11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

38. mál, fjárlög 1950

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 712 þrjár brtt., sem ég vil nú víkja að nokkrum orðum.

Fyrsta till. er nr. í á þskj., um það, að styrkur til hafnarinnar verði hækkaður úr 200 þús. kr. upp í 250 þús. kr. Höfnin í Hafnarfirði er eins og kunnugt er ákaflega vel gerð af náttúrunnar hendi, en þó skortir mikið á, að hún fullnægi þeim kröfum, sem gerðar eru til hafna nú í dag. Þess vegna hefur verið lagt mikið fé til þess að bæta hana frá því 1940, svo að heildarkostnaður síðan hefur numið um 6 millj. kr. Af þessum 6 milljónum hafa bæjarbúar tekið á sínar herðar um 2 milljónir með útsvörum, og hygg ég, að það sé alveg fordæmalaust, að íbúar bæjar hafi lagt eins mikið á sig vegna hafnargerðar eins og bæjarbúar í Hafnarfirði hafa gert. Nú stóðu sakir þannig um s.l. áramót, að Hafnarfjarðarhöfn átti á þriðja hundrað þúsund ógreitt úr ríkissjóði, og ákveðið var að vinna að hafnarbótum í ár fyrir 1 millj. kr., svo að ef ríkissjóður hefði átt að vera sléttur við Hafnarfjörð, hefði hann þurft að leggja fram 600–700 þúsund. Nú lagði ég það til við hv. fjvn., ef sama upphæð kemur til skipta, að framlag til Hafnarfjarðar yrði hækkað upp í 280 þús., en í 450 þús., ef heildarupphæðin hefði hækkað. Nú hefur fjvn. ekki séð sér fært að taka upp þessa till. mína né heldur með öðru móti að koma til móts við óskir Hafnarfjarðarbúa. Ég hef leitazt við að hafa till. mína sem sanngjarnasta, en hins vegar held ég, að Hafnarfjörður eigi fulla kröfu á því, að fullt tillit verði til hennar tekið og höfninni þar gert eins hátt undir höfði og öðrum, og einnig að tillit sé tekið til þess kostnaðar, sem bæjarbúar hafa sjálfir borið og ég lýsti hér áðan. Eigi að síður var till. fjvn. um 200 þús. kr., og hef ég því leyft mér að leggja það til, að það verði hækkað í 250 þús., og vona ég, að Alþingi sjái sér fært að verða við þeirri sanngjörnu tillögu.

Þá hef ég leyft mér að bera fram aðra brtt. á sama þskj., undir IX, sem er brtt. við 15. gr. um, að þar komi nýr liður: „Til tónlistarfélags Hafnarfjarðar kr. 10.000.“ Þar sem tónlistarfélög eru starfandi annars staðar, hefur ríkissjóður tekið þátt í kostnaði þeirra, bæði í Reykjavík, á Ísafirði og Akureyri. Á flestum stöðunum er sú upphæð, sem þannig er veitt, hærri en sú, er hér um ræðir, eða a.m.k. í Reykjavík og á Akureyri, en mun vera sú sama á Ísafirði. Starfsemi tónlistarfélagsins í Hafnarfirði mun vera með svipuðu sniði og annars staðar. Það gerir sér far um að ná í góða hljómlistarmenn til konserthalda, bæði söngleika og instrumentalleika, og heldur þetta 7–10 tónleika á ári. Á síðastl. ári hefur þetta félag haldið uppi skóla, svo að það er eins vel komið að styrkjum eins og önnur tónlistarfélög. Það hefur láðst að bera fram óskir um styrk á réttum tíma, og skal ég viðurkenna það fyrir hönd þeirra, sem það áttu að gera, en ég vænti þess, að þessi till. verði samþ. og henni tekið með sömu velvild og till. um hliðstæð félög á sínum tíma.

