13.01.1950
Neðri deild: 29. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

88. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Það má nú segja, að með lögunum um bjargráðasjóð Íslands, sem samþ. voru á Alþ. 1913, hafi verið gerð tilraun til þess að koma á framfæri merkilegri hugmynd um það, að þjóðin reyndi að búa sig í sæmilegu árferði undir þau áföll, sem hún iðulega verður fyrir af náttúrunnar völdum, bæði af ísum og harðindum og öðrum óblíðum atvikum af náttúrunnar völdum. Og má segja, að þarna hafi verið myndarlega af stað farið, þar sem þjóðinni var ætlað, einstaklingum og héruðum og landinu í heild, að leggja á sig þau gjöld, sem á þess tíma mælikvarða, er þetta var ákveðið, voru mjög há, alls 50 aurar á hvern mann á landinu, sem mundi vera nú á mann um 5 kr. En einhvern veginn virðast þessi lög ekki hafa náð tilgangi sínum. Það virðist, að ekki hafi orðið úr þeim það, sem til stóð, og það smátt og smátt hafa fallið úr vitund þjóðarinnar, að þau væru til. Ég hygg, að ástæðan til þessa sé það form, sem lögin eru byggð á. Þau eru nokkuð þunglamaleg að formi til og erfið í vöfum. Og reynslan er sú, að þessi merkilega stofnun hefur verið mjög lítið notuð. Þar með hefur dofnað áhuginn fyrir þessu. Að vísu var gerð breyt. á l. 1925, sem átti að verða sú endurbót á þeim, að sjóðurinn yrði starfhæfari heldur en reynslan hafði sýnt að þeim tíma, að hann hafði verið eftir lögunum eins og þau voru í fyrstu. En sú breyt. hefur ekki fyllilega nægt í þessu efni. Þessari löggjöf hefur því ekki verið fylgt eftir á þann hátt, sem efni stóðu til og vert hefði verið, borið saman við hugmyndina sjálfa, sem var tilefni hennar, sem sé að tryggja þjóðfélagið gegn áföllum af harðindum og annarri þeirri óáran, sem við þekkjum vel frá sögu þjóðarinnar fyrr og síðar, að vilja heimsækja þetta land. Þannig hefur ekkert verið gert til þess að hækka þessi gjöld smátt og smátt. Og meira að segja á tíu ára tímabili voru þau alveg afnumin, þannig að sjóðnum féllu þá engar tekjur. Þetta hefur orðið til þess, að hann er máttvana og ekki eins öflugur og hann hefði getað orðið, ef vel hefði verið að honum búið.

Af þessum ástæðum er eins og mönnum detti ekki í hug að leita til bjargráðasjóðs vegna áfalla, sem eðlilegt hefði verið, að hann stæði að, að bæta úr að einhverju leyti. Ég tel aðalgallann á formi sjóðsins vera, að starfsemi hans sé um of takmörkuð við sýslufélögin, og að sjóðurinn sem heild er í eins konar liðum, þannig að hann verður ekki notaður, nema fyrir tilverknað sýslufélaga og ábyrgða, sem sýslufélög veita. Og eins og nú er komið, eru sýslunefndir mjög tregar að veita ábyrgðir og tregar til þess að taka þessi mál í sínar hendur. Og einstaklingar veigra sér við að leita aðstoðar sýslunefnda eða hreppsnefnda, þó að þeir þurfi á láni eða styrk að halda, þannig að þeir hafa heldur leitað allt annað heldur en til bjargráðasjóðsins.

Í sambandi við þau harðindi, sem urðu hér á landi á síðasta vori, var farið að athuga þessi mál ofurlítið nánar. Þá kom fram, að sums staðar var óskað eftir hjálp bjargráðasjóðs, styrkjum eða lánum, vegna áfalla, sem menn hafa orðið fyrir vegna mikilla kaupa á fóðurbæti og miklum fóðurkostnaði, og auk þess vegna fjárfellis, sem varð í ýmsum sveitum. Þá rak bjargráðasjóðsstjórnin sig á það, að mjög var örðugt að leysa þessi mál gegnum bjargráðasjóðinn, með því fyrirkomulagi, sem er á stjórn hans og rekstri. Og það er mjög vafasamt, að hægt sé, með óbreyttum l. um stjórn hans og rekstur, að aðstoða þau byggðarfélög, sem hafa óskað eftir aðstoð vegna harðindanna í vor. Þess vegna var það, að núverandi stjórn bjargráðasjóðs tók sig til og gerði tilraun til þess að gera nokkrar breyt. á þessum l. og leitast við að gera sjóðinn starfhæfari og léttari í vöfum, til þess að hann geti frekar fullnægt um aðstoð þeim tilgangi, sem fyrir þeim vakti, sem settu hann upphaflega á stofn. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er árangur af þeim athugunum, og vil ég fara um það nokkrum orðum.

