04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

38. mál, fjárlög 1950

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég flyt hér eina brtt. við fjárlögin og kveð mér þess vegna hljóðs. Ég sé ekki ástæðu til þess, eins og sakir standa, að fara út í almennar umræður um afgreiðslu fjárlaganna, enda þótt til þess séu að sumu leyti ríkar ástæður. Eitt atriði er það þó, sem hér hefur verið gert að umræðuefni af hv. 1. þm. Eyf. og fleirum, sem mér þykir ástæða til að minnast á, en það er það vandræðaástand, sem við okkur öllum þm. blasir, að í maí skuli vera að fara fram 2. umr. fjárlaganna. Þessi staðreynd hvílir eins og dökkur skuggi yfir þessari stofnun og er okkur til vansæmdar. En þeir, sem á þetta hafa minnzt, hafa ekki vikið að hinni raunverulegu orsök. Þetta er ekki sök fjvn.ríkisstj., né heldur Alþingis sem stofnunar. Þetta er bein afleiðing af þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru á s.l. sumri, að rjúfa þing og efna til kosninga í haust. Og sannleikurinn er sá, að þetta þing, sem nú stendur, er einstakt að því leyti allra þinga síðan Alþingi var endurreist, að ekki færri en þrjár ríkisstj. hafa setið við völd á þessu þingi. Afgreiðsludráttur fjárlaganna er þannig bein afleiðing af hinu pólitíska ástandi í landinu, sem kemur í ljós í því, að enginn samstæður meiri hluti er fyrir hendi í þinginu. — Mér finnst við alþm., hvar í flokki sem við stöndum, verðum að vera samtaka um að skýra rétt þær orsakir, sem liggja til grundvallar þeim drætti, sem nú hefur orðið á afgreiðslu fjárl.

Ég skal ekki hafa þessi almennu inngangsorð fleiri, en víkja nú að brtt. minni, sem er nr. 12 á þskj. 633 og er um það að verja úr ríkissjóði 25 þús. kr. til fyrirhleðslu og varnar túninu á ríkisjörðinni Saurbæ í Vatnsdal framanverðum, sem liggur undir ágangi frá Vatnsdalsá. Þetta er vel setin og hýst ríkisjörð, og væri mikið tjón að því, ef áin legði hana í eyði. Hún hefur undanfarið brotið engjarnar og er nú byrjuð á túninu. Það hefur verið gerð áætlun um kostnað við fyrirhleðslu af Guðmundi Jósafatssyni í Austurhlíð, og reiknaði hann með 26 þús. kr. Nú hefur fjvn. enn fremur beðið vegamálastjóra að áætla kostnaðinn, og samkvæmt rannsókn, er hann lét framkvæma, er kostnaðurinn áætlaður um 50 þús. kr. — Hér er um það að ræða, hvort það á að láta það viðgangast, að þessi jörð eyðileggist af ágangi vatna, eða gerðar verði varnarráðstafanir með þeim fullkomnu verkfærum, sem nú eru fyrir hendi til þess. — Ég skil vel, að hv. fjvn. sá sér ekki fært að leggja fram ákveðnar till., áður en fengið var álit vegarnálastjóra. Og ég er fús að taka till aftur til 3. umr., ef n. óskar. En ég vænti þess, að hv. alþm. taki henni með góðum skilningi, og skal ekki fjölyrða meira um þetta nú.