10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

38. mál, fjárlög 1950

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Formælendur stjórnarandstöðunnar, þeir hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson. og hv. 5. landsk., Ásmundur Sigurðsson. fyrir kommúnistafl. og hv. 8. landsk., Stefán Jóh. Stefánsson, fyrir Alþfl., hafa nú lokið máli sínu og lýst ástandinu í þjóðmálunum frá sínu sjónarmiði. Virðist mér þeir helzt vera þeirrar skoðunar, að allir örðugleikar, er þjóðin á nú við að stríða, en þeir eru vissulega margir og miklir væru núverandi ríkisstj. að kenna, og hefur hún þó ekki setið að völdum nema tæplega tvo mánuði. Hitt láðist þessum hv. þm. að geta um, hvern þátt þeir og þeirra flokkar hafa átt í því, að svo er nú komið sem komið er. En sagan mun áreiðanlega halda því til haga, að þessir flokkar ollu miklu um það, að hin svokallaða nýsköpunarstjórn var mynduð, að eytt var með lítilli ráðdeild allt of miklu af þeim stórfellda gjaldeyrisforða, sem þjóðin komst yfir óvænt á styrjaldarárunum, og þar með glatað einstæðum möguleikum, sem nú er sárt saknað.

Framsfl., einn íslenzkra stjórnmálaflokka, varð þá til þess að segja þjóðinni í fullri hreinskilni, hver hætta væri á ferðum, ef gálauslega væri að farið í þessum málum, eins og nú er komið á daginn. Þetta var ekki vinsælt verk í þá daga, enda framsóknarmönnum þá oft brugðið um afturhald og hrakspár. Það þótti goðgá, þegar þeir fullyrtu, að sú stjórnarstefna hlyti að stofna þjóðinni í voða — og enda í gengisfellingu eða jafnvel hruni. Kom þetta m.a. fram í alþingiskosningunum 1946. — Þá sögðu allir flokkarnir þrír, er að nýsköpunarstj. stóðu, að öllu væri óhætt. En hvað skeði? Þremur mánuðum síðar gafst nýsköpunarstj. upp. Benzínið var búið af bíl hennar, auðurinn þrotinn, og Framsfl. beðinn að taka þátt í björgunarstarfi.

Í styrjaldarlokin hafði þjóðin, eins og ég sagði áðan, eignazt miklar gjaldeyrisinneignir erlendis, og peningavelta var þá mjög mikil hér á landi. Þrátt fyrir þetta var úr vöndu að ráða, og komu þá tvær aðalleiðir til greina. Fyrri leiðin, og sú, sem framsóknarmenn vildu fara, var að færa niður eða að minnsta kosti festa verðlagið innanlands, áður en eða samhliða því sem þær stórfelldu framkvæmdir væru hafnar. sem aðkallandi voru. Síðari leiðin var að hefja framkvæmdir í stórum stíl og innflutning vara. án þess að gefa gaum að verðlagsmálunum að svo stöddu. Þessi síðari leið var farin.

En afleiðingin varð m.a. sú, að þegar nýsköpunarstj. fór frá, var ýmist búið að koma í kring og sumpart að ákveða mjög stórfelldar framkvæmdir á ýmsum sviðum, við hækkandi verðlag, og þar með í rauninni búið að festa verðbólguna, svo að ekki varð aftur snúið, og í mesta lagi um viðnám að ræða, sem þó ekki reyndist mögulegt nema um stundarsakir. Þá þegar var og rekstrarkostnaður framleiðslunnar orðinn svo mikill, að ýmsar helztu útflutningsvörur landsins gátu ekki svarað framleiðslukostnaði, og því ekki hægt að flytja þær út nema með meðgjöf af hálfu ríkisins. Hófst þá hin margumtalaða ábyrgð ríkissjóðs á útflutningsvörum bátaútvegsins, sem haldizt hefur síðan, þangað til á s.l. vetri, að hún var afnumin, um leið og breytt var skráningu erlends gjaldeyris til hagsbóta fyrir útflutningsframleiðsluna, svo sem kunnugt er.