Þá er lokatill. mín á sama þskj., undir IX, 2., um, að kostnaður við sjómælingar verði hækkaður úr 100 þús. í 200 þús. kr. Það væri út af fyrir sig ærið fróðleg saga að skýra frá því, hvernig þessum mælingum hefur verið háttað frá upphafi og til þessa tíma, en ég ætla nú ekki að fara út í það núna. Ég vil aðeins láta nægja að geta þess, að megnið af sjómælingunum hefur verið gert af útlendingum og þá oft í íhlaupum, og var það því ekki ábyggilegt og oft ekki gert af þeirri alúð og umhyggju, sem þurft hefði. Þessir menn hafa lagt í þetta mikla vinnu og erfiði, en ekki haft tækifæri til þess að gera það eins vel og á hefði þurft að halda. Ég held, að ströndin við Ísland hafi á sínum tíma verið mæld vel, eftir því sem aðstæður leyfðu, en nú eru gerðar aðrar kröfur og strangari en áður var, og er því nauðsynlegt, að þessar mælingar verði bættar og auknar, enda er sjókortagerð líka orðin fastur liður hjá þeim ríkjum, þar sem lönd liggja að sjó, og á þetta þá því fremur við um okkur, þar sem land okkar er umlukið sjó á al1a vegu. Það var því full ástæða til þess, að hér var stofnuð sjómælingadeild, sem ætlað var 150 þús. kr. styrkur, en hefur þó kostað 180-190 þús., þó að sparlega hafi verið á fé haldið. Áður fyrr, eða fyrir stríð, þurfti að taka stór skip á leigu til þess að framkvæma mælingarnar, og eins og gefur að skilja gleypti það mikið af því fé, sem til mælinganna var veitt. Nú er þessu breytt, og hefur verið keyptur bátur handa sjómælingadeildinni af herliðinu, og er rekstrarkostnaður þessara báta það lítill, að það er hægt að halda þeim á floti 4–5 mánuði á sumrinu af sömu mönnum sem stunda svo kortagerð að vetrinum, allt fyrir sömu upphæð og áður var hægt með leiguskipunum á 2 mánuðum eða jafnvel minna. Nú hefur verið settur dýptarmælir í þennan bát og önnur tæki, sem til sjómælinga þarf. Hins vegar hefur þurft að endurnýja gangvélar skipsins, því að þær voru gallaðar, þegar skipið var keypt, og hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að fá þær, en þær hafa nú hækkað í verði vegna gengislækkunarinnar, en vélarnar voru ekki fluttar inn fyrir gengislækkunina, en þetta er kostnaður, sem verður að leggja i, svo að aðalatriðið er ekki, hvor,t þetta verður samþ. núna eða síðar, heldur það, að vélarnar komi núna. Ég vona nú, að Alþ. virði þessa starfsemi að verðleikum og samþ. þessa brtt., því að það er ávinningur fyrir ríkið að fá þetta skip, til þess að starfsemin komi að fullum notum og geti þó verið rekin á sem ódýrastan hátt.

Það eru ýmis önnur atriði, sem ég hefði óskað breytinga á, og hef ég rætt um það við fjvn., en ég hef ekki borið fram brtt. um það vegna viðleitni hv. fjvn. og hæstv. ríkisstj. um sparsemi og að koma fjárútlátum í hóf, og mun ég þess vegna ekki flytja slíkar brtt., og þó hefði ég haft tilhneigingu til þess að flytja t.d. till. um hækkanir til vitanna, til ljósatækja o.fl., sem hefur hækkað í verði vegna gengislækkunarinnar, en vitanlega er æskilegt, að það verði bætt. En ég mun ekki bera fram till. um það nú, en vitanlega mun tíminn skera úr því, hvort ekki hefði verið ástæða til þess að ráða bót á þessu, en ég nefni aðeins þennan eina lið, sem tilheyrir mínum starfa. Hins vegar get ég ekki gengið fram hjá þeim lið, og vona, að Alþ. taki undir og samþ., ef ég ber fram till. um það.

Um afgreiðslu fjárlaganna að öðru leyti skal ég ekki ræða frekar núna, þó að margt sé hægt um hana að segja, en vildi aðeins halda mér við þær brtt., sem ég hef borið hér fram.