25.04.1950
Neðri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Árn. hefur nú fyrir hönd meiri hl. allshn. gert grein fyrir áliti n. á þeim brtt., sem fyrir liggja, og m. a. þeim, sem ég flyt. Það vill svo undarlega til hjá hv. þm., að hann færir það aðallega fram gegn þessum till., að hann sé samþykkur þeim og þær séu svo sjálfsagðar, að ekki þurfi að taka efni þeirra fram í l. Og finnst mér það harla einkennilegt, ef farið er að líta svo á hér við lagatúlkun, að l. séu of skýr. Það hefur komið fram á Alþ.,ríkisstj. hefur þurft að gefa, út brbl. til að skýra l., sem hefur verið búið að samþ. Og með allri virðingu fyrir okkur, sem hér sitjum, þá hygg ég, að það væri ekki nema gott, að l. væru. svo skýr, að enginn vafi gæti leikið á um það, hvað þau meintu. Ég held þess vegna, að með tilliti til dómaranna, sem eiga að dæma eftir l., og með tilliti til ríkisstj., sem á að ákveða verkaskiptinguna eftir l., þá sé betra, að l. séu svo skýr, að ekki verði um það villzt, hvað þau meini, svo að ekki verði farið að hártoga þau á eftir. Ég hygg því, að betra verði upp á framkvæmd l., ef hv. 1. þm. Árn. vill láta framkvæma þau í þeim anda, sem hann talaði um áðan, að samþ. mínar till. heldur en að fella þær.

Brtt. á þskj. 571 er um það, að verksvið verðgæzlustjóra verði einnig að koma í veg fyrir svartan markað, gjaldeyrisbrask, óleyfilegan vöruinnflutning og vörusölu í landinu. Það sama álit, sem kom fram hjá hv. þm. Árn., kom einnig fram hjá hæstv. landbrh., þegar hann talaði við 1. umr. málsins. Ég vil taka það fram, að þetta er mjög þýðingarmikið atriði. Sá verðlagsdómstóll, sem settur er með II. kafla l., á að dæma fyrir brot á þessum l., og þessi dómstóll er skipaður með nokkuð sérstökum hætti, og samtök fólksins í landinu fá á vissan hátt að fylgjast með dómum hans, og meira að segja, þótt ekki eigi að skipa dóminn nema eftir öðrum kafla, sem ég tel galla, þá er hann samt sem áður mjög frábrugðinn öðrum dómstólum í landinu, vegna þess að hann er dálítið í átt við kviðdóm og undir áhrifum fólksins beint, en ekki hreinn embættismannadómstóll. Ef mín brtt. er samþ., sem hv. 1. þm. Árn. og líklega öll n. er sammála um, að eigi rétt á sér, þá mundi það heyra undir verðgæzlustjóra og verðlagsdómstól að sporna gegn svörtum markaði, gjaldeyrisbraski, óleyfilegum vöruinnflutningi og vörusölu í landinu. Það gæti með öðrum orðum þýtt það, að mál, sem ríkisstj. er interessuð í að kæfa og sjá um, að ekki sé farið að rannsaka — og hún hefur valdið yfir dómstólunum og getur gert slíkt og ekki sízt, þegar ákæruvaldið er í hendi dómsmrh. að þau yrðu tekin upp fyrir verðlagsdómstóli, þ. e. a. s. fólkið í landinu hefur að vissu leyti þarna aðstöðu til þess að taka þessi mál upp og fá þau rannsökuð. Þess vegna mundi það vera nokkurt öryggi í baráttunni móti því gífurlega vörusmygli, sem hér á sér stað og ríkisstj. veit um, þegir yfir og lætur ekki rannsaka, ásamt því gjaldeyrisbraski og þeim tollsvikum og þeim óleyfilega innflutningi, sem framinn er með vitund ríkisstj. og vilja. Fólkið í landinu, sem er óánægt yfir þessu ástandi, gæti fengið málin tekin upp, ef till. mín er samþ., og það mundi draga úr þeirri pólitísku spillingu, sem hér á sér stað nú í sambandi við þessi mál, og um leið mundi það skapa almenningi meira öryggi. Hv. 1. þm. Árn. segir, að þetta sé meiningin eins og 1. gr. frv. sé orðuð. Ekki liggur nein yfirlýsing fyrir frá hæstv. dómsmrh. um slíkt. Ég gæti trúað því, ef verðgæzlustjóri ætlaði að fara að skipta sér af óleyfilegri vörusölu og svörtum markaði og öðru slíku og ætlaði að rannsaka það til fullrar hlítar, að þá yrði sagt við hann á ákveðnu stigi málsins: Þetta er mál, sem eftir þessum l. kemur þér ekki við, heldur heyrir það undir hina almennu dómstóla. — Og hjá þeim almennu dómstólum yrði það kæft niður. Sé það þess vegna meiningin, að hér sé meirihlutavilji fyrir því, að efni þessarar till. heyri undir þennan verðlagsdómstól, þá er nauðsynlegt að bæta þessu inn í frv. Ef það verður ekki gert, þá er ég hræddur um, að það eigi eftir að sýna sig, að framkvæmd þessara l. verði tómt „humbug“. Og ef til vill er það einmitt það, sem samið hefur verið um milli stjórnarflokkanna, að með afgreiðslu þessa máls eigi það að verða tómt „humbug“, en hins vegar eigi svo að hafa fögur orð um, að þetta felist í l. Svo þegar stjórnarvöldin eiga, að fara að túlka l., þá býst ég við, að Framsfl. þvoi sínar hendur og segi, að framkvæmd l. heyri undir ráðh. Sjálfstfl. Ég er þess vegna ákaflega hræddur um það, sé Framsfl. einhver alvara með að ganga vel frá þessum málum, að þá mundi hann binda þetta fastar í l., eða eins og hér er lagt til. Það er því alveg fráleitt að fella þessa brtt. á þskj. 571 með þeim forsendum, að þetta heyri undir l. Fyrst og fremst vegna þess, að það hefur aldrei þótt of skýrt að orði kveðið, hvað heyrði undir l. og hvað þau meintu, og í öðru lagi vegna þess, að eigi l. að koma að verulegu gagni, þá þarf að bæta þessu í frv.