11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

38. mál, fjárlög 1950

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Ég hefði ekki kvatt mér hljóðs, ef hv. form. fjvn. hefði ekki vikið að mér fáum orðum og farið þar með bein ósannindi. Hann sagði, að ég hefði aldrei borið fram brtt. mínar í fjvn. Ég veit, að hann man það, að strax í haust var rætt um það innan n., hvort við ættum að taka upp þá stefnu að flytja brtt. til lækkunar, og þá hélt ég fram, að það ættum við að gera. En stefna meiri hl. var óbreytt frá því í fyrra, svo að ég taldi ekki þýða að vera að koma margsinnis fram með sömu till. Í n. eru ekki atkvgr. bókaðar, en ég veit, að hann man, að ég var þar á móti ýmsum hækkunartill., t.d. hækkun á framlagi vegna kostnaðar við alþjóðaráðstefnur. Hv. frsm. tók að vísu aftur það, sem hann sagði um síðustu till. mína, en það var aðaltill. Þegar svo frv. kom til 2. umr., spurði ég, hvort það væri meiningin að láta verkefni verðlagsmálanna fara óafgreitt frá n. Hv. form. sagðist þá sjálfur mundu taka upp slag um það og beita sér fyrir, að um það yrði flutt brtt. Og þá varð samkomulag um að bíða með það að sinni. En svo talaði hæstv. fjmrh. í málinu og lýsti eftir brtt. frá minni hl. Þá lofaði ég, að ég skyldi gera einhverja úrlausn, til þess að mín afstaða kæmi skýrt fram. En þegar þessi verðlagsmál voru aftur rædd í nefndinni, komu þau boð, að hæstv. stj. óskaði þess, að þetta yrði óbreytt. Hv. form. kom með þessi skilaboð og það með, að stj. mundi gefa yfirlýsingu um, að þessi mál yrðu tekin til alvarlegrar athugunar síðar meir. Sjálfur var hann að lýsa eftir þessari yfirlýsingu, þótti ekki nóg skýring frá hæstv. forsrh. í umr. í kvöld. Þegar ákveðið var af meiri hl. að láta þetta standa, þá flutti ég till. um að breyta tölunum á þann hátt, sem hér liggur fyrir. Hún var felld með sjö atkvæðum gegn einu eða tveimur. Mig minnir, að hv. 6. landsk. hafi verið með henni auk mín. Ég veit, að hv. 6. landsk., sem hér er staddur, man, að þetta er rétt. Það er því hart, að hv. form. fjvn. skuli halda fram, að ég hafi ekki markað afstöðu mína í n.

Út af því, sem hann var að tala um hinar fráleitu fjárkröfur stjórnarandstöðunnar, sem væru bornar fram gegn betri vitund, vil ég bara að endingu benda honum á, að það voru ekki menn úr stjórnarandstöðunni, heldur tveir hv. þm. úr stuðningsflokkum hæstv. stj., sem hótuðu að sprengja samkomulagið um eitt viðkvæmasta atriðið til verklegra framkvæmda. Það muna fleiri en ég og geta vottað það með mér.