Ýmsar gr. frv. eru óbreyttar frá því, sem verið hefur í l., en öðrum er breytt, sem ég skal lítillega minnast á.

Í fyrsta lagi er lagt til, að gjald til bjargráðasjóðsins verði hækkað upp í 2 kr. fyrir hvern mann, sem heimilisfastur er innan hvers sýslu- eða bæjarfélags. Þetta gjald kemur í stað 25 aura gjalds, sem áður var þannig innheimt til sjóðsins og hefur staðið í l. ákvæði um síðan 1913. Í öðru lagi er lagt til, að jafnhátt framlag verði greitt á móti frá ríkinu, eða 2 kr. á hvern mann, í stað 25 aura, sem nú gildir. Á þennan hátt er reynt að fylgjast með og mæta þeim breyt., sem orðið hafa á gildi peninganna frá því er sjóðurinn upphaflega var stofnaður. Og ef þetta verður samþ., mundi sjóðurinn fljótt vaxa og verða nógu öflugur til þess að standa að einhverju leyti undir þeim kvöðum, sem á hann eru lagðar. Rétt virðist annaðhvort að gera, að leggja sjóð þennan alveg niður og veita þessum málum í annan farveg, eða efla hann svo, að hann geti staðið undir þeirri styrktar- og hjálparstarfsemi, sem honum er ætlað.

Þá er breyt. á 4. gr. Nú er stjórn sjóðsins skipuð 5 mönnum, tveimur frá Búnaðarfélagi Íslands og tveimur frá Fiskifélagi Íslands og skrifstofustjóranum í félmrn. En við leggjum til, að stjórn sjóðsins verði aðeins skipuð þrem mönnum, formanni Búnaðarfélags Íslands, eins og nú er, forseta Fiskifélags Íslands, eins og líka nú er, og skrifstofustjóranum í félmrn. Teljum við nægilegt, að stjórn sjóðsins sé skipuð þrem mönnum, og yrði það léttara í vöfum.

Svo er breyting á endurskoðunarákvæðum. Þá kem ég að 9. gr., og í henni felst ein höfuðbreyt. Í lögum, sem nú gilda, er ákveðið, að sveitarfélögin, bæjarfélögin og sýslufélögin eigi sem séreign allt það fé, sem fellur til sjóðsins frá hverju sveitarfélagi, en sameiginlegi sjóðurinn myndist aðeins af því fé, sem ríkið leggur fram. Við leggjum til, að þessu verði breytt þannig, að aðeins helmingur af því fé, sem rennur í sjóðinn frá bæjar- og sveitarfélögum, verði séreign þeirra, en hinn helmingurinn renni inn í sameiginlega sjóðinn. Þetta er í samræmi við það, að við leggjum til, að aðalstarfsemi sjóðsins verði í gegnum almenna sjóðinn. Og þess vegna leggjum við líka áherzlu á, að hann aukist sem mest. Hins vegar teljum við, að sjálfsagt sé, að einstök sýslu- og bæjarfélög eigi nokkurn hluta af sjóðnum, sem þau geti ráðstafað samkvæmt reglum, sem þau selji sér þar um, en aðalsjóðurinn verði fyrir meginstarfsgreinar sjóðsins.

