og búa það þeim tækjum, sem nauðsynleg eru til þess að það geti tekið til starfa. Vildi ég segja, að slíkt væri illa farið. Nú hef ég þó ekki séð mér fært að flytja till. um meira en 500 þús. kr. framlag á þessu ári, sem þó er alveg lágmark, en það mundi samt taka ríkissjóð, samkv. áður gefnum upplýsingum, 3–4 ár að ljúka að fullu sínum lögboðnu greiðslum til sjúkrahússins. Ég vildi þó vona, að þótt það dragist í ein fjögur ár enn, að ríkið lyki við að greiða allt sitt framlag, þá gæti Akureyrarbær útvegað það mikið fé til stofnunarinnar, að hún gæti tekið til starfa innan langs tíma, en ef fjárveitingin fer niður úr 500 þús. kr. nú, þá býst ég við, að það mundi tefja allar framkvæmdir mjög. Ég vil því leyfa mér að vona, að hv. þm. líti með sanngirni á þetta nauðsynjamál, svo að það þurfi ekki að dragast meira en orðið er að fullgera þessa byggingu, og vona ég einnig, að hv. þm. viðurkenni, að till. minni er mjög í hóf stillt, miðað við allar aðstæður, sem fyrir hendi eru. Ég vil einnig taka fram, að Akureyrarbær hefur getað útvegað og lagt fram svo mikið fé til byggingarinnar, að hlutföllin eru nú þannig á milli framlags ríkisins og bæjarins, að Akureyrarbær hefur greitt meira til þessarar byggingar en ríkið, þótt hann eftir lögunum eigi ekki að greiða nema 1/4 af kostnaðinum á móti 3/4 frá ríkinu.

Þá flyt ég einnig aðra till. á sama þskj. undir 2. lið, sem er um framlag til Öxnadalsheiðarvegar. Það hefur nú borið svo undarlega við, að eftir að árum saman hafa verið veittar allháar upphæðir, allt að 3/4 millj. kr., til ýmissa hluta aðalleiðarinnar frá Reykjavík til Norðurlandsins, þ. á m. til Siglufjarðarskarðsvegar, vegarins til Ólafsfjarðar og svo til Öxnadalsheiðarvegar, og allir þessir vegahlutar fengið tiltölulega stórar upphæðir, þá á nú, eftir að þessum vegahlutum er lokið öllum nema Öxnadalsheiðarveginum, að draga verulega úr framlaginu til Öxnadalsheiðarvegarins, í stað þess að leggja alla áherzlu á að ljúka lagningu þessa vegar, en um hann er aðalleiðin til Norðurlandsins. Á síðustu fjárlögum var farið með þetta framlag niður í 400 þús. kr., og nú er ráðgert, að það verði aðeins 200 þús. kr. Þetta þýðir það, að enn á að draga að ljúka þessum vegi. Ef haldið verður áfram að minnka framlag til hans eftirleiðis, þá getur það dregizt enn í 2–3 ár að ljúka þessum hluta af aðalleiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur, þeirri mjög svo fjölförnu leið. Ég tel þetta mjög misráðið; í fyrsta lagi vegna þess, að það getur ekki heitið nokkur sparnaður fyrir ríkissjóð að draga þessa framkvæmd á langinn, og að hinu leytinu vegna þess, að það er mjög bagalegt hvað samgöngur snertir, að það skuli taka svo langan tíma að ljúka þessum vegarkafla. Það er ekki nema herzlumunurinn eftir til þess að ljúka þessum vegi. Ef farið hefði verið eftir till. vegamálastjóra undanfarin ár og þeim till. öðrum, sem um það hafa verið fluttar og rökstuddar með því, að frá öllum sjónarmiðum hefði verið happasælla að vinna þetta á skemmri tíma og geta svo snúið sér að öðrum vegum, — ef farið hefði verið eftir þessum till., þá hefði þessum vegi verið lokið nú, og þá væri ekki kallað frekar eftir fé til þeirrar framkvæmdar. Það felst þess vegna ekki í þessu sparnaður fyrir ríkissjóð, en það verður aðeins til óhagræðis, hvað snertir samgöngur og fyrir það fólk, sem á þessum leiðum þarf að fara, auk þess sem það hefur valdið póststjórninni, sem hefur séð um áætlunarferðir á þessari leið, ekki aðeins miklum erfiðleikum, heldur líka tilfinnanlegum kostnaði við að reyna áð halda uppi vetrarferðum á þessari leið undanfarin ár, erfiðleikum, sem stafa af því, að vegurinn hefur ekki verið fullgerður. Ég vil þess vegna vonast til þess, að menn geti nú loksins komið auga á það, að það er þess vegna ekki aðeins nauðsynlegt, hvað samgöngur snertir á þessari leið, heldur er það beinlínis hagkvæmara fyrir ríkissjóð að draga ekki lengur að ljúka þessum vegarkafla, og þótt mér sé það ekki fyllilega kunnugt, þá tel ég líklegt, að með því framlagi, sem ég hér legg til, 500 þús. kr., megi komast langt með að ljúka veginum á þessu ári.

