26.01.1950
Neðri deild: 35. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

88. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað frv., sem prentað er á þskj. 187, um bjargráðasjóð Íslands. N. hefur orðið sammála um, að þær breytingar, sem lagt er til að gera á l. með frv. þessu, séu til bóta. Meginbreytingin er sú, að framlag einstaklinga og ríkissjóðs er hækkað til muna, enda eru l. í núverandi formi úrelt orðin. Má merkilegt heita, að ekki skuli fyrr hafa verið hafizt handa um endurskoðun þessara l. Önnur aðalbreyt., sem nú er verið að gera á l., er sú, að rýmkað er um afnot af sjóðnum í harðindum og hallærum. Forstöðumaður sjóðsins og skrifstofustjóri félagsmálaráðuneytisins hafa samið og gert að till. sinni þær breyt., sem hér er gert ráð fyrir. Eins og ég hef lýst, þá er n. sammála um afgreiðslu málsins, en hún hefur hins vegar lagt til, að þessar breytingar verði gerðar á frv. á þskj. 187:

1. Við 5. gr. Greinin orðist svo: Bjargráðastjórn skal gæta vel að öllu, er bendir til þess, að yfirvofandi hallærishætta sé fram undan, og skal hún vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um ráðstafanir, sem miða að því að afstýra hallæri.

Samkvæmt 5. gr. frv. er rekstur bjargráðasjóðsins ákveðinn í miðju frv., en n. hefur talið rétt að færa það atriði til loka frv. N. hefur einnig umorðað fyrri partinn, en þar er ekki um neina efnisbreytingu að ræða, heldur aðeins orðalagsbreytingu.

2. Við 10. gr. Greinin orðist svo:

Ráðherra getur veitt sýslunefndum og bæjarstjórnum heimild til þess að hækka bjargráðagjaldið um tiltekið árabil, þó ekki meira en um helming hins upprunalega gjalds. Sú hækkun rennur óskipt í séreignarsjóð viðkomandi sýslu- eða bæjarfélags.

gr. er umorðuð. Þar er í frv. t.d. talað um, að stjórnarráðið geti veitt sýslunefndum og bæjarstjórnum heimild til að hækka bjargráðagjaldið, en venja mun vera nú orðið að hafa „ráðherra“ frekar en „stjórnarráð“ í lagasetningum seinni ára.

3. Við 12. gr. Greinin verði 13. gr. og fyrsta málsgrein hennar orðist svo:

Nú hrökkva ekki til þess að afstýra hallæri þær ráðstafanir, sem 11. og 12. gr. gera ráð fyrir, og er þá bjargráðastjórninni heimilt að veita aðstoð úr sameignarsjóði með þeim hætti, er hér segir:

Hér er skipt um röð gr. Okkur fannst það eðlilegra, og verður því 13. gr. 12. gr.

Þá er brtt. við 14. gr., að í stað orðanna „svo hátt lán sem þurfa þykir“ komi: nauðsynlegt lán.

Varðandi 15. gr., sem verður ný gr., þá er gert ráð fyrir, að ráðherra setji reglugerð um rekstur sjóðsins, sbr. 5. gr. frv.

Það er ástæðulaust að fara fleiri orðum um þetta, en ég vil taka það fram, að nm. voru einhuga um þær brtt., sem n. gerði við frv., og það er einnig ósk nm., að frv. nál samþykki hins háa Alþingis og verði afgr. á yfirstandandi þingi.