Í l., sem nú gilda um bjargráðasjóð, var gert ráð fyrir því, að sýslunefndir og bæjarstjórnir gerðu sérstaka samþykkt um hagnýtingu séreignarinnar í sjóðnum. En mér vitanlega hafa þessar reglur ekki verið gerðar, nema mjög óvíða, og vafasamt er, hvort þær hafi þá nokkurn tíma verið framkvæmdar, þannig að allt er á huldu um notkun sjóðsins. Þess vegna hefur þótt rétt að fella þessi ákvæði niður. En við teljum upp í 11. og 12. gr. frv., á hvern hátt heimilt skuli vera að verja fé úr sjóðnum, þ.e. þegar hallæri verður í sveitarfélagi af óvenjulegum harðindum eða langvarandi aflaleysi, eða tjón verður þar af náttúruvöldum á mannvirkjum eða búfé. Við getum hugsað okkur, að tjón eins og varð í Neskaupstað í Norðfirði nýlega verði bætt upp með fé úr bjargráðasjóði, að þannig verði úr sjóðnum heimilt að bæta upp ýmis áföll, sem enginn getur við ráðið. Og ætti að vera unnt að gera það, með styrk eða lánum, eftir því sem stjórn sjóðsins álítur, að þurfi í hvert skipti. Við ætlumst til þess, samkv. 12. gr., að þessi hjálp mætti verða veitt sem styrkur, í öðru lagi með lánveitingum til sýslu- eða sveitarfélaga og í þriðja lagi með lánveitingum til einstaklinga, sem fyrir tjóni hafa orðið, gegn veði í fasteign eða ábyrgð sýslu- eða sveitarfélags.

Það kom mjög glögglega fram t.d. á síðasta hausti, að margir þeir bændur, sem afhroð höfðu hlotið vegna vorharðindanna í vor og sóttu um aðstoð þess vegna, t.d. með lánum úr þessum sjóði, þeir höfðu fasteignir, sem þeir vildu veðsetja, og óskuðu heldur að njóta lána á þann hátt, en að þurfa að knékrjúpa sýslufélögum eða sveitarfélögum, sem treg voru að ganga í slíkar ábyrgðir. En þetta var ekki unnt að veita, vegna reglna sjóðsins. Og viljum við því ekki binda trygginguna fyrir lánum úr sjóðnum við sýslu- eða sveitarábyrgðir eingöngu.

Í 13. gr. er hér ákvæði um það, að ef horfur eru á því að hausti, eða ekki verði unnt að afla nægilegs forða og fóðurefna fyrir menn eða skepnur, svo duga mundi, ef illa vetraði, þá sé bjargráðasjóði heimilt að leggja fram lánsfé, til þess að veita það að láni einstökum sveitarfélögum, sem vildu tryggja sig gegn harðindum með því að afla sér viðaukaforða. Á þessu er og verður hin mesta nauðsyn. Okkur hættir alltaf til að gleyma þeirri hættu, sem steðjar alltaf að landinu með hinum óreglubundnu ísaárum, sem hér hafa komið, þó ekki hafi það verið nú um skeið, en geta komið í framtíðinni. — Það er einnig hér ákvæði í 14. gr. um það, að ef sjóðurinn reyndist þess ekki megnugur, vegna mikilla harðinda eða óáranar, borið saman við getu hans, að veita til stuðnings mönnum vegna hallæris lán, sem eftir væri sótt, þá sé ríkisstjórninni heimilt að ábyrgjast svo hátt lán sem þurfa þykir fyrir bjargráðasjóðinn, eða veita honum lán úr ríkissjóði, ef fé er þar fyrir hendi, meðan bjargráðasjóðurinn er ekki fær um að veita þessi lán. M.ö.o. breyt. frá eldri l. í þessu efni eru þannig, að áður var lánastarfsemin til eins sýslu- eða bæjarfélags bundin við séreign þess sýslu- eða bæjarfélags í sjóðnum. En hér er gert ráð fyrir, að ef hallæri er hjá einstökum sýslu- eða bæjarfélögum, þá sé heimilt að veita þeim lán úr sameiginlega sjóðnum. Og sömuleiðis ef sjóðurinn er ekki megnugur að veita nauðsynleg lán, þá megi grípa til lána úr ríkissjóði honum til aðstoðar, sem aftur eiga að greiðast ríkissjóði, þegar sjóðnum vex aftur fiskur um hrygg á hinum betri tímabilum.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta frv. að sinni. En ég vænti þess, að allir, sem hafa áhuga á þessu máli, reyni að leggja saman um það að fá þessum merkilega sjóði — vil ég segja — það form, sem fellur við þjóðfélagsháttu eins og nú er komið málum og líkur eru til, að geti orðið til þess að fyrirbyggja eða draga úr þeim áföllum, sem þjóðfélagið ella yrði fyrir af völdum harðinda og annarrar óáranar af náttúrunnar völdum.

Ég veit ekki vel, í hvaða nefnd þetta mál ætti að fara. Það gæti farið í allshn. En þegar það var á ferð hér síðast á þinginu, var það í landbn., og ég held, að ég geri það að till. minni, að því verði vísað til landbn.