Þá á ég hér á sama þskj. brtt. undir tölulið IV. Sú till. stendur í sambandi við framlag til hafnarbótasjóðs. Í fjárlfrv. er að vísu ekki gert ráð fyrir nema 300 þús. kr. framlagi til hafnarbótasjóðs, þ.e.a.s. lágmarki þess, sem ákveðið er í l. um fast framlag til sjóðsins. En fjvn. hefur lagt til, að þessi liður yrði hækkaður upp í 1,5 millj. kr. Nú hef ég leyft mér að flytja hér till. um, að við pennan lið verði bætt athugasemd eins og á þskj. segir, þ.e.a.s., að fjárhæðinni skuli allri varið til þess að greiða hafnargerðum og lendingarbótum inneignir þeirra hjá ríkissjóði vegna unninna hafnarframkvæmda, í réttu hlutfalli við inneign hverrar hafnargerðar fyrir sig. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. sé nokkuð kunnugt um það, hvernig varið hefur verið fé hafnarbótasjóðs undanfarið, vegna þess að á síðasta þingi gerði ég fyrirspurn um það, og þáverandi samgmrh. gaf þinginu skýrslu um það, hvernig hafnarbótasjóði hefði verið varið fram að þeim tíma. Sú skýrsla bar það með sér, að fé hafnarbótasjóðs hefði að mjög verulegu leyti eða að meiri hluta verið varið til hafnargerða hér á Suðvesturlandi. Nú skal ég ekki neita því, að mikil þörf sé fyrir hafnir hér á Suðvesturlandi, og því fé hefur að sjálfsögðu ekki verið illa varið, sem til þeirra hefur verið veitt. En það má ekki líta fram hjá hinu, að viðar á landinu eru, miklar þarfir fyrir hafnargerðir og gerðar hafa verið slíkar framkvæmdir, sem kosta mikið fé, og ríkið hefur ekki síður skyldu við þær hafnargerðir, en þær nauðsynlegu hafnargerðir, sem framkvæmdar hafa verið hér á Suðvesturlandi. Það, að ríkið hefur ekki haft fjárráð til þess að veita eins og þurft hefur til hafnargerða á landinu yfirleitt, hefur svo leitt til þess, að ýmsar hafnargerðir eru farnar að eiga svo að segja stórfé inni hjá ríkissjóði. Þar á meðal er höfnin á Akureyri og það svo, að samkvæmt skýrslu, sem hv. fjvn. hefur fengið um þetta og ég hef fengið að sjá, á Akureyrarhöfn nú orðið inni hjá ríkinu vegna hafnarframkvæmda meira fé, en nokkur önnur höfn á landinu, eða kr. 741.478,95. Ég geri líka ráð fyrir, að hv. alþm. reki minni til þess, að við afgreiðslu fjárl. hér á síðasta þingi urðu nokkrar deilur um framlag til hafnargerðar á Akureyri. Ég taldi, að Akureyrarhöfn hefði þá orðið mjög afskipt í framlögum til hafnargerða, og taldi mig færa fyrir því óyggjandi töluleg rök, sem ekki var mótmælt hér. En hv. frsm. fjvn. færði þær ástæður fram fyrir því við umr. þá, að ekki væri hægt að leggja meira fé til hennar en fjvn. þá hafði ákveðið, að ekki væri hægt að hækka heildarfjárhæðina og ekki hægt að taka frá öðrum höfnum það, sem þeim hefði verið áætlað. Hv. frsm. fjvn. benti á það, að hægt væri að rétta hlut Akureyrarhafnar nokkuð með því að veita henni til viðbótar verulega upphæð úr hafnarbótasjóði. Ég leitaði þá eftir því, undir umr. um þetta mál, við hæstv. samgmrh., hvort hann vildi gefa um það fyrirheit að rétta hlut Akureyrarhafnar með þessu. Um það vildi hann ekki gefa neitt loforð, og niðurstaðan varð líka sú, að þrátt fyrir það, hversu Akureyrarhöfn varð afskipt við setningu fjárl. á síðasta þingi, þá fékk hún ekki neitt framlag úr hafnarbátasjóði á s.l. ári. Þetta allt hefur leitt til þess, að hún er farin að eiga inni hjá ríkissjóði stórfé og meira fé, en nokkur önnur höfn á landinu. Nú