Jafnframt útflutningsuppbótunum var að því ráði hnigið, til þess að halda dýrtíðinni í skefjum, að verja fé úr ríkissjóði til að greiða niður verð ýmissa neyzluvara innanlands, en með þeim hætti tók ríkið í raun og veru að sér að greiða nokkurn hluta af launum manna, sem að öðrum kosti hefðu orðið hærri, en þau voru og aukið enn framleiðslukostnaðinn og verðbólguna.

Ríkisstj. sú, er við tók á öndverðu ári 1947 og studd var af lýðræðisflokkunum þremur, sýndi allmikla viðleitni í þá átt að halda verðbólgunni niðri. Á niðurfærslu verðlags voru þá þegar litlir möguleikar orðnir. Þessi ríkisstj. hafði forustu í því að koma skipulagi á fjárfestingu í landinu. En á því er enginn efi, að ef eftir þá óstjórn, sem verið hafði, hefði ekki verið höfð hönd í bagga um það, hvaða framkvæmdir skyldu sitja fyrir, hefði mjög mikið af efni og fjármagni því, sem þjóðin hafði yfir að ráða, gengið til mjög vafasamra framkvæmda, svo að ekki sé meira sagt, en ýmsar nauðsynlegustu framkvæmdir víðs vegar um land setið á hakanum. Einnig var um sömu mundir tekin upp ströng gjaldeyrisskömmtun, enda gjaldeyrisbirgðir þá mjög á þrotum.

Þegar kom fram á árið 1949, var það löngu komið í ljós, að það viðnám, sem haldið hafði verið uppi af hálfu stjórnar og þings, var að bresta, og að grípa yrði til nýrra ráða. Verð útfluttra vara var þá tekið að falla, hafði áður haldizt í svipuðu horfi frá stríðslokum. Jafnvel áður en þetta verðfall hófst, hafði ríkissjóður, eins og ég áður sagði, orðið að greiða uppbætur á útfluttar vörur, en greiðslur þessar áttu sinn þátt í því, að ríkið var í rauninni rekið með greiðsluhalla árum saman, enda hlóðust jafnframt á ríkissjóð nýjar byrðar, vegna löggjafar, sem áður hafði verið sett, en kom nú til framkvæmda smátt og smátt. Ný verðbólgualda reið yfir, og afgreiðsla fjárlaga fyrir 1949 varð á þann veg, að öllum, sem til þekktu, var ljóst, að aldrei yrði hægt að semja fjárlög á sama grundvelli aftur. En dýrtíðarráðstafanir einar kostuðu samkvæmt þeim fjárlögum 70–80 millj. króna.

Framsfl. var ljóst, að þetta gat ekki lengur gengið. Fram undan var „feigðarósinn“. Óhjákvæmilegt var að breyta stjórnarstefnunni. Gera þurfti átök til þess að reyna að koma á jafnvægi í atvinnulífi þjóðarinnar.

Eftir að hafa árangurslaust gert ákveðnar tillögur um lausn nokkurra mest aðkallandi vandamála, sleit Framsfl. stjórnarsamstarfinu og krafðist nýrra kosninga, sem fram fóru á s.l. hausti. Það var hin rétta áfrýjun málanna.

Hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, mun hér á eftir gera grein fyrir stjórnarmyndunartilraunum þeim, er gerðar voru eftir síðustu kosningar, og ýmsu í því sambandi, og m.a. þeim endurteknu, en árangurslausu tilraunum, sem. gerðar voru til að fá Alþfl. til samstarfs við Framsfl. Það hefur lengi verið mín skoðun, að samstarf þessara tveggja flokka væri nauðsynlegt og að með slíku samstarfi væri hægt að vinna sameiginlega fyrir hagsmuni hins vinnandi fólks til sjávar og sveita. En það verð ég að segja, að ýmislegt, sem fram hefur komið af hálfu Alþfl. í því sambandi nú upp á síðkastið, hefur orðið mér til sárra vonbrigða. Skal á það minnzt, að sá flokkur hefur ekki getað bent á nein úrræði til umbóta í stað þeirra, sem ríkisstj. nú er að framkvæma, en þrátt fyrir það hefur Alþfl. hafið óbilgjarnar árásir á ríkisstj. og virðist ætla að gera það, sem í hans valdi stendur, til að koma í veg fyrir, að þessar ráðstafanir geti borið æskilegan árangur. Verður ekki betur séð en að Alþfl., eða a.m.k. forustumenn hans, séu nú í kapphlaupi við kommúnista um að gera þær ráðstafanir, sem ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa neyðzt til að gera, sem allra óvirðulegastar og tortryggilegastar. Og þó er hér um að ræða ráðstafanir, sem þessir sömu forustumenn Alþfl. hafa bak við tjöldin beinlínis óskað eftir að gerðar yrðu til að leitast við að bjarga aðþrengdum atvinnuvegum þjóðarinnar, þó að þá brysti þor til að ljá þeim fylgi sitt á Alþingi.

