30.03.1950
Neðri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Í desember s.l. var samþ. frv. um að framlengja þessi gjöld til 1. marz, og var ætlazt til af Þáv. ríkisstj., að þau yrðu framlengd til 15. maí, en það þótti nokkuð langt þá, og vildi t.d. hv. Framsfl. ekki framlengja þau nema til 1. marz, því að hann taldi, að áður yrðu fundnar þær lausnir á dýrtíðarmálunum, sem gerðu slíka framlengingu óþarfa. Síðan voru gjöld þessi framlengd til 1. apríl, og lausnin, sem átti að koma, sá fyrst dagsins ljós í marz, flutt í formi gengislækkunarfrv., sem búið var að ræða mikið áður og lítur út fyrir, að verði ekki harla góð lausn. Ég er undrandi yfir því, að frv. þetta er nú borið fram af hæstv. ráðh. úr Framsfl. Það muna líklega allir eftir því, að í kosningabaráttunni var gengislækkun að vísu eitt aðalmál Framsfl. sem nauðsynlegur liður í lausn efnahagsvandamálanna, en það var margtekið fram, að ekki kæmi til mála að fara þá leið, án þess að margar hliðarráðstafanir væru gerðar um leið til þess að létta byrðar gengislækkunarinnar á almenningi og koma í veg fyrir, að hún legðist með öllum sinum þunga á alþýðu manna. Þegar frv. um gengislækkun var flutt, fóru fram útvarpsumr. um vantraust á hæstv. þáv. ríkisstj., og sagði þá hv. form. Framsfl. um gengislækkunina og þær hliðarráðstafanir, sem henni þyrftu að fylgja, á þessa leið:

„En þótt þessi reynd blasi við, réttlætir hún alls ekki þá vinnuaðferð núv. ríkisstj. að þvinga fram gengisbreytinguna sem sjálfstæða ráðstöfun, slitna úr samhengi við aðrar aðgerðir og heildarstefnu. Í greinargerð frumvarps ríkisstj., er gefin von um frjálsari verzlun síðar, en ekki fyrst um sinn. En í frv. er þó ekki gert ráð fyrir neinum aðgerðum til að gera verzlunarhætti heilbrigðari, ekki til að útrýma svörtum markaði eða vöruokri, ekki til að koma í veg fyrir okurhúsaleigu, ekki til að framleiðendur geti fengið ódýrari rekstrarvörur, og eignarskatturinn er ekki fullnægjandi. — Verk hagfræðinganna var að reikna með köldum og vonandi klárum tölum, hvað gera þyrfti til þess, að framleiðslan haldi áfram og ríkissjóður geti flotið. En það þarf og að hugsa fyrir því, að málið sé svo réttlátlega fram borið, að alþýða manna viti það og trúi því, að Alþ. geri jafnhliða gengisbreytingunni ráðstafanir er sýni, að það vill gera og gerir allt, sem í þess valdi stendur, til þess að draga úr byrðum almennings. Þetta er ekki aðeins réttlætismál, heldur er þessi vinnuaðferð sú eina, sem gefur okkur rökstuddar vonir um það, að málið verði ekki ónýtt í framkvæmd, en ef svo færi, væri ástandið í fjármálum verra orðið en áður.“

Þetta eru orð hv. form. Framsfl., og þau eru ekkert annað en það, sem framsóknarmenn héldu alltaf fram á s.l. sumri. Þegar frv. um gengisbreytingu o.fl. var til umr., flutti hv. 2. þm. Reykv. (EOl) till. um ýmsar ráðstafanir til að draga úr áhrifum gengislækkunarinnar, sem miðuðu að því að skerða kjör almennings, en allar þessar brtt. voru felldar af Framsfl., m.a. till. um að koma nýrri skipun á verzlunarmálin, og Tíminn taldi það fjarstæðu að setja slíkt inn í það frv. Það ætti að koma sér, þegar hliðarráðstafanirnar yrðu gerðar. Og hvað gerist nú? Nú koma hliðarráðstafanirnar í þessu frv., sem hér liggur fyrir, og þær eru fólgnar í því að framlengja þá skatta, sem settir voru í dýrtíðarl. og eru áætlaðir 40 millj. kr. Það, sem vekur undrun mína, er, að þetta skuli vera hliðarráðstafanirnar, sem áttu að draga úr göllum gengislækkunarinnar. Ég hefði búizt við að fá frá hæstv. fjmrh. aðrar ráðstafanir. Ég skal ekki neita því, að það er nauðsynlegt að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög, en það er fullkomlega rétt hjá hv. þm. V-Ísf., að ástæða er til að athuga aðrar leiðir. Hv. þm. V-Ísf. sýndi og fram á, að þessi ráðstöfun virkar beint á móti þeim yfirlýsta tilgangi með gengislækkuninni og skapar aukna erfiðleika á því að afgreiða fjárl. tekjuhallalaus.

Þá vil ég fara örfáum orðum um aflatryggingasjóð, sem hæstv. fjmrh. sagði, að þyrfti 1.3 millj. kr. Í l. frá 1947 um dýrtíðarráðstafanir voru ákvæði um eignaraukaskatt, sem sagt var, að ætti að leggja á breiðu bökin, svo að auðmennirnir bæru sinn hluta af útgjöldum þjóðarinnar. Ríkisstj., sem lagði þennan skatt á, lét bara undir höfuð leggjast að innheimta þennan skatt. Tollar voru hins vegar innheimtir, og síðan er það fyrsta verk núv. hæstv. ríkisstj. að afnema skattinn að fullu, jafnframt því, að hún fellir gengið um 74%, og jafnframt því, að hún leggur til, að söluskatturinn og fleiri tollar séu framlengdir. Það er þannig fyrsta verk stj. að afnema l. um eignaraukaskatt frá 1947, sem ekki höfðu verið framkvæmd, en sá skattur átti að verulegu leyti að ganga til aflatryggingasjóðs. Hinar víðtæku hliðarráðstafanir, sem mest var talað um á sínum tíma, eru því afnám eignaraukaskattsins og framlenging á sköttum., sem nema 40–50 millj. kr. Og þetta er gert, þó að búið sé að framkvæma 74% gengislækkun, sem sagt var, að gerð væri fyrir sjávarútveginn og til þess að koma á jafnvægi.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta nú. Ég vildi aðeins lýsa afstöðu minni til málsins, og ég get sagt um leið, að Sósfl. er á móti því að framlengja þessar álögur.