28.04.1950
Neðri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

49. mál, húsaleiga

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það eru aðeins fá orð út af ræðu fyrri þm. Árn. Hv. frsm. taldi óeðlilegt, að við sósíalistar skyldum ekki snúast til fylgis við þá lausn, sem hann hefur lagt til í málinu, þar sem það sé sú sanngjarnasta leið, sem samkomulag náist um. Ég hef viðurkennt, að húsaleigulögin eru að mörgu leyti ósanngjörn, en þess verður bara að gæta, að það er mikill meiri hluti fólks, sem hefur hagsmuna að gæta í því efni, að þau séu látin halda gildi. Auk þess eru fleiri þeirra, sem hagsmuni hafa af því að þau séu afnumin, efnaðir menn, sem gildi laganna skiptir raunverulega litlu máli fyrir, að minnsta kosti fjárhagslega. Ég vil líka benda á, að afnám húsaleigulaganna á þessum tíma, þegar dýrtíðin margfaldast og atvinnuleysi færist í aukana, getur haft mjög alvarlegar afleiðingar hér í Reykjavík og víðar í bæjum og meira að segja skapað alveg óleysanleg vandræði. Þess vegna vil ég undirstrika það, að það hvílir ábyrgð á þeim, sem beita sér nú fyrir afnámi þessara laga.

Í dag sendir Leigjendafélag Reykjavíkur bréf, þar sem varað er við þessu frv. og bent á, hvaða vandræði geti af því hlotizt.

Ég leyfi mér að vænta, að Framsfl. endurskoði afstöðu sína í þessu máli, eftir að rifjaðar hafa verið upp fyrir honum lýsingarnar, sem hann gaf sjálfur í Tímanum í vetur og 2. þm. Reykv. las hér upp. Eftir þeim yfirlýsingum ætti þessi flokkur ekki að fara nú að taka þátt í að skapa enn meiri vandræði í húsnæðismálunum. hér í Reykjavík en þau, sem hann hefur lýst svo átakanlega. Ég get vel fallizt á, að húsaleigulögin verði lagfærð og leiðréttir þeir ágallar, sem ég hef áður minnzt á, en hins vegar sé ég ekki nein rök með því að afnema þau.

Allt bendir líka til þess, að þær ráðstafanir, sem gera á, þegar húsaleigulögin hafa verið afnumin, til þess að koma í veg fyrir óhóflega dýra húsaleigu, verði einskis virði í framkvæmd, enda er það vitað mál, að það nægir ekki, þó að Alþingi ákveði að ekki skuli okra á húsnæði. Það má því eins vel búast við, að afnám húsaleigulaganna leiði beint til okurs í ýmsum tilfellum, auk þess öngþveitis, sem það skapar.

Ég vil svo enn einu sinni mælast til þess, að hv. þm. felli þetta mál, vegna þess að það leiðir til skerðingar á hagsmunum þeirra, sem sízt mega við því, og getur orðið til þess að skapa öngþveiti, sem erfitt verður að leysa úr.