hefur hv. fjvn. að vísu við skipti sín á fé til hafnargerða sett Akureyrarhöfn í hæsta flokk með 280 þús. kr., sem ætlað er tiltölulega fáum höfnum á landinu í fjárl. þessa árs. En þó að svo sé þá leiðir þetta ástand, sem ég var áðan að lýsa, til þess, að hafnargerðin á Akureyri verður í miklum vanda með að útvega það fé, sem hún þarf til nauðsynlegra framkvæmda á yfirstandandi ári, og þetta framlag ríkissjóðs, 280 þús. kr., verður þess vegna alveg ófullnægjandi. Nú hef ég samt ekki séð neina möguleika á því, að Akureyrarhöfn sé tekin alveg út úr, hvað það snertir, og veittur nú hærri styrkur, en nokkurri annarri höfn. Ég geri ekki ráð fyrir, að það fengist samþ., og hef þess vegna ekki flutt till. um það, en ég tel hins vegar alveg sjálfsagt, að það fé. sem hafnarbótasjóði er ætlað til umráða á þessu ári, sé fyrst og fremst notað til þess, enda eru ákvæði um það í l. um hafnarbótasjóð — að greiða þeim höfnum, sem mest eiga inni hjá ríkissjóði vegna unninna hafnarframkvæmda, að minnsta kosti að greiða í hlutfalli við inneign þeirra það fé, sem þarna er fyrir hendi. Till. mín er þess vegna um það, að setja við þennan lið þá athugasemd, sem ég nefndi áðan, sem mælir fyrir um það, að þessar hafnir skuli fá úr hafnarbótasjóði það fé, sem ætlazt er til að verði handbært, í réttu hlutfalli við það, sem þær eiga inni hjá ríkissjóði. Ég held, að ekki sé hægt að neita því, að þetta sé mjög sanngjarnt, og þegar svo er, að ríkissjóður er mjög á eftir með sin lögboðnu framlög til hafnargerðanna, þá hygg ég, að þetta sé það minnsta, sem hægt er að krefjast í þessum efnum.

Þá á ég hér einnig brtt. á sama þskj., undir rómverskir XIII, sem einnig er brtt. við till. fjvn. um framlag til Sambands íslenzkra berklasjúklinga, þ.e.a.s. byggingarstyrkur vegna byggingarframkvæmda í Reykjalundi. Það hefur nú verið svo undanfarin ár, að Alþ. hefur viðurkennt það lofsverða framtak, sem átt hefur sér stað hjá berklasjúklingum, og hefur leitazt við að létta þeim nokkuð það mikla átak, sem þeir hafa gert til þess að koma upp þeim myndarlegu byggingum, sem reistar hafa verið í Reykjalundi, og með öðru því merkilega starfi, sem þar hefur verið framkvæmt. Og á fjárl. undanfarinna ára, tveggja eða þriggja, hafa verið veittar 400 þús. kr. í þessu skyni. Nú held ég, að ég muni það rétt, að á fjárlfrv. því, sem nú liggur fyrir, hafi þessi upphæð verið færð niður í 200 þús. kr. En fjvn. hefur þó viljað gera á því nokkra leiðréttingu og lagt til, að veittar yrðu 300 þús. kr. í þessu skyni. Ég leyfi mér að leggja það til, að haldið verði sömu upphæð og veitt hefur verið undanfarin ár í þessu skyni, og legg því til, að þessi upphæð verði 400 þús. kr. Ég verð að vænta þess, að sá skilningur, sem ríkt hefur á þessum málum á undanförnum þingum, sé enn fyrir hendi og að þrátt fyrir það þótt menn tali meira um fjárþröng ríkisins en áður, þá meti þeir svo mikils þörfina fyrir starfsemina í Reykjalundi, að þeir sjái sér fært að halda við þeirri sömu fjárveitingu sem undanfarin ár hefur verið veitt í þessu skyni og fallist á þá till., sem ég flyt um þetta efni. Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta atriði fleiri orðum. Þetta er ekki aðeins hv. alþm., heldur allri alþjóð kunnugt og hefur til þessa verið mikils metið, og ég vil sem sagt vænta þess, að svo verði einnig áfram.