Núverandi ríkisstj. tók við völdum 14. marz s.l., eða fyrir tæpum 2 mánuðum. Til þess að gera sér grein fyrir þeim verkefnum, sem stj. biðu og að hafa kallað síðan 14. marz og við verður að fást á næstunni, er ekki úr vegi að bregða upp dráttum úr þeirri mynd, sem einmitt um það leyti blasti við í málefnum þjóðarinnar.

Verðlag afurðanna var enn fallandi. Hraðfrysti fiskurinn mátti teljast nær óseljanlegur, og er þar þó um að ræða framleiðslugrein, sem stórfé hefur verið lagt í undanfarið.

Á fjárlagafrv., er lá fyrir þinginu, stóðust útgjöld og tekjur nokkurn veginn á. Hins vegar vantaði þar ýmsa gjaldaliði, sem þó eru skuldbundnir með lögum. Og alls ekkert var ætlað til uppbóta á útfluttar vörur, en skattar og tollar áætlaðir að mestu óbreyttir. Togaraflotinn, sem allt að þessu hafði borið sig, og áður skilað drjúgum hagnaði, var allur rekinn með tekjuhalla á hverjum mánuði, og auðsætt, að hann yrði einnig að fá aðstoð hjá ríkissjóði eða leggjast í höfn, ef ekkert yrði að gert. Um vélbátaflotann var svo ástatt, að mestur hluti hans var, þrátt fyrir verðuppbætur undanfarinna ára, í raun og veru gjaldþrota og hefði ekki komizt á veiðar á vertíðinni, nema vegna þess, að með opinberum ráðstöfunum hafði um stundarsakir verið gert óheimilt að ganga að skipunum, en útgerðarmenn skulduðu ríkissjóði fram undir 20 millj. kr., vegna neyðarlána, er þeim höfðu verið veitt á undanförnum árum. Hafði þingið til bráðabirgða tekið áframhaldandi ábyrgð á fiskverðinu, 75 aura á kg. af slægðum fiski upp úr sjó. Auðsætt var, að til þess að gera útgerðinni fært að starfa áfram á þessu ári, hefði þurft að greiða úr ríkissjóði mikið á annað hundrað millj. kr., og hefði orðið að taka það fé með nýjum álögum á þjóðina, ef ekki hefðu verið gerðar aðrar ráðstafanir. En að öðrum kosti hlaut allur fiskiflotinn að hætta veiðum, og er augljóst, hverjar afleiðingar það hefði haft fyrir allan almenning í þessu landi, atvinnulega séð, auk þess sem innflutningur hlaut að stöðvast, og þar með tekjumöguleikar ríkissjóðs að miklu leyti. Án þessarar stórkostlegu skattaálagningar á alþýðu manna, eða annarra ráðstafana, hlaut því að vera yfirvofandi algert hrun atvinnulífsins, fyrst við sjávarsíðuna, en svo að segja jafnharðan sem afleiðing af því einnig í öðrum atvinnugreinum.

Í yfirlýsingu þeirri, sem birt var af hálfu ríkisstj., þegar hún tók við völdum, segir m.a. á þessa leið:

„Það er hæstv. alþingismönnum og alþjóð kunnugt, að útflutningsframleiðsla landsmanna er nú þannig á vegi stödd, vegna verðbólgu innanlands og erfiðleika á sölu íslenzkra afurða erlendis, að alger stöðvun þessarar framleiðslu virðist yfirvofandi.