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 573, sem er við 3. gr. frv. Hv. 1. þm. Árn. sagði, að ekki væri nauðsynlegt að tiltaka þetta sérstaklega, sem brtt. fjallar um, vegna þess að það heyri undir l., að verðgæzlustjóra sé skylt að gera ýtarlegar og rökstuddar tillögur til fjárhagsráðs um verðlag í landinu. Mér þykir dálítið vænt um að fá þessa yfirlýsingu frá hv. þm., að efni þessarar till. felist í frv. Þegar verið var að ræða þetta mál hér nú fyrir nokkru, þá gaf sjálfur forsrh. yfirlýsingu um, hvað ætti að heyra undir þessi l. Þegar ég bar fram þessa brtt., endurtók hæstv. forsrh. yfirlýsingu sína, og það var alveg greinilegt, að hann meinti það, að verðgæzlustjóri ætti rétt á að senda svona till. Ég held nú satt að segja, að það sé ekki neinum manni bannað að gera till. um verðlag til fjárhagsráðs og sízt af öllu verðgæzlustjóra. Hitt er svo aftur á móti allt annað, að leggja þá skyldu á herðar verðgæzlustjóra — eins og ég vil, að gert sé með þessari brtt. —, að senda slíkar till. til fjárhagsráðs.

Það þýðir m. ö o., að hann sem embættismaður ríkisins er skyldaður til að gera þessa hluti, og það þýðir það, að fjárhagsráð byggir á hans till. fyrst og fremst. Nú lýsti hv. 1. þm. Árn. því yfir, að hann sé sammála þessari till. minni og þar með því, að hann sé því sammála, að verðgæzlustjóra skuli vera skylt að gera þetta. En mér virtist hæstv. forsrh. vera að draga úr því, hann vill bara gefa honum þennan rétt, en ekki leggja þessa skyldu á herðar hans. Hv. 1. þm. Árn. vill láta fella brtt., vegna þess að ekki sé nauðsynlegt að samþ. hana, því að þetta heyri að sjálfsögðu undir verðgæzlustjóra. Nú er það svo, að þessar tvær setningar, sem ég hef gert till. um, að bætt yrði við 3. gr., eru orðréttar og breytingalaust teknar upp úr þessu frv., eins og það var borið fram af hv. þm. Str. og hv. þm. S-Þ. í Ed. Þá byrjar 3. gr. á þessum tveimur setningum. Þær voru svo felldar burt í Ed., líklega samkvæmt samningi stjórnarflokkanna. Og enn fremur stóð í 4. gr. upprunalega frv.: „Fjárhagsráð skal að fengnum till. verðgæzlustjóra ákveða hámarksverð“ o. s. frv. — Með öðrum orðum, í Ed. virðist hafa orðið samkomulag um að fella niður einmitt það, að verðgæzlustjóra væri skylt að gera ýtarlegar og rökstuddar till. um þetta og að fjárhagsráð skyldi að því búnu taka sínar ákvarðanir. Nú vildi ég spyrja hv. 1. þm. Árn., hvort það hafi verið samkomulag milli Framsfl. og Sjálfstfl. í hv. Ed., þegar svona var breytt um, að enda þótt þetta ákvæði félli burt, skyldu l. skiljast svona eftir sem áður, eins og þetta hefði ekki fallið burt, og hvort það hefði verið gert til hægðarauka dómurum, sem dæma eiga eftir l., eða hvort það eigi að kveða upp dóma eingöngu eftir því, hvað menn segja hér í Alþ. um l., þegar þau eru til meðferðar, — og þegar umræðurnar koma ekki út fyrr en tveimur árum eftir að þær eru fluttar á Alþ., hvort þá eigi að dæma eftir lagabókstafnum fyrst í tvö ár og aftur eftir umr. á Alþ., þegar þær hafa verið prentaðar, eða eftir l. í undirrétti og svo eftir umr. á Alþ. í hæstarétti. Ég skýt því til hv. 1. þm. Árn., hvort honum finnist ekki réttara líka eftir reynslu, sem Framsfl. hefur af Sjálfstfl., að ef samkomulag er um það, að þetta lagaákvæði eigi að skiljast sem inni í 3. gr. frv., hvort það væri ekki betra, svona til fullnaðarvissu, að skjóta þessu inn í. Ég er ekki hræddur um, að hv. Ed. færi að breyta þessu aftur, þó að þetta væri sent til hennar. Ég held hins vegar, að það hafi vakað fyrir flm. þessa máls í upphafi, að það væri nauðsynlegt að hafa þetta inni í frv., og ég held, að sú nauðsyn sé til staðar enn. Þess vegna vil ég nú eindregið mælast til þess, vegna þess að ég heyri, að hv. 1. þm. Árn. er samþykkur efni þessara brtt., sem ég flyt, að hann treysti ekki allt of mikið á framkvæmd Sjálfstfl. á þessum málum, þó að nú sé ástrík samvinna þarna á milli, og á skilning dómstólanna í landinu á hans ummælum um þetta mál í Nd. Alp., heldur geri lögin þannig úr garði, samkvæmt sammála till. hv. þm. Str., hv. þm. S-Þ. og mínum, að það geti enginn maður efazt um í þessu efni, hvað eigi að gera.