Þá flyt ég loks till., tölul. XVI á þskj. 633, varðandi framlag til viðbótarhúsnæðis við ríkisspítalana. Í frv. er gert ráð fyrir 1 millj. kr. til viðbótarhúsnæðis við ríkisspítalana, og er það að vísu ekkert sundurliðað fremur en venja er á fjárl. undanfarandi ára, og mér er að vísu ekki kunnugt um, hvernig ríkisstj. og heilbrmrh. hugsa sér að verja þessu fé, en samkv. reynslu undanfarandi ára virðist mér ástæða til að ætla, að kannske sé ekki hugsað neitt sérstaklega í þessu sambandi fyrir fjárframlögum til byggingar hjúkrunarkvennaskóla, sem þó hafa verið sett l. um að reisa skuli. Ég vil þess vegna leyfa mér að flytja brtt. við þetta, að í staðinn fyrir 1 millj. kr. komi 2 millj., og ég hef gert þá aths. við þennan lið, að af þessu verði 1 millj. varið til byggingar hjúkrunarkvennaskóla. Það urðu nokkrar umr. um þetta mál fyrr í vetur hér á Alþ. í sambandi við þáltill., sem ég flutti um viðbótarhúsnæði fyrir hjúkrunarkvennaskóla, og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. sé kunnugt um það, að húsnæðisleysi hjúkrunarkvennaskólans veldur því, að ekki er hægt að veita menntun þeim fjölda hjúkrunarkvenna, sem nauðsynlegt er að hafa hér, til þess að hægt sé að starfrækja eins og vera ber, í fyrsta lagi sjúkrahúsin, sem nú þegar eru starfandi í landinu, og til viðbótar þau sjúkrahús og þær heilbrigðisstofnanir, sem verið er að reisa og ákveðið er að reisa alveg nú á næstunni. Það er þess vegna alveg óhjákvæmileg nauðsyn og mjög aðkallandi í okkar heilbrigðismálum að skapa skilyrði til þess, að hægt sé að mennta fleiri hjúkrunarkonur, en nú eru skilyrði til að mennta. En í því efni er það grundvallaratriði, að reistur sé nýr hjúkrunarkvennaskóli. Í því húsnæði, sem hann hefur nú til umráða, er ekki með neinu móti hægt að sinna þeirri nauðsyn, sem fyrir hendi er í þessum efnum. Ég álít þess vegna alveg óhjákvæmilegt, að ríkið fari að veita fjárframlag sérstaklega í þessu skyni, og ég vil vænta þess, að hv. þm. skilji þá þörf, sem þarna er fyrir hendi, og sýni þann skilning í verki með því að styðja þessa till., sem ég hér hef flutt, eða þá a.m.k. með því, ef þeir vilja ekki fallast á að veita þessa upphæð, að ákveða einhverja upphæð sérstaklega til byggingar hjúkrunarkvennaskóla. — Ég skal þá ekki fjölyrða frekar um þessar till. og ekki ræða fjárl. í heild, en vænti þess, að þessum till. mínum verði tekið með sanngirni, því að ég þykist hafa alveg fullgild rök fyrir því, að þær byggist allar á fullkominni nauðsyn og um leið á fullkominni sanngirni í garð ríkissjóðs.