Ríkisstj. er fyrst og fremst mynduð til þess að koma á, eftir því sem unnt er, jafnvægi í viðskipta-, atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar.

Ríkisstj. er staðráðin í því að gera það, sem í hennar valdi stendur, til þess að þær byrðar, Nem almenningur kann að þurfa að taka á sig vegna leiðréttingar á hinu skráða gengi krónunnar, verði sem minnstar, og óskar í því sambandi að hafa samráð og samstarf, svo sem verða má, við stéttarsamtök almennings og forustumenn þeirra.“

Afstaða ríkisstj. er algerlega óbreytt varðandi þessi atriði og annað, er þá var tekið fram. Hverjum hugsandi manni getur ekki dulizt, að þau verkefni, sem eru fyrir höndum í íslenzkum stjórnmálum nú, eru erfið viðfangs og hlutverk ríkisstj. bæði vandasamt og torvelt.

Framsfl. og Sjálfstfl. hafa löngum deilt hart og átt mörg ágreiningsmál, en á þeirri hættustund, sem nú er í fjárhagslífi þjóðarinnar, hafa þeir talið sér skylt að taka höndum saman í ríkisstj. og leitast við að sameina krafta sína til þess að afstýra fjárhagslegu hruni. Það er stutt síðan samstjórn flokkanna var mynduð, svo að samstarfsreynslan er ekki löng orðin. En þennan tíma, sem stj. er búin að starfa, get ég vottað, að allir ráðherrarnir hafa lagt sig fram við vandamálin og vikið til hliðar gömlum væringum og vopnaburði. Þannig ætlar stj. sér að vinna eftirleiðis, meðan áframhaldandi nauðsyn er á samstarfi þessara flokka.

Því er mjög á lofti haldið, og þó sérstaklega af þeim, er vilja gera allar ráðstafanir núverandi hæstv. ríkisstj. sem tortryggilegastar, að gengisbreytingin leggi þungar byrðar á framleiðsluna, enda þótt henni sé fyrst og fremst ætlað að vera framleiðslunni til stuðnings — og þá einkum þeim framleiðslugreinum, er flytja á erlendan markað.

Það er þess vert að athuga þetta lítils háttar. Rekstrarvörur til sjávarútvegsins, innfluttar, hækka að sjálfsögðu í verði — og þrátt fyrir gengisfellinguna virðist vera vafasamt að bátaútvegurinn fái hærra verð fyrir aflann, en ábyrgðarverðið var áður. Slíkt stafar af áframhaldandi verðfalli erlendis. En einmitt það sýnir ljóslega, hve gersamlega vonlaust og óframkvæmanlegt var að halda áfram fiskábyrgðinni að óbreyttu gengi, þar sem engin leið var að afla tekna til handa ríkissjóði til þeirra hluta.

Vér verðum að treysta því, að sjávarútvegurinn standist þá miklu erfiðleika, sem nú er við að glíma. Hann er á ýmsan hátt mjög vel búinn framleiðslutækjum. Má þar nefna togaraflotann og síldarverksmiðjurnar. Þótt aflaleysi undanfarin ár hafi gert þær óvirkar að nokkru, verðum vér að vonast til, að úr rætist. Mér finnst fullkomin ástæða til þess að gera sér vonir um það, að fiskveiðar Íslendinga beri sig í framtíðinni, ekki síður en annarra þjóða. Hvers vegna ættum við að álíta þennan atvinnuveg okkar svo heillum horfinn?

Landbúnaðurinn á við ýmsa erfiðleika að etja. Því miður var það svo, að hann var allmjög og óviturlega afskiptur á þeim tímá, þegar mest var til bæði af gjaldeyri og innlendu fjármagni og þeim fjármunum ráðstafað. Slík mistök hljóta að koma í koll, eins og nú sjást merki.

