16.01.1950
Efri deild: 35. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

69. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég var ekki viðstaddur, þegar hv. frsm. flutti ræðu sína, en ég sé, að hv. n. hefur tekið til greina þær óskir, sem ég flutti fyrir hönd umbjóðenda minna varðandi ráðstafanir til að fyrirbyggja, að þetta leyfi hafi í för með sér tjón á veiðarfærum á þorskanetasvæðunum. Mér skilst, að n. ætlist til, að ríkisstj. reyni að komast að samkomulagi við Færeyinga um, að þeir forðist að veiða þar, sem þorskanetin eru. Ég vil vona, að sá hæstv. ráðh., sem þetta heyrir undir, taki það til greina, þar sem þetta virðist vera eðlilegur háttur á framkvæmd málsins, ekki sízt þar sem Færeyingar vita, að þeir eiga undir högg að sækja hjá Íslendingum, varðandi rétt til veiða hér við land. Ég vil svo þakka n. hennar gerðir í málinu og tel, að ef sá háttur er á hafður, sem n. bendir á, þá muni mega komast að því, sem Vestmanneyingar meintu með sínu bréfi, því að ég sé ekki í fljótu bragði, að hægt sé að hafa annan hátt á, og mér virðist n. og sá hæstv. ráðh., sem hefur með málið að gera, sammála um þetta.