02.02.1950
Efri deild: 46. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

102. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þann 20. f. m. var hér til 1. umr. frv. til l. um breyt. á l. nr. 49 25. apríl 1946, um stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands, sem prentað er á þskj. 244, en þá hafði hæstv. sjútvmrh. farið þess á leit við sjútvn., að hún flytti frv. þetta. Þá kom fram í þeim umr., að athuga þyrfti, hverjar nauðsynlegar breytingar væri aðkallandi að gera á þessum l., um stofnlánadeild sjávarútvegsins. Sjútvn. tók frv. þetta til athugunar á ný og komst að þeirri niðurstöðu, að umr. yrðu talsverðar um þetta mál og að ef til vill kæmu fram sterkar kröfur um, að ýmsu yrði breytt í frv. Bráðabirgðaákvæðið, sem sett var með l. nr. 41 29. apríl 1946, um gjald það, er um ræðir í l. nr. 47 19. maí 1930, um fiskveiðasjóðsgjald, er tekið upp í 4. gr. l. nr. 81 1947, tölul. 1. b., en þar stendur, að gjaldið til fiskrannsóknastöðvar falli niður í árslok 1949. Er sjútvn. hafði rætt þetta mál, þótti rétt að bera nýtt frv. fram, og er því þetta frv. breyt. á l. frá 1947. Hinn 31. des. 1949 féll þetta ákvæði úr gildi, og er því ekki hægt að innheimta þetta útflutningsgjald af fiski, sem var 1/8 %, fyrr en frv. þetta verður lögfest. Með tilliti til þessa vil ég spyrja forseta, hvort hann sjái sér ekki fært að halda fundi um málið í dag og ljúka umr., og ætti þá að vera hægt að koma málinu. í gegnum hv. Nd. á morgun.