Nútíma landbúnaður er fjárfrekur, bæði til stofnkostnaðar og rekstrar, og þarf á miklum innflutningi að halda. Gengisbreytingin þýðir að sjálfsögðu hækkandi verð á innfluttum rekstrarvörum til landbúnaðar, en ætlazt er til, að sú hækkun fáist síðar bætt við ákvörðun á verði landbúnaðarafurða. Allar framkvæmdir, sem erlent efni þarf til, verða miklu kostnaðarsamari, svo og vélar dýrari. Þeir bændur, sem skemmst eru á veg komnir með umbætur í búrekstri sínum, standa vitanlega verst að vígi og eiga við mikla örðugleika að stríða.

Hins ber að gæta, og því vil ég sérstaklega beina til bændastéttarinnar, að hagsmunir sjávarútvegs og landbúnaðar eru nátengdir, enda þótt svo hagi til, að sjávarvörur séu einkum fluttar út, en landbúnaðarvörur aðallega notaðar innanlands og með því sparaður gjaldeyrir til innkaupa sem því svarar. Þessu gleyma menn stundum. Landbúnaðarframleiðslan er nú að verðmæti milli 200 og 300 millj. kr. Þetta vörumagn verður ekki selt innanlands, nema aðrar atvinnugreinar og þá einkum meginútflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar blómgist og sé rekinn þannig, að örugg atvinna sé fyrir alla.

Bændur verða þess vegna að skilja það — og ég veit líka, að þeir munu skilja það, að hin aðkallandi og óumflýjanlega nauðsyn gengisbreytingarinnar vegna sjávarútvegsins og útflutningsverzlunarinnar var í raun og veru gerð einnig í þágu bændastéttarinnar. Gengisfellingin var í eðli sínu leiðrétting á skakkri skráningu krónunnar í viðskiptum við útlönd, og sú leiðrétting var í þágu allrar þjóðarinnar — og þá fyrst og fremst hinna vinnandi stétta.

Engum getur blandazt hugur um, að verkefni ríkisstj. og íslenzkra stjórnmálamanna á líðandi stund og næstu árum eru svo torleyst, að vel þarf að vinna og af mikilli þjóðhollustu, ef giftusamlega á að takast.

Þjóðlífið þolir hvorki aðgerðaleysi né Sturlungaöld. Ef stjórnmálamennirnir og þjóðin sem heild viðurkennir ekki þann vanda, sem hún er stödd í, — og vill ekki leggja það á sig að hætta um stund innbyrðisbaráttu og sameina krafta sína til viðréttingar, — þá er lítil von um, að hamingjusamlega takist.

Það er stundum hollt að deila og takast á, en það gerir samt engin skipshöfn siðaðra og vitiborinna manna í sjávarháska.

Stjórnarandstaða getur haft þarft hlutverk og virðulegt. Hennar starf á að vera hlutverk hins krítiska endurskoðanda, — en hún má aldrei koma fram í líkingu þess, sem spillir einingu skipshafnar á háskastund, má aldrei torvelda góðar úrlausnir aðkallandi vandamála.

Sýnt er, að þjóðin kemst ekki hjá því að taka upp breytta lífshætti í ýmsum efnum, svo sem aðrar þjóðir verða að þola um þessar mundir. Hún verður að neita sér um ýmislegt, sem hún hefur veitt sér að undanförnu og æskilegt hefði verið að geta veitt sér áfram. Aðalatriðið er, að þetta gangi jafnt yfir alla hlutfallslega, að jöfnuður gildi, og þeir fórni mestu — og fórni fyrst og fremst — sem af mestu hafa að taka.

Það er einlægur vilji minn og míns flokks, Framsóknarflokksins. að svo megi verða. Nauðsynlegt er að taka upp sparnað í rekstri þjóðarbúsins og gera framleiðslustörfin eftirsóknarverðari, en þau hafa þótt um skeið. Það er ákveðinn vilji ríkisstj. að taka þessi mál til meðferðar og úrlausnar.

Annað kvöld mun ég að öllu forfallalausu aftur taka til máls í þessum útvarpsumræðum, og geri þá ef til vill nokkra grein fyrir ákveðnum aðgerðum, sem ég tel að ríkisstj. þurfi að framkvæma, til þess m.a. að gera starfskerfi ríkisins umfangsminna, einfaldara og ódýrara.

Læt ég svo lokið máli mínu